02.11.1983
Efri deild: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Lárus Jónsson:

Virðulegi forseti. Nokkur orð út af því sem hér hefur komið fram í umr. um þetta mát, sem hefur nú farið vítt og breitt, eins og hv. 11. þm. Reykv. sagði réttilega áðan.

Ég minntist þess þegar hv. þm. Ragnar Arnalds gekk hér í pontu, hv. 3. þm. Norðurl. v., að hluti af þessari bensínhækkun, sem menn hafa nú gert mikið veður út af í tíð núv. ríkisstj., stafar einfaldlega af því að hv. þm. framkvæmdi ekki forsendu vegáætlunar um að hækka bensín í samræmi við byggingarvísitölu rétt fyrir síðustu kosningar. Af einhverjum ástæðum var sú hækkun sem vegáætlun byggist á ekki framkvæmd. En ég ætlaði ekki að karpa út af því máli frekar.

Hann talaði um að við stefndum að því með fjárlagafrv. að taka erlend lán til vegagerðar. Um þetta ræddum við í Sþ. um daginn og ég skal vera stuttorður um það. Það er algert bókhaldsatriði til hvers erlend lán til A- og B-hluta séu tekin, eins og hv. þm. gerir sér held ég allra manna best ljóst. Á hinn bóginn er alveg ljóst, að í erlendum lántökum er markmiðið það, og fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun byggir á því, að á næsta ári verði teknar 4500 millj. kr. í erlendum lánum. Á sama verðlagi var tekið 3750 millj. kr meira af erlendum lánum 1982 en ætlunin er að taka á næsta ári. Það er kjarni málsins. Það er tekin breytt stefna í því að taka erlend lán.

Hv. 2. þm. Austurl. talaði um kaupmátt á árinu 1982 og að kaup þyrfti að hækka svo og svo mikið til þess að kaupmáttur yrði sá sami og á árinu 1982. Ég vil ekki í því sambandi fara neitt að karpa um hve mikið kaupmáttur hafði rýrnað áður en núv. hæstv. ríkisstj. tók við á þessu ári miðað við það sem var 1982. En ég vil benda á eina staðreynd í því sambandi, sem er kjarni málsins.

Á árinu 1982 nam viðskiptahalli hjá okkur Íslendingum um það bil 6000 millj. kr. á verðlagi ársins í ár miðað við meðatgengi ársins í ár. Það voru 10% af okkar þjóðarframleiðslu sem við eyddum umfram efni. Er það heiðartegur málflutningur í allri umr. um kaupmátt að sleppa því algerlega úr dæminu að við höfum á þessu viðmiðunarári, sem oft er vitnað til, á árinu 1982, sannanlega lifað svona mjög um efni fram sem raun ber vitni sé litið á viðskiptahallann við útlönd? Ég hika ekki við að halda því fram að sú aukning erlendra lána umfram það sem stefnt er að á næsta ári, sú gífurlega aukning erlendra lána á árinu 1982, stafi af hinum stórfellda viðskiptahalla. Og dettur þá engum í hug að í rauninni hafi kaupmáttur verið umfram getu þjóðarbúsins á árinu 1982? Þetta eru samviskuspurningar sem ég vildi gjarnan leggja fyrir menn í þessu sambandi.

Þá vil ég aftur víkja að raunverulegum verðmætum. Það er gert ráð fyrir að þjóðarframleiðsla okkar verði nokkuð yfir 64 milljarða á næsta ári. Af því á samkv. fjárlagafrv. að taka 26.8% til þarfa ríkisins. Á árinu 1982, þegar allt var á útopnuðu með innflutning og veltu í þjóðfélaginu vegna eyðsluskuldasöfnunar erlendis, þurfti hæstv. þáv. fjmrh. að taka 30% í ríkissjóð af hinu raunverulega verðmæti, sem við erum að skipta á milli okkar, sem eru þjóðartekjurnar. Ef við tækjum 30% á næsta ári hefðum við í ríkistekjur, tækjum af fólkinu, 2200 millj. kr. meira. Af þjóðarkökunni, sem við erum að skipta, færi til ríkisins — ekki til heimilanna og atvinnuveganna — 2200 millj. kr. meira. Þetta er raunveruleikinn í málinu. Það er sem sagt verið að draga saman seglin, draga minna til ríkisins af þjóðartekjunum en áður, og þess vegna er von til þess að fólk geti haft milli handa raunveruleg verðmæti til að leggja í kaup á slíkum bréfum eins og hér er um að ræða. Það er nefnilega hárrétt, sem hv. þm. Sigríður Dúna sagði áðan, hv. 11. þm. Reykv. Það er hins vegar spurning hvernig við skiptum verðmætunum sem við höfum. Ef við skiptum þeim þannig að ríkið taki 30% til sín getum við ekki skilið þau 30% eftir hjá fólkinu og atvinnuvegunum. Ef við tökum aðeins 26% skiljum við þeim mun meira eftir hjá fólkinu og atvinnuvegunum. Þetta er sú stefna sem mér finnst að hv. þm. hafi gengið á snið við að ræða í stjórnarandstöðunni undanfarna daga.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta atriði. Ég bæti því þó við að ég veit að hv. þdm. í Ed. hafa viljað fá upplýsingar um hvernig þjóðarbúskap okkar er raunverulega háttað. Ef við gerum okkur grein fyrir því hvernig við höfum undanfarin ár velt á undan okkur ýmsum vandamálum í þjóðarbúskapnum og gerum það upp hvað viðskiptahalli er orðinn mikill á undanförnum 4 árum, þá nemur hann á verðlagi í ár 12 milljörðum 300 millj. kr. Viðskiptahalli síðan 1978 nemur 12 milljörðum 300 millj. kr. Erlendar skuldir okkar hafa hækkað um 16 milljarða og 800 millj. á þessum árum, þ.e. litlu meira en viðskiptahallanum nemur. Við höfum í rauninni verið að taka erlend lán til að fjármagna viðskiptahallann. Það er það sem við höfum fyrst og fremst verið að gera. Við höfum ekki aukið fjárfestingu og þaðan af síður skynsamlega fjárfestingu á þessum árum, heldur fyrst og fremst verið að taka erlend lán til að fjármagna viðskiptahalla. Mér sýnist að heiðarlegt sé að gera þá kröfu til manna, sem fjalla um hvernig kaupmáttur breytist frá einum tíma til annars, að þeir geri í leiðinni grein fyrir því á hverju sá kaupmáttur byggðist sem verið er að miða við.