15.12.1981
Sameinað þing: 36. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1571 í B-deild Alþingistíðinda. (1301)

133. mál, atvinnutækifæri á Suðurlandi

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Það er erfitt að koma í ræðustól á eftir svona skemmtilegum ræðumanni. En ég vil byrja á því að taka undir það sem hann sagði um brúna. Það hefur vaxið þm. feikilega í augum þegar við höfum rætt um brú á Ölfusá. Þessi brú er áætluð á verðlagi dagsins í dag með malbikuðum vegum að og frá 42 millj. kr. En umtalið um brúna hefur orðið til þess, að ekkert hefur verið gert í höfnunum á Stokkseyri og Eyrarbakka. Ef þær fengju álíka mikla þjónustu og aðrar hafnir landsins kostar það að mati vita- og hafnamálaskrifstofunnar 185 millj. kr., meira en fjórum sinnum meira en brúin. Það er svona mikill sparnaður í reynd af brúnni, því að hún á að koma í staðinn fyrir báðar þessar hafnir. En menn hafa séð ofsjónum yfir þessum kostnaði af brúnni.

Erfiðleikar atvinnulífs á Suðurlandi stafa af mörgum ástæðum. Mestur hluti svæðisins er hafnlaus, en byggðastefna undanfarinna ára hefur svo til öll beinst að eflingu sjávarútvegs og iðnaðar. M. ö. o.: byggðastefnan hefur að mestu farið fram hjá Suðurlandi eða stærstum hluta Suðurlands. Suðurland er stærsta mjólkurframleiðslusvæði landsins. Samdráttur í mjólkurframleiðslu, sem vissulega hefur verið verulegur núna síðustu árin, kemur því harkalega niður á landshlutanum. Svo bætist það við, eins og fram kom mjög skýrlega í ræðu hv. 2. þm. Suðurl., að nú er verulegur samdráttur í virkjunarframkvæmdum sem þó hafa verið uppistaða í vinnu um áratugabil, liggur mér við að segja, þannig að vandinn vex enn.

Herra forseti. Þáltill. er mjög tímabær og ég styð hana eindregið.