31.05.1985
Efri deild: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5780 í B-deild Alþingistíðinda. (5109)

478. mál, tónlistarskólar

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Það er vafalaust alls ekkert ofmælt á undanförnum 10–15 árum hefur orðið gjörbylting á sviði tónlistarmenntunar hér á landi, sem betur fer. Nú fer fram tónlistarkennsla nánast í hverjum einasta þéttbýlisstað. Tónlistarskólar eru víðast hvar starfræktir og mjög víða eru komnar á laggirnar lúðrasveitir. hljóðfæraflokkar ungs fólks og kórar.

Það má rétt vera, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að söngmenntin verði sums staðar nokkuð út undan. Þó er það afar misjafnt eftir skólum. Við fjölmarga skóla starfrækja vel menntaðir tónmenntakennarar kóra. En rétt má vera að það sé ekki nægilega víða.

En þessu frv. er sjálfsagt að fagna. Það horfir áreiðanlega til bóta um ýmislegt. Það mun væntanlega fá góða athugun í nefnd og skal ekki standa á því að greiða fyrir því að það nái hér fram að ganga.

En mér dettur í hug að minnast á það hér áður en ég lýk máli mínu að einn er sá tónlistarskóli hér í landinu sem gegnir í rauninni hlutverki tónlistarháskóla og annast kennslu á háskólastigi nú þegar í tónlistargreinum. Það er Tónlistarskólinn í Reykjavík. Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að staða hans í kerfinu sé einkar óljós með ýmsum hætti. Hann mun vera sjálfseignarstofnun. Þó er mér ekki fullkunnugt um hvernig það er. Ég er ekki að leggja til að hér verði settur á stofn tónlistarháskóla. Við erum ekki nema 240 þús. manns og erum þegar komin með tvo háskóla. Ég held að okkur dugi það alveg og þær greinar aðrar, eins og myndlist og tónlist geti átt heima undir okkar gamla háskólahatti eins og er í fjölmörgum öðrum skólum. Mér fyndist það nú næsta mikil ofrausn ef við værum hér innan fárra ára, Íslendingar, komnir með eins og fimm eða sex háskóla! Ég held að bæði tónlistarfræðsla á háskólastigi og myndmenntun á háskólastigi eigi vel heima í Háskóla Íslands.

Ég reikna fastlega með því að ítarlegt samráð hafi verið haft við skólastjóra tónlistarskólanna t. d. um þetta frv., ég á ekki von á neinu öðru, og að um þetta sé gott samkomulag. En ég vildi að þessi ábending kæmi fram varðandi stöðu Tónlistarskólans í Reykjavík sem gegnir hlutverki háskóla á þessu sviði þó hann heiti það ekki.