04.03.1982
Sameinað þing: 60. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2866 í B-deild Alþingistíðinda. (2411)

225. mál, úttekt á svartri atvinnustarfsemi

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég vil færa þakkir þeim tveim hv. þm. sem hér hafa talað, Guðrúnu Helgadóttur og Stefáni Guðmundssyni, fyrir góð orð um efni þessarar till. En ég vil aðeins vegna orða hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur leggja aftur á það áherslu og ítreka það, — raunar kom fram sá skilningur hjá henni og einnig h já hv. þm. Stefáni Guðmundssyni, að þessi till. er ekki svona flutt og þetta orðalag og þetta form er ekki haft vegna þess að það sé skoðun eða skilningur flm. að hér sé við iðnaðarmenn fyrst og fremst eða þá eina að eiga. Þetta form er aðeins haft á till. vegna þess að það er landsþing þeirra, þ.e. Iðnþing Íslendinga, sem hefur vakið athygli á þessu og beðið um samvinnu við ríkisvaldið. Mér var ljóst að það gæti nánast valdið vandræðum að vera að taka þá eina út úr, en ég vil enn undirstrika og ítreka það rækilega, að svona starfsemi er auðvitað miklu víðfeðmari en svo og á auðvitað ekki við neinn einn hóp eða eina atvinnustétt manna.

Ég vil einnig undirstrika það sem fram kom h já hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, að nákvæmari greining þjóðfélags og hagkerfis er auðvitað forsenda þess, að af meira viti verði hægt að byggja ofan á, og einnig hitt sem hún sagði, að þetta vandamál — látum stærðina liggja á milli hluta — er auðvitað miklu víðfeðmara, en þessi háttur er hafður á vegna þess að þessi efnisatriði komu fram í stefnuskrá frá þessu tiltekna þingi, frá Iðnþingi Íslendinga. Ég held að ef tillgr. væri þannig að þetta væri gert enn víðfeðmara gæti það aðeins orðið til að spilla fyrir málinu. Hér höfum við afmarkaðan skilning á því, hvað við er átt. Það er, held ég, betri byrjun en ekki neitt og betra af stað farið en heima setið. — En ég vil ítreka þakklæti mitt til þessara tveggja hv. þm.