15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

393. mál, fundargerðir bankaráða

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Eins og hv. 8. þm. Reykv., fyrirspyrjanda má vera ljóst hvílir þagnarskylda á þeim einstaklingum er sitja í bankaráðum ríkisbankanna. Þagnarskyldan hefur í för með sér að ekki er unnt að veita almenningi aðgang að fundargerðum bankaráðanna í heild sinni.

Grundvöllur þagnarskyldu hjá bankaráðum ríkisviðskiptabankanna er tvíþættur. Annars vegar grundvallast skyldan á lögum, en í lögum allra banka er að finna samhljóða ákvæði um þagnarskyldu. Samkvæmt þessum ákvæðum eru bankaráðsmenn bundnir þagnarskyldu um allt er varðar hagi viðskiptamanna hlutaðeigandi banka. Hins vegar grundvallast þagnarskyldan á eðli máls eða meginreglum laga. Í þeim tilvikum ber að leggja áherslu á eðli bankastarfsemi og nauðsyn þess að viðskiptamenn, allur almenningur beri traust til bankakerfisins og geti treyst því að um trúnaðarmál sé að ræða. Erfitt er að draga mörk um það hvenær eðli máls krefst þagnarskyldu, en ljóst er að það er í fleiri tilvikum en þeim sem varða hagi einstakra viðskiptamanna. Mætti t.d. nefna umræður um samkeppnisstöðu bankans gagnvart öðrum bönkum. Í Seðlabankalögunum er þagnarskylduákvæðið nokkru víðtækara en ákvæði í lögum um ríkisviðskiptabanka.

Þrátt fyrir það sem hér hefur verið sagt um þagnarskyldu er vafalaust ýmislegt sem ber á góma á bankaráðsfundum sem ástæðulaust er að halda leyndu. Þeim atriðum má vitaskuld skýra frá. Hitt er eins víst, að mörg vafaatriði kæmu ætíð upp þegar meta ætti hvað í fundargerð væri háð þagnarskyldu og hvað ekki. Ég minni á að þingið kýs sérstaka trúnaðarmenn sína í bankaráð hvers ríkisbanka. Jafnframt kýs þingið tvo endurskoðendur fyrir hvern ríkisviðskiptabanka. Starf þeirra er m.a. falið í eftirliti með starfsemi hlutaðeigandi banka. Þær aðstæður geta skapast að það sé skylda þessara trúnaðarmanna að gera Alþingi grein fyrir athugasemdum sínum við starfsemi bankans, enda hafi þeir áður sett athugasemdir sínar fram á bankaráðsfundi og kynnt þær ráðh. Það er því forsenda að mínum dómi fyrir dreifingu fundargerða bankaráða, að óbreyttum lögum, að bankaráðin sjálf samþykki það og óski dreifingar.