13.04.1981
Neðri deild: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3678 í B-deild Alþingistíðinda. (3754)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Fyrir hönd þm. Framsfl. hér í deildinni vil ég taka eftirfarandi fram:

Aðalfundur miðstjórnar Framsfl., sem haldinn var 3.–5. apríl s. l., lýsti stuðningi við byggingu nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli, enda er það forsenda fyrir aðskilnaði hers og þjóðar sem Framsfl. leggur höfuðáherslu á. Við myndun þeirrar ríkisstj., sem nú situr, samþykktu þingflokkur og framkvæmdastjórn Framsfl. hins vegar að ekki yrði ráðist í framkvæmdir við flugstöðvarbyggingu á Keflavikurflugvelli nema með samkomulagi allrar ríkisstj. Framsfl. mun vinna að því, að samkomulag náist í ríkisstj. um byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Slíkt samkomulag liggur enn ekki fyrir. Því er ekki tímabært að ákveða nú lántöku vegna byggingar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli og því segi ég nei.