06.02.1984
Efri deild: 47. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2587 í B-deild Alþingistíðinda. (2258)

150. mál, fæðingarorlof

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Ég kem hingað í ræðustól ekki síst vegna orða hv. 2. þm. Austurl. sem var svo vinsamlegur að víkja orðum sínum til mín. Ég vil fyrst segja honum að ég ætla mér ekki að gerast sérstakur talsmaður hæstv. félmrh. eins og hv. 2. þm. Austurl. var raunar að mælast til.

Eins og fram kom í máli hv. 2. þm. Austurl. var fæðingarorlof til umfjöllunar hér í þinginu fyrir örfáum árum og mér er ljúft að minnast þess að við hv. þm. áttum þá allnokkurn hlut að því máli. Það var að sjálfsögðu ríkisstjórnarmál en við áttum okkar þátt í að þoka því í gegnum þingið. Við áttum þá eins og nú báðir sæti í heilbr.- og trn. Ed.

Ég þakka hv. flm. fyrir ágæta ræðu. Að mínum dómi var sú ræða vel fram sett, málið skýrt og það ekki síst til fyrirmyndar að taka fram í lokin hvern kostnað frv. hefði í för með sér. Ég vil taka undir þau orð, sem hér féllu áðan, að það mættu fleiri leitast við að skýra nákvæmlega frá því, a.m.k. eftir því sem kostur er, hvaða kostnað hin ýmsu frumvörp hafa í för með sér sem hér eru flutt á hinu háa Alþingi.

Ég ætla ekki að taka efnislega afstöðu til þessa frv., hvorki þeirrar tímalengdar sem gert er ráð fyrir að gildi endanlega um fæðingarorlof né heldur hvort í einu og öllu eigi að gilda nákvæmlega sami réttur vegna heimavinnandi og útivinnandi foreldris. Hitt skal ég viðurkenna, að mér hefur ætíð sviðið sárt hversu hlutur heimavinnandi foreldris, og þá í langflestum tilvikum húsmæðra, er fyrir borð borinn. Ég hygg þó að hin síðari ár, þó að það hafi e.t.v. ekki komið nógsamlega fram, hafi öfugþróun margra ára fremur snúist við en hitt. Þetta skynjar maður kannske fremur af almennum umræðum um hlutverk húsmóðurinnar en í löggjöf eða öðrum stjórnsýslulegum ákvörðunum. Ég vil í þessu sambandi halda áfram og vitna aðeins til ummæla hv. flm. sem mér fannst fara býsna mörgum og e.t.v. of mörgum samanburðarorðum um það hvernig þessum málum væri háttað í öðrum löndum. Ég vil ekki neita því að eðlilegt sé að gera samanburð, kannske ekki síst við þær þjóðir sem okkur eru skyldastar og við höfum að mörgu leyti mikil samskipti við, en í þessu máli sem öðrum er að mínum dómi eðlilegast að miða að mestu leyti við þær aðstæður sem hér eru heima fyrir. Það þýðir ekkert að loka augunum fyrir því, að þær þjóðir sem hv. flm. var að bera okkur saman við eru komnar lengra á þróunarbraut félagslegra réttindamála á öðrum sviðum en þeim sem hér eru til umr., verulega lengra. Nú er ég sjálfur farinn að bera saman, þannig að öll föllum við í þessa gryfjuna.

Ég segi þetta ekki síst vegna þess að okkar þjóðfélag, enda þótt skylt sé og líkt að mörgu leyti þeim þjóðfélögum sem hv. flm. var að vitna til, er líka um margt mjög ólíkt. Sem betur fer, vil ég segja, þá er hér enn þá fyrir hendi samheldni fjölskyldunnar. Sem betur fer er það enn þannig hjá okkur að fjölskyldan gegnir ríkara hlutverki í okkar þjóðfélagi en mjög víða annars staðar. Þetta er mér síður en svo undrunarefni. Þar ræður að sjálfsögðu mestu smæð okkar þjóðfélags og nákunnugleiki fólksins hvers við annað. Sem betur fer, ég endurtek það einu sinni enn, þá á fjölskyldan sem slík auðveldara uppdráttar hér en annars staðar þar sem fótkið fellur fremur í skugga fjölmennisins. En þetta kallast e.t.v. ekki efnislegt innlegg, enda lofaði ég að fara ekki að taka glerharða afstöðu til frv.

Eins og hv. flm. skýrði frá, og gerði það samviskusamlega, hefur þetta frv., ef að lögum verður, gífurlegan kostnaðarauka í för með sér. Það er e.t.v. óleyfilegt að tala um kostnað þegar blessuð börnin okkar eiga í hlut. Þó hljótum við að vera svo hughraust að tala um kostnað. Eins og ég gat um áðan ætla ég ekki úr þessum ræðustóli að svara fyrir hæstv. félmrh. né aðra ráðh. í ríkisstj., sem ráða eftir atvikum nokkru í slíkum tilvikum, en með tilliti til þeirrar umræðu sem fram hefur farið um fæðingarorlof síðan við hv. 2. þm. Austurl. áttum drjúgan hlut að því að þoka þeim málum áfram hér í þinginu, þá geri ég ráð fyrir því að einhverjir, kannske geri ég það, spyrji hæstv. félmrh. hvaða áhuga hann hafi á þessu máli nú, hvort það sé kannske steingleymt. Ég get heitið hv. flm. því að bera fram þá ósk til félmrh. að hann greini frá því hvort þetta sé kannske einhvers staðar í skúffu ríkisstj. Ég veit ekki um það, ég er ekki kunnugur í þeim hirslum svo að ég get ekki tjáð mig um það.

En að endingu þetta. Ég sé það fyrir mér, og nú er ég e.t.v. farinn að fullyrða, að enda þótt gott fólk í Ed. og í heilbr.- og trn. legðist á eina sveif um að þoka slíku máli fram, þá læt ég mér til hugar koma að það yrði nokkuð þungt fyrir fæti. Og þá komum við að þeim fjármunum sem hér er um að tefla. Fjárlög eru að sjálfsögðu afgreidd fyrir þetta ár og þar er, eftir því sem ég fæ best séð, afskaplega lágt borð fyrir báru. Það er raunar ekki fyrir hendi. Í þessu sambandi hafa ræðumenn verið að gera samanburð á þessu máli og öðrum sem hér hafa verið flutt. M.a. var hér drepið á mál sem viðkemur einstaklingum og atvinnurekstri jöfnum höndum. Mér finnst kannske ekki alveg rétt að blanda þessu saman. Við verðum stundum að viðurkenna góðan vilja til að efla atvinnustarfsemi í landinu. Við getum deilt um hvernig það er gert, hvort leitast er við að gera það á grundvelli skattalaga eða með öðrum hætti, við getum deilt um það. En ég held að hvað sem því líður séum við öll sammála um lokamarkmiðið, að efla atvinnureksturinn í landinu. En við getum deilt um meðulin. Það er auðvitað atvinnureksturinn sem leiðir allt annað af sér. Ef hann er öflugur getum við farið í þá sjóði og lengt fæðingarorlofið og aukið tekjur ríkissjóðs ef okkur býður svo við að horfa.

Sem formaður heilbr.- og trn. mun ég að sjálfsögðu gera mitt til þess að þetta mál fái rækilega meðferð eins og önnur mál og ég er svo heppinn að hafa mér til fulltingis í nefndinni hv. 2. þm. Austurl. eins og áður hefur komið fram. Ég efast ekki um að hann muni verða mér innan handar um alla meðferð málsins.