15.12.1981
Sameinað þing: 36. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1576 í B-deild Alþingistíðinda. (1303)

133. mál, atvinnutækifæri á Suðurlandi

Jón Helgason:

Herra forseti. Ég vil taka undir efni þessarar þáltill. um að athugun sé gerð á því, hvernig hægt er að greiða fyrir uppbyggingu atvinnulífs á Suðurlandi, og jafnframt taka undir með hæstv. iðnrh. um það, að ég tel að Suðurland bjóði upp á marga möguleika, eins og alls staðar er að finna hér á landi, þó að þeir séu nokkuð misjafnir eftir landshlutum, séu ekki alls staðar þeir sömu. Þessa möguleika til iðnaðaruppbyggingar á Suðurlandi höfum við vegna þeirra landkosta sem þar eru á ýmsum sviðum. Hér hefur verið nefnd orkan, bæði vatnsorka og jarðhiti. Við teljum einnig að við höfum jarðefni sem æskilegt og hagkvæmt sé að nýta. Ég vil benda á það, að ég ásamt fleiri þm. Suðurl. hef flutt hér á Alþingi till. til þál. um að stuðla að aukinni kornrækt á Suðurlandi, og þar tel ég að möguleikar séu einnig fyrir hendi í fleiri landshlutum, m. a. í Austurlandskjördæmi. En ég tel einnig að það séu miklir möguleikar á Suðurlandi til atvinnuuppbyggingar vegna þess að þar býr duglegt og framtakssamt fólk, ekki síður en annars staðar hérlendis, sem hefur vilja til að byggja upp atvinnulíf. Ég held að þess vegna sé ekki þörf á því fyrir okkur að kalla eingöngu til opinbera aðila og biðja þá um að gera allt, þar sem viljinn er til heima fyrir. En það, sem við erum að fara fram á, er að fá nauðsynlegan stuðning til þess að hagnýta möguleikana og hrinda vilja fólksins í framkvæmd.

Það er rétt, að samvinnufélögin á Suðurlandi hafa lyft grettistaki. Þau hafa á undanförnum áratugum sigrast á þeim margvíslegu erfiðleikum, sem þar var við að glíma, og allt aðrar aðstæður eru nú orðnar í dag. Samvinnufyrirtækin hafa þar eins og víða annars staðar verið burðarásinn í uppbyggingu atvinnulífs. En því miður hefur það gerst á síðustu árum, að það hefur þyngst fyrir fæti., t. d. fyrir dreifbýlisverslun, sem samvinnufyrirtækin annast, þannig að geta þeirra til áframhaldandi atvinnuuppbyggingar er ekki jafnmikil og æskilegt er. Ef koma á af stað atvinnufyrirtæki nú þarf í upphafi mikið fjármagn sem er svo dýrt hjá okkur að það er ákaflega erfitt fyrir einn eða örfáa einstaklinga að leggja það allt fram og standa undir því meðan verið er að byggja upp atvinnureksturinn. Þess vegna er þörf á stuðningi með samtökum einstaklinga í samvinnufélögum eða með samtökum sveitarfélaga, eins og iðnrh. benti á að Sunnlendingar hafa gert, þar sem þeir hafa bæði stofnað samtök allra sveitarfélaga á Suðurlandi til iðnaðar, athugunar á iðnaðaruppbyggingu, og enn fremur til að leggja í iðnþróunarsjóð sem einmitt er ætlað það hlutverk að létta undir fjármagnskostnaði við að koma svona verkefnum af stað. Möguleikana er sem sagt vafalaust víða að finna og það er víða að finna áhuga á að hagnýta þá.

Ég var t. d. í matarhléi núna að ræða við mann, útlending, sem var að benda á möguleika sem við hefðum til að byggja upp smáiðnað sem e. t. v. hefði þá kosti að ekki þyrfti að fara allt of stórt af stað, en hægt væri að byggja upp í áföngum.

En það, sem ég vil sérstaklega leggja áherslu á, er að opinberar stofnanir og starfsmenn þeirra mega ekki hafa allt of mikla vantrú á þeim möguleikum, sem eru á hagnýtingu landkosta á Suðurlandi, og getu Sunnlendinga til þess að hagnýta þá. Þær þurfa að treysta því, að það, sem þar er verið að reyna að byggja upp, sé á raunhæfum grunni byggt.