24.11.1980
Neðri deild: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um tekju- og eignarskatt sem ég flyt ásamt hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, Friðrik Sophussyni og Halldóri Blöndal.

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er ekki nýtt af nálinni og hefur verið rætt á öllum stigum þeirrar lagasetningar sem hér er lagt til að breyta. Þegar lögin komu fyrst til umr. hér í þinginu, sem sett voru 1978, voru menn strax mjög tortryggnir á ákvæði 59. gr. þeirra laga og varð um það allmikil umr. hér á fundum í Alþ. sjálfu og án efa í þingflokkunum flestum. Mér er það vel í minni, að ég tók þátt í umr. um þetta mál strax í undirbúningi og lýsti þá eins og ýmsir aðrir áhyggjum út af því, ef þetta ákvæði yrði þar að lögum. Ekki varð um það samstaða að fella ákvæðið niður á því stigi málsins, en gerð var tilraun til að beita sérstökum viðmiðunarreglum í sambandi við ákvörðun á tekjum og þess vænst, að það mundi nægja til þess að ekki hlytist skaði af, og það látið gott heita að sinni. Ýmsir voru þó vantrúaðir á það. Mér þykir rétt að minna á að þegar það frv. kom til umr. hér í hv. Nd. 1978 sagði hv. þáv. þm. Lúðvík Jósepsson þetta m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Mér er t.d. spurn hvernig á að ákveða laun, persónulaun, til trillubátamanns, sem gerir út í fjóra eða fimm mánuði lítinn trillubát, eða þess manns sem rekur atvinnubíl og þar getur verið um það að ræða að bíllinn sé ýmist rekinn hérna á höfuðborgarsvæðinu eða norður á Raufarhöfn, svo dæmi séu tekin. Vitanlega eru tekjumöguleikar þessara manna, sem hér eiga hlut að máli, geysilega misjafnir og það getur því verið miklum vandkvæðum bundið að ákvarða þessum mönnum réttlátar persónutekjur.“

Eins og sjá má af þessu var hv. þm. mjög uggandi um að unnt væri að áætla mönnum tekjur eftir þessum reglum þannig að nokkurt vit væri í. — Það væri hægt að leiða hér fram ýmsa fleiri vitnisburði í þessu efni, en ég hirði þó ekki um að gera það að þessu sinni.

Það kom í ljós við nánari skoðun þessara mála, að þetta ákvæði væri líklegt til þess að valda verulegri mismunun í skattaálögum. Þegar lögin komu til endurskoðunar í ársbyrjun 1980 var þetta mál tekið upp hér í þinginu. Þá beittu einmitt þeir sömu þm., sem þetta frv. flytja, sér fyrir því að bera fram brtt. sem hneig í sömu átt og þetta frv. gerir. Að því sinni var þeirri brtt. hafnað á Alþ. með nokkrum atkvæðamun. En þess er vert að geta, og það er til umhugsunar, að allmargir sátu hjá við þá atkvgr. svo að það er ekki fjarri lagi að ætla að nú geti annað orðið ofan á í meðförum þingsins að þessu sinni, enda liggja nú fyrir niðurstöður um hver reynsla er fengin af þessu, þó að ég hafi ekki enn aflað mér upplýsinga, sem óyggjandi séu, frá skattyfirvöldum. Ég mun leitast við að útvega þær upplýsingar, við hversu marga menn þetta hefur komið og á hvern hátt, sem ekki liggja fyrir enn. Ég hygg að ég muni það rétt, að fyrir Alþ. liggur fsp. um þetta efni sem enn hefur ekki verið svarað, og siðast þegar ég vissi til var ekki þess að vænta alveg strax.

Það er skemmst frá því að segja, og það lýsir því nokkuð greinilega, hversu þetta hefur komið við álagninguna að þessu sinni, að risið hafa upp allmiklar mótmælaaðgerðir vegna þessara ákvæða í lögunum. Ég vil minna á að 7. okt. í haust voru hæstv. forsrh. og hæstv. landbrh. afhentar undirskriftir um 2000 bænda þar sem skorað var á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að 59. gr. og samverkandi greinar núgildandi skattalaga yrðu afnumdar. Þessir 2000 bændur eða því sem næst, sem hér um ræðir, voru af takmörkuðu svæði á landinu, en það var ekki vegna þess að það væri ekki vissa fyrir að víðar væru menn sömu skoðunar, heldur vannst ekki tími til á þeim árstíma, sem þarna var til umráða, að leita vítt um land. Þessar undirskriftir munu fyrst og fremst vera komnar úr tveimur kjördæmum, Norðurlandi'vestra og Vesturlandi, hluta af Vestfjörðum og hluta af Suðurlandi.

Það mætti ætla af því, sem ég hef nú sagt, að það væri fyrst og fremst um það að ræða að hér væri um óeðlilegar álögur á bændur að ræða. Það er að vísu rétt, að lagaákvæði sem þessi koma mjög illa við bændur, fyrst og fremst fyrir þá sök að sá atvinnurekstur sem landbúnaður er, hann er í langflestum tilfellum vettvangur einnar fjölskyldu og fellur því beint undir þetta ákvæði skattalaganna. En eins og komið hefur fram áður í máli mínu og í tilvitnuðum orðum eftir hv. fyrrv. alþm. Lúðvík Jósepssyni snertir þetta miklu fleiri aðila, og þó að þeir hafi ekki risið upp til andmæla í þessu efni er ekki síður vert að leitast við að taka tillit til þeirra og þeirra skoðana sem þetta á annað borð verkar á.

Ég hef orðið þess áskynja, að þetta hefur komið mjög illa við t.d. þá menn sem eru með smærri verslunarrekstur á sínum vegum þar sem þeir starfa að mestu leyti einir við verslun. Ég vil minna á að í tímaritinu Frjálsri verslun hefur þetta verið gert nokkuð að umræðuefni. Þar er tekið dæmi af einum slíkum kaupmanni sem hafði dregið saman rekstur sinn af eðlilegum ástæðum. Matvælaverslunin færist meir og meir yfir á stærri markaði, en eigi að síður er erfitt fyrir þá, sem hafa verið með slíkan rekstur í smærri búðum, að hætta honum algjörlega og neytendurnir kæra sig ekki heldur um að svo verði. En hér er tilgreint dæmi um mann sem hafði orðið að draga saman rekstur sinn og starfaði nú einn. Hann taldi fram tekjur á skattframtali, sem honum virtust koma út úr versluninni, 3.6 millj. kr., en þá stóð verslunarreksturinn á núlli. Samkvæmt þeim lagafyrirmælum, sem eru í skattalögunum, bar skattstjóra skylda til að setja honum hærri tekjur og voru laun hans hækkuð í 6.4 millj. kr. og hækkuðu því um 2.8 millj. Þó að þessi sama fjárhæð hafi verið færð til gjalda á rekstrarreikningi og sem tap á atvinnurekstri hans, sem var færður yfir til næsta árs, breytir það ekki því, að til grundvallar við tekjuskatts- og útsvarsálagningu er lagt á 6.4 millj. í staðinn fyrir 3.6 millj. Það má öllum vera ljóst að slík ákvæði eru ekki samrýmanleg því sem maður getur kallað almenna réttlætiskennd, og það er ekki samrýmanlegt þeim hugmyndum sem við höfum um það, hvað eru tekjur sem hægt er að leggja á og hvenær er um eignaupptöku að ræða. Í þessu tilviki held ég sé komið einmitt mjög nálægt því sem segir að sé eignaupptaka.

Ég sé ekki ástæðu til þess að svo komnu máli að hafa mörg orð um þetta frv. Það er búið, eins og ég hef tekið fram, að vera hér til umfjöllunar í ýmsu formi áður og ég vænti þess, að menn séu þeirra umr. og þeirra athugana minnugir og vilji gaumgæfa þetta mál. En áður en ég lýk máli mínu vil ég aðeins koma að því, að á aðalfundi Stéttarsambands bænda, sem haldinn var á Kirkjubæjarklaustri um mánaðamótin ágúst — sept. í haust, var samþykkt ályktun um þetta efni, samþykkt samhljóða. Ég vil hér, fyrst tækifæri gefst, kynna þá ályktun hv. þdm., með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalfundur Stéttarsambands bænda 1980 telur að nú sé komið skýrt í ljós að gildandi skattalög mismuni skattgreiðendunum svo að óviðunandi sé. Fundurinn beinir því til stjórnar Stéttarsambandsins að kanna ítarlega, hvaða ákvæði laganna valdi þessu óréttlæti, og knýja á um að fá leiðréttingu á þeim er nái til álagningar þessa árs án þess að kært sé. Bendir fundurinn sérstaklega á 7., 53. og 59. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt í þessu sambandi. Þá skorar fundurinn á fjmrn. og ríkisskattstjóra að samræma vinnubrögð skattstofanna, því að algerlega er óviðunandi að skattþegnum sé mismunað eftir því í hvaða skattumdæmi þeir búa, eins og virðist koma fram í álagningu skatta á bændur á þessu ári.“

Það er litlu við þetta að bæta. Ég vil þó geta þess, að þetta frv, tekur til ákvæða 7. gr., 31. gr. og 59. gr. laganna. Það tekur ekki til ákvæða 53. gr., enda var það ákvörðun okkar flm. að einskorða frv. við það efni sem við tókum til meðferðar á síðasta þingi í brtt. sem við bárum þá fram. Það er aðalatriðið að mínum dómi að fá leiðréttingu á því máli. Ákvæði 53. gr., sem ég tel vera vafasöm, þurfa enn þá nánari skoðunar við, en ég vildi ekki og kusum við ekki að svo komnu máli að taka það með í þetta lagafrv.

Ég vænti þess, að hv. Alþ. beri gæfu til að taka þannig á þessu máli að leiðrétting fáist á því óeðlilega ákvæði sem í lögunum er. Ég segi „óeðlilega ákvæði“ vegna þess að það stríðir algerlega gegn þeirri hugmynd, sem við höfum um skattstofn, að leggja tekjuskatt á annað en raunverulegar tekjur. Vegna þess að þetta er sannfæring okkar höfum við lagt fram þetta frv. í trausti þess, að menn hafi nú séð að það á við rök að styðjast að þetta sé óeðlilegt ákvæði.

Ég vil svo leggja til, herra forseti, að frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.