05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3951 í B-deild Alþingistíðinda. (4007)

268. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hann er sérkennilegur, þessi æsingamálflutningur sem nokkrir hv. þm. stjórnarandstöðuarms Sjálfstfl. viðhafa hér á Alþingi. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson kemur hér hvað eftir annað og hrópar um stjórnarskrárbrot, og hv. þm. Geir Hallgrímsson flutti hér ræður fyrir nokkrum dögum þar sem hann boðaði að núv. hæstv. ríkisstj. væri að innleiða hér lögregluríki. Hvers konar vanstilling er þetta eiginlega? Og fyrst er verið að vitna í þann lagaprófessor sem Eyjólfur Konráð Jónsson telur greinilega merkan heimildarmann til þess að byggja málflutning sinn á, þá er nauðsynlegt að hér komi fram að þessi fullyrðing Geirs Hallgrímssonar um að frv. ríkisstj. um verðlagsmál og fleira leiddi hér til lögregluríkis, þessi ummæli Geirs Hallgrímssonar voru líka borin undir þennan hæstv. lagaprófessor. Og hver varð niðurstaðan? Þessi lagaprófessor upplýsti það, að þessi alvarlegu ummæli Geirs Hallgrímssonar væru fjarstæða, það væri ekkert í þessu frv. sem leiddi til lögregluríkis. En hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson þegir greinilega yfir því, hvers konar einkunn aðalleiðtogi Sjálfstfl. og stjórnarandstöðunnar fékk hjá þeim lagaprófessor sem hann var að vitna til áðan.