18.04.1986
Neðri deild: 87. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4159 í B-deild Alþingistíðinda. (3840)

442. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Um leið og ber að fagna því að frv. það sem hér er lagt fram mun veita húsbyggjendum og íbúðakaupendum aukinn lánsrétt hjá byggingarsjóðunum verður ekki hjá því komist að gagnrýna veigamikla þætti í frv. bæði er lýtur að fjármögnun til byggingarsjóðanna og eins mikla annmarka sem á þessu frv. eru varðandi skilyrði fyrir lánsrétti.

Ég vil fyrst fara nokkrum orðum um fjármögnunina. Hér er stefnt að gífurlega auknu lánsfjármagni í byggingarsjóðina frá lífeyrissjóðunum og að því stefnt að lífeyrissjóðirnir veiti 55% af ráðstöfunarfé sínu til byggingarsjóðanna. Miðað við forsendur útlánaáætlunar og þann gífurlega vaxtamun sem leiðir af niðurgreiddum lánum úr byggingarsjóðunum er ljóst að auka þarf verulega fjárframlög úr ríkissjóði til byggingarsjóðanna á næstu árum til að mæta þessum vaxtamismun. Af grg. með þessu frv. má ráða að gert er ráð fyrir að þetta aukna fjármagn frá lífeyrissjóðunum renni að mestu eða öllu leyti til Byggingarsjóðs ríkisins. Ef svo er má spyrja: Er ekki stefnt að því að auka félagslegar íbúðabyggingar með því aukna fjármagni sem frá lífeyrissjóðunum kemur? Mun ég koma að því síðar í mínu máli.

Að því er vaxtamismuninn varðar eru vextir nú af skuldabréfum þeim sem lífeyrissjóðirnir kaupa af byggingarsjóðunum tveimur 6-9%. Vaxtamismunurinn er því nú 2,5-5,5% hjá Byggingarsjóði ríkisins og 5-8% hjá Byggingarsjóði verkamanna. Eftir því sem næst verður komist liggur ekki fyrir enn þá neitt heildarsamkomulag við alla lífeyrissjóðina, hvorki um aukin skuldabréfakaup né á hvaða kjörum þau verða. Verður það að teljast harla einkennilegt ef fyrir liggur hér frv., sem stefnt er að að lögfesta á nokkrum sólarhringum, og enn hefur ekki verið rætt við þá sem borga eiga brúsann af auknum lánsrétti húsbyggjenda og íbúðakaupenda. Ekki síst er það einkennilegt í ljósi þess að þau fyrirheit sem húsbyggjendum og íbúðakaupendum eru gefin með þessu frv. standa og falla með því hvort lífeyrissjóðirnir auka verulega skuldabréfakaup sín. Ég vil því spyrja hæstv. félmrh. hvort það sé rétt að ekki liggi fyrir neitt samkomulag við lífeyrissjóðina um þetta mál og engin niðurstaða liggi fyrir um lánskjör eða hvort lífeyrissjóðirnir vilja ganga til slíks samkomulags sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Það veltur t.d. á miklu fyrir ríkissjóð og skattgreiðendur hvort samkomulag næst um 6% vaxtagreiðslu af lánum eða hvort vextir verða 9%. Að því er hreinlega vikið í þessu frv. að verði vaxtagreiðslur 9% verði ríkisframlög og aukin lántökuþörf svo hrikaleg að dæmið gangi aldrei upp og þessi spilaborg muni hrynja á örskömmum tíma. Á það er bent að verði mismunurinn á vöxtum á teknum lánum og veittum hjá Byggingarsjóði ríkisins meira en 2-3% til lengdar muni kerfið sligast. Ef miðað er við 6% vaxtagreiðslur til lífeyrissjóðanna er vaxtamismunur, sem ríkissjóður verður að standa undir, orðinn á áttunda ári, 1994, rúmlega 850 millj. kr. Á árinu 1994 þarf því ríkissjóður að greiða 850 millj. kr. í vaxtamismun og fer hann vaxandi um nálægt 150-200 millj. á ári. Ef miðað er við 9% vaxtagreiðslur til lífeyrissjóðanna verður vaxtamismunur sem ríkissjóður þarf að standa undir orðinn tæplega 1,9 milljarðar á árinu 1994 og fer hann vaxandi um 300-400 millj. kr. á ári miðað við 9% vaxtagreiðslur til lífeyrissjóðanna. Spyrja má hvernig ríkissjóður á að standa undir greiðslum sem eingöngu fara í að greiða vaxtamismuninn á teknum lánum og veittum upp á nær 2 milljarða kr. Eiga skattgreiðendur að bera þennan vaxtamun? Á að leggja á aukna skatta til að mæta vaxtamismuninum?

Í 1. gr. frv. segir að lánskjör á skuldabréfum frá lífeyrissjóðunum eigi að miðast við þau kjör sem ríkissjóður býður almennt á fjármagnsmarkaði. Þessi ríkisstj. og núv. fjmrh. hafa haldið uppi háu vaxtastigi, en ríkissjóður býður nú 9% vexti almennt á fjármagnsmarkaði. Því má spyrja hvort hæstv. fjmrh. sé reiðubúinn að semja við lífeyrissjóðina um þau vaxtakjör, 9% vexti, sem ég sé ekki betur en hann þurfi að gera miðað við ákvæði 1. gr. frv. Það þýðir að fjmrh. þarf einnig að vera reiðubúinn að láta úr ríkissjóði eftir örfá ár eða á árinu 1994 nálægt 2 milljörðum kr. eingöngu í hreinan vaxtamismun af veittum lánum og teknum úr byggingarsjóðnum. Ég harma að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera viðstaddur þessa umræðu því að ég hafði ætlað mér að beina til hans örfáum spurningum varðandi þetta mál. Er hæstv. fjmrh. í húsinu, herra forseti? (Forseti: Forseti skal athuga hvort hæstv. ráðh. er í húsinu.)

Já, ég mun halda áfram máli mínu, herra forseti. Við því þurfa að fást svör hvort hæstv. fjmrh. sé tilbúinn að beita sér fyrir að lækka vextina sem ríkissjóður býður upp á á almennum lánsfjármarkaði og þar með að skapa betri samningsstöðu við lífeyrissjóðina um skaplega vexti á því gífurlega fjármagni sem nú er ætlað að taka að láni hjá lífeyrissjóðunum. Ég held að ekki verði hjá því komist við þessa umræðu eða a.m.k. áður en málið verður afgreitt úr þessari hv. deild að heyra afstöðu fjmrh. til þessa máls og hann svari því hvort hann sé tilbúinn til að beita sér fyrir lækkun vaxta þannig að þm. geti áttað sig á því hvort við séum að ræða aukna fjármögnun til byggingarsjóðanna og aukinn lánsrétt til húsbyggjenda og íbúðakaupenda sem stenst í raunveruleikanum. Ég tel nefnilega að mikil hætta sé á því að menn séu að byggja sér skýjaborgir með þessu frv. og veita húsbyggjendum og íbúðakaupendum vonir sem erfitt er að standa við. Miðað við 9% vaxtaendurgreiðslu til lífeyrissjóðanna hrynur þessi spilaborg auðvitað fyrr en varir.

Ég held að við verðum að átta okkur á því að botninn undir þeim fyrirheitum sem felast í þessu frv. til húsbyggjenda og íbúðakaupenda sé afar veikur og verið sé að gefa fyrirheit sem erfitt reynist að standa við nema á móti komi stóraukin skattlagning. Því ítreka ég að svör verða að fást við því hvort fjmrh. sé tilbúinn að beita sér fyrir lækkun vaxta sem ríkissjóður býður almennt á fjármagnsmarkaði þannig að betri samningsstaða skapist um vaxtakjör á lánsfjármarkaði lífeyrissjóða.

Ég veit ekki hvort hæstv. fjmrh. eða hæstv. félmrh. hafa fyllilega gert sér grein fyrir þeirri hrikalegu fjármagnsþörf sem skapast vegna vaxtamismunar á veittum og teknum lánum hjá byggingarsjóðunum. Ef gengið er út frá þeim áætlunum og útreikningum sem gerðir hafa verið um áætluð skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna frá Byggingarsjóði ríkisins þýðir það, miðað við 6% vexti til lífeyrissjóðanna, að á tíu ára tímabili, 1987-1997 þyrfti að verja samtals á þeim árum úr ríkissjóði rúmum 5,6 milljörðum kr. eingöngu vegna vaxtamismunar. Og ef vaxtagreiðsla til lífeyrissjóðanna verður 9% er um að ræða 12,4 milljarða kr. í greiðslu vaxtamismunar úr ríkissjóði á næstu tíu árum. Hér er um hrikalegar fjárhæðir að ræða og hæstv. fjmrh. getur haft mikil áhrif á hvort vaxtaniðurgreiðsla ríkissjóðs vegna þessa frv. sem hér er verið að lögfesta verði tæpir 6 milljarðar eða allt að á þrettánda milljarð kr. á tíu ára tímabili því að lánskjör á skuldabréfakaupum lífeyrissjóðanna, eins og segir í 1. gr. frv., eiga að miðast við þau kjör sem ríkissjóður býður almennt á fjármagnsmarkaði. Fjmrh. getur því með ákvörðun sinni haft áhrif á það t.d. hvort nauðsynlegt verður að leggja á stóraukna skatta vegna þessarar miklu vaxtaniðurgreiðslu eða hvort yfirleitt verður hægt að standa við þau fyrirheit sem felast í þessu frv. fyrir húsbyggjendur og íbúðakaupendur. Því er mikilvægt að fá fram svör hæstv. fjmrh. áður en málið er afgreitt úr deildinni.

Ég vil þá snúa mér að því að ræða um aukinn lánsrétt sem í þessu frv. felst, en sú regla sem hér er lögð til að gildi um lánsréttinn getur leitt til þess að húsbyggjendur og íbúðakaupendur hafi mjög mismikinn lánsrétt eftir því hvað lífeyrissjóður viðkomandi hefur lánað mikið fé til húsnæðislánakerfisins í hlutfalli við ráðstöfunarfé sitt. Einnig er um það að ræða að menn telja óeðlilegt hvað snertir ýmsa sterka lífeyrissjóði, sem koma sér hjá skuldabréfakaupum, að sjóðfélagar þeirra hafi fullan aðgang að lánum úr opinbera húsnæðislánakerfinu á sama tíma og lífeyrissjóðir þeirra geta boðið þeim há lán úr sínum lífeyrissjóðum þar sem þeir þurfa ekki að leggja fjármagn til opinbera húsnæðislánakerfisins. (Forseti: Út af fsp. hv. þm. áðan varðandi hæstv. fjmrh. Það hefur verið grennslast fyrir um það og hann mun væntanlegur í húsið áður en langt um líður.) Já, ég þakka fyrir og held áfram máli mínu.

Út af fyrir sig er það skiljanlegt sjónarmið því almennt er gert ráð fyrir að þeir lífeyrissjóðir sem kaupi skuldabréf af byggingarsjóðunum fyrir 55% af sínu ráðstöfunarfé og skapi þannig sínum sjóðfélögum full lánsréttindi á niðurgreiddum vaxtakjörum úr opinbera húsnæðislánakerfinu þurfi að sama skapi að draga úr lánveitingum til húsnæðismála til sinna sjóðfélaga. Því telja menn óeðlilegt að sjóðfélagar þeirra sjóða sem lítið eða ekkert lána til opinbera húsnæðislánakerfisins fái full lánsréttindi á sama tíma og lífeyrissjóðir þeirra hafa bolmagn til að lána þeim háar fjárhæðir til viðbótar þar sem þeir hafa ekki bundið sitt fé hjá byggingarsjóðunum. Engu að síður getur í þessu nýja fyrirkomulagi komið upp mjög óvenjuleg og hreint óviðunandi staða því að húsbyggjendur og íbúðakaupendur fá í raun engu um það ráðið hver þeirra lánsréttur er. Þeirra lífeyrissjóðir hafa allt um það að segja hve mikinn aðgang þeir hafa að niðurgreiddu fjármagni byggingarsjóðanna til að fjármagna sín íbúðakaup. Tveir aðilar, sem sjálfir standa jafnfætis þannig að þeir uppfylla öll skilyrði um hámarkslánsrétt, geta staðið frammi fyrir því að annar þeirra fær hámarkslán 2,1 millj. kr., en hinn ekki eina krónu af niðurgreiddu fé gegnum húsnæðislánakerfið, ekki einu sinni lágmarksupphæðina 700 þús. kr., hafi lífeyrissjóður hans ekkert lánað til húsnæðislánakerfisins.

Það er spurning hvort það fær staðist að einstaklingum sé mismunað með þessum hætti þegar þeir sjálfir ráða engu um kringumstæður. Hér er ekki spurt um þörf viðkomandi fyrir niðurgreitt fé úr opinberum sjóðum heldur ræðst lánsréttur hans af því hvað sjóðsstjórnin í hans lífeyrissjóði vill lána hinu opinbera mikið fé. Hér er ekki spurt um hálaunamann eða láglaunamann og sú staða getur komið upp að láglaunamanni eða launamanni með meðaltekjur sé synjað um fyrirgreiðslu eða fái lágmarksupphæðina 700 þús. kr. meðan sá betur setti, jafnvel hálaunamaður, fær hámarkslán með niðurgreiddum kjörum úr byggingarsjóðnum.

Hagstjórnartæki þau sem stjórnvöld hafa yfir að ráða til að jafna eigna- og tekjuskiptinguna gætu hér farið að virka öfugt, þ.e. að stuðla að eignamyndun þeirra betur settu með niðurgreiddu lánsfé meðan margir sem verr eru settir fá litla eða enga fyrirgreiðslu af niðurgreiddu lánsfé.

Fleira má til taka sem nauðsynlegt er að komi fram og menn geri sér fulla grein fyrir mismiklum lánsrétti húsbyggjenda og íbúðakaupenda skv. þessu frv. Þeim sem síst skyldi er eingöngu ætlaður lágmarksréttur eða 700 þús. kr. Ég nefni elli- og örorkulífeyrisþega sem engan rétt eiga í lífeyrissjóðum, ég nefni þá sem ekki geta verið á vinnumarkaði vegna fötlunar og örorku og ég nefni námsmenn sem skv. þessu frv. fá lágmarksrétt hafi þeir ekki greitt í lífeyrissjóð með fullnægjandi hætti í a.m.k. tvö ár. Þetta er veigamikill galli á þessu frv. sem nefnd sú sem fær það til meðferðar hlýtur að skoða og leiða hugann að hvort ekki sé nauðsynlegt að breyta.

Ég spyr líka hæstv. félmrh. í ljósi þess ákvæðis sem í frv. er, að skilyrði fyrir lánveitingu er að viðkomandi hafi greitt a.m.k. tvö ár með fullnægjandi hætti til lífeyrissjóðs: Hvað með þá sem eru í hlutastarfi á vinnumarkaðnum og greiða því hlutfallslega minna en aðrir í lífeyrissjóð? Eiga þeir full réttindi ef þeir hafa greitt í lífeyrissjóð í tvö ár sem svarar iðgjöldum af hálfum dagvinnulaunum? Spurningin snýst um hvað þetta þýðir, hvernig má túlka það að greiða iðgjöld í tvö ár með fullnægjandi hætti. Við þessu er brýnt að fá fram svar ráðherra því að það er óþolandi að takmörkuð séu lánsréttindi þeirra sem ekki hafa aðstöðu til að vera á vinnumarkaðinum nema hálfan daginn.

Ég vil einnig spyrja um ákvæði 2. gr. frv. þar sem segir að lánsréttur einstaklings, sem greitt hefur iðgjald til tveggja eða fleiri sjóða næstu tvö árin áður en hann sækir um lán, ákvarðist með hliðsjón af þeim lánsréttindum sem skuldabréfakaup hvers einstaks sjóðs veita. Ég skil þetta ákvæði svo að hafi viðkomandi verið í tveim sjóðum eða fleiri síðustu tvö árin áður en hann sækir um lán eigi að taka meðaltal þeirrar hlutfallstölu sem viðkomandi sjóðir hafa ráðstafað til byggingarsjóðanna. Ég spyr: Ef þetta er rétt túlkun getur þá ekki komið upp sú einkennilega staða að húsbyggjandi eða íbúðarkaupandi hafi greitt mörg ár í sjóð sem að fullu hefur greitt 55% af ráðstöfunarfé sínu í byggingarsjóðina en síðasta árið áður en hann sækir um lán skipti viðkomandi um vinnu og greiði þar með í annan sjóð sem einungis hefur greitt 20% af ráðstöfunarfé sínu til byggingarsjóðanna? Það að viðkomandi ákveði að skipta um vinnu á síðustu mánuðum áður en hann sækir um lán og kannske þar með um lífeyrissjóð getur þá þýtt í reynd að lánsréttur hans skerðist um mörg hundruð þús. kr. Ég spyr hæstv. félmrh. því að ef svo er er hér um verulega ágalla á frv. að ræða og óeðlilegt að við það eitt að skipta um vinnu og þar með kannske lífeyrissjóð síðustu 1-2 árin áður en viðkomandi sækir um lán eigi hann á hættu að lánsréttur hans skerðist um mörg hundruð þús. kr.

Annað sem ber að hafa áhyggjur af er að einhverjir hópar sem eru utan lífeyrissjóða verði algerlega út undan með þessu nýja fyrirkomulagi og verði sviptir öllum lánsrétti úr byggingarsjóðunum. Skv. nafnaskrá lífeyrissjóðanna frá 1984 kemur fram að 25 þús. manns fædd 1967 og fyrr standi utan lífeyrissjóða, þar af á aldrinum 25-35 ára 6700 manns. Nú er tryggt með þessu frv. að heimavinnandi fólk sem er utan lífeyrissjóða fái lánsrétt og einnig námsmenn, aldraðir og öryrkjar. Það eru örugglega stærsti hluti þeirra 25 þús. manns sem utan lífeyrissjóða standa. En ég spyr hæstv. félmrh.: Er ekki hætta á því að það séu fleiri en þeir sem tilheyra þessum hópum sem standa utan lífeyrissjóða og fá þar af leiðandi engin lánsréttindi? Hefur þetta verið ítarlega kannað? Ég spyr hæstv. félmrh.: Getur verið að það sé verið að svipta einhverja lánsrétti sem utan lífeyrissjóða standa, lánsrétti sem þeir áður höfðu úr byggingarsjóðunum þegar lánsréttur var ekki tengdur sjóðsaðild í lífeyrissjóði? Þetta er mikilvægt að verði kannað og skýr svör fáist við.

Ég vil þá víkja að þeim skilyrðum fyrir lánsrétti sem sérstæðust eru í 2. gr. frv. Það er vissulega jákvætt að þeim sem hafa heimilisstörf að aðalstarfi skuli ætlaður fullur lánsréttur í þessu frv., en sá réttur gildir bara ef um einstakling er að ræða sem hefur heimilisstarf að aðalstarfi. Ef sá einstaklingur tekur upp á því að fara í hjúskap eða sambúð gæti lánsréttur þess sem eingöngu stundar heimilisstörf dottið niður úr 2,1 millj. kr. í 700 þús. Lánsréttur hans verður nú allt í einu háður því hvaða rétt makinn hefur. Sama er að segja um hjón og sambýlisfólk. Þá er reiknað út meðaltal lánsréttar þeirra. Og hvað þýðir þetta í reynd? Jú, karlmaðurinn getur átt fullan rétt eða 2,1 millj. kr., en konan bara lágmarksrétt, 20% svo að dæmi sé tekið, sem þýðir að þessi litli réttur konunnar lækkar lánsrétt heimilisins til íbúðarkaupa úr 2,1 millj. kr., sem annars var fullur réttur karlsins, niður í 1,7 millj. kr.

Það má auðvitað velta ýmsu upp, hvaða afleiðingar slíkt hefur t.d. á hjúskap. Er hugsanlegt að þessar reglur ýti t.d. undir óvígða sambúð og dragi úr hjónaböndum? Ef hjónaband þýðir að fólk hefur kannske 400 þús. kr. minna til ráðstöfunar að koma sér þaki yfir höfuðið er ljóst að slíkar reglur, sem Alþingi er nú að samþykkja, gætu stuðlað að vaxandi líkum á óvígðri sambúð en dregið úr hjónaböndum. Ungt fólk, karl og kona, sem hyggja á hjónaband, gætu frekar kosið óvígða sambúð ef hjónaband þýddi að þau hefðu kannske úr nokkur hundruðum þús. kr. minna að spila af niðurgreiddu fjármagni til að koma sér þaki yfir höfuðið. Það stuðlaði líka að því að fólk mundi ekki skrá óvígða sambúð. Það ýtti undir að í slíku sambúðarformi yrðu ekki eignir skráðar á nafn beggja aðila og síðar meir, ef upp úr slíkri sambúð slitnaði, stæði annar aðilinn, sem oftast er konan, uppi allslaus og hefði engan rétt. Þetta vandamál er þegar mikið nú að því er óvígða sambúð varðar. Margir, ekki síst konur, standa uppi allslausir ef upp úr sambúð slitnar, jafnvel þó mikil eignamyndun hafi orðið í sambúðinni. Þessar reglur gætu enn aukið á það vandamál.

Sumir vilja líka halda því fram að þessar reglur, sem hér á að lögfesta, gætu ýtt undir hjónaskilnaði. Menn spyrja: Ef fjölskylda vill stækka við sig og getur það ekki, hafi til að mynda lánsréttur konunnar dregið mikið niður lánsrétt karlsins, hvaða afleiðingar hefur það þegar hjónaband þýðir kannske minni aðgang að opinberu niðurgreiddu lánsfé? Ég spyr því: Er það verjandi að Alþingi setji reglur sem leitt geta til fjárhagslegs taps fyrir fólk ef það gengur í hjónaband eða fjárhagslegs ávinnings ef hjón skilja? Við skilnað gætu hjónin bæði fengið fullan rétt eða sá aðili sem fullan lánsrétt hafði heldur þeim lánsrétti óskertum utan hjónabands meðan lánsréttur konunnar getur dregið hann svo niður að hann fái mörg hundruð þús. kr. minna að láni í hjónabandi. Hjónaskilnaðir í því tilfelli gætu því leitt til fjárhagslegs ávinnings fyrir karlinn því að kerfið verðlaunar honum skilnaðinn með því að lána honum þá mörg hundruð þús. kr. meira af opinberu fé. Hér er um svo alvarlega ágalla að ræða á þessu frv. að ég spyr: Er það verjandi fyrir Alþingi að lögfesta slíkt ákvæði sem leitt getur til þeirra kringumstæðna sem ég hef hér lýst? Ég vara við þessum ákvæðum og tel að sú nefnd sem málið fær til meðferðar verði að athuga gaumgæfilega hvort ekki sé hægt að sníða þessa agnúa af frv. og t.d. miða við lánsrétt makans sem meiri rétt hefur.

Ég vil þá víkja að þeim breytingum sem lagðar eru til í þessu frv. á sérstökum lánum til einstaklinga með sérþarfir. Mér sýnist að hér sé um að ræða minni lán en núgildandi lög gera ráð fyrir. Í núgildandi lögum er kveðið á um að sérstök lán til einstaklinga með sérþarfir nemi 80% af byggingarkostnaði eða kostnaði við endurbætur á húsnæði. Í frv. er hins vegar gert ráð fyrir að lán til fólks með sérþarfir megi nema allt að 70% af samþykktri kostnaðaráætlun. Ég fæ ekki annað séð en að hér sé verið að lækka lánshlutfall úr 80% í 70%.

Ég spyr hæstv. félmrh. um þetta atriði og hvort rétt sé að hér sé um lækkun að ræða. Sé svo er nauðsynlegt að leiðrétta það nú við meðferð málsins á Alþingi því að ég trúi ekki að meiningin hafi verið að lækka lánveitingar til íbúðarhúsnæðis einstaklinga með sérþarfir.

Ég vil þá næst víkja að þeim ákvæðum í 3. gr. frv. sem kveða á um að lán skuli skerðast um 2% fyrir hvern fermetra sem íbúðin er stærri en 170 fermetrar. Hér er enn verið að auka á þau stærðarmörk sem lán er veitt til af opinberu fé. Ég tel að það sé mjög varasamt að veita full lán eða 2,1 millj. kr. til þeirra sem byggja eða kaupa svo stórt húsnæði sem ákvæði þetta gerir ráð fyrir. Þegar úr takmörkuðu fjármagni er að spila er óeðlilegt að veita full lán til þeirra sem byggja eða kaupa svo stórt húsnæði sem hér er gert ráð fyrir og hlýtur að vera skynsamlegra að beina því niðurgreidda fjármagni, sem hið opinbera er hér að úthluta, fyrst og fremst til minni eigna eða hóflegrar stærðar af íbúðum. Ég tel að menn ættu að kynna sér vel þá skýrslu sem fyrir liggur um fasteignamarkaðinn og nefnd hefur unnið sem félmrh. setti á laggirnar. Það er í raun furðulegt að hæstv. félmrh. skuli mæla með þeim stærðarmörkum, sem hér er lagt til að fullur lánsréttur verði miðaður við, eftir að hann hefur kynnt sér niðurstöður þessarar nefndar. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í skýrslu þessarar nefndar um leiðir í húsnæðismálum þar sem sterklega kemur fram að varað er við þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið, að veita lán til svo stórra íbúða eða fasteigna.

Það kemur fram að nýting þess fjár sem veitt er úr hinu opinbera lánakerfi er ekki nægilega góð. Of mikið fé fer til að byggja stórt húsnæði. Síðan segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Þannig fóru um 25% lánsfjár til nýbygginga 1983 til fjölskyldna sem byggðu hátt í 60 fermetra að gólffleti á fjölskyldumeðlim eða stærra.“

Enn fremur er bent á að nýbyggt íbúðarhúsnæði hafi farið stækkandi undanfarin ár. Nú er gólfflötur á mann í landinu 40 fermetrar, en þá sé enn eytt stórfé í að auka við húsnæði á hvern Íslending. Með því að draga úr þessari stækkun telur nefndin að ná megi fram betri nýtingu á því fé sem veitt er til húsnæðismála.

Í skýrslunni er bent á sem dæmi um áhrif þess sem kallað er nýbyggingarstefna að á árunum 1979-1983 hafi fjárfesting í stækkun húsnæðis á hvern Íslending numið meira en 15 milljörðum kr. Í skýrslunni er síðan bent á að árið 1983 voru byggðir rúmlega 220 þús. fermetrar af íbúðarhúsnæði. Segir í skýrslunni að það ár hefði mátt komast af með 100-115 þús. fermetra til að halda óbreyttum húsakosti miðað við fjölskyldu. Fram kemur í þessari athyglisverðu skýrslu að meðalstærð íbúða sem byggðar voru eftir 1980 var rúmlega 160 fermetrar. Mikill hluti af hinu opinbera lánsfjármagni hafi þannig farið til byggingar eða kaupa á stóru húsnæði. Sem dæmi um áhrif þess á nýtingu lánsfjár kemur fram í skýrslunni að 1 kr. af hverjum 4 sem veitt var til nýbyggingar fór til fólks sem var að byggja um 60 fermetra að gólffleti fyrir hvern fjölskyldumeðlim eða stærra.

Ég held að okkur þm. sé skylt að taka tillit til þessara athyglisverðu ábendinga sem fram koma í þessari skýrslu því að hér er verið að marka nýja útlánastefnu í húsnæðismálum, stefnu sem gengur í raun þvert á það sem fram kemur í þessari skýrslu því að hér er lagt til að stærðarmörk sem lán eru veitt til af opinberu niðurgreiddu lánsfé verði stóraukin eða úr 130-150 fermetrum í 170 fermetra. Spurningin sem við verðum að svara þegar við mörkum hér nýja útlánastefnu er þessi: Er eðlilegt að 25% lánsfjár renni til fjölskyldna sem byggðu hátt í 60 fermetra að gólffleti á fjölskyldumeðlim eða stærra eins og gerst hefur? Er eðlilegt að á fjögurra ára tímabili nemi fjárfesting vegna stækkunar húsnæðis á hvern Íslending meira en 15 milljörðum kr. eins og gerðist á árunum 1979-1983? Er eðlilegt að 1 kr. af hverjum 4 af niðurgreiddu opinberu lánsfé renni til fólks sem var að byggja um 60 fermetra að gólffleti fyrir hvern fjölskyldumeðlim eða stærra? Ef menn eru sammála um að óeðlilegt sé að af opinberu niðurgreiddu lánsfé renni svo gífurlega mikið fjármagn til stækkunar húsnæðis og svo stórra íbúða og húseigna sem hér hefur verið lýst, sem menn verða að átta sig á að er á kostnað þess að styðja betur við bakið á þeim sem eru að koma sér upp hóflegri stærð af húsnæði og einnig á kostnað aukningar á félagslegu íbúðarhúsnæði, ef menn svara þessum spurningum játandi er ljóst að við erum að marka ranga útlánastefnu með þessu frv. Við erum að stýra miklu af niðurgreiddu opinberu lánsfé í rangan farveg. Við erum með þeirri útlánastefnu, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, ekki eingöngu að viðhalda þeirri stefnu sem fylgt hefur verið um að stór hluti af opinberu lánsfé renni í stórt íbúðarhúsnæði, stefnu sem gagnrýnd er í þeirri skýrslu sem ég vitnaði í, heldur erum við líka að ýta undir enn frekari stækkun íbúðarhúsnæðis frá því sem verið hefur. Ég er þeirrar skoðunar að af niðurgreiddu opinberu lánsfé eigi eingöngu að lána til hóflegrar stærðar af íbúðarhúsnæði. Ef einhverjir hafa efni á að byggja stórt yfir sig á það að vera þeirra mál og þeir eiga ekki að fá styrki til þess af fé skattborgaranna með niðurgreiddum lánum sem skattgreiðendur verða að standa undir.

Í þessum tillögum er af lagt allt sem heitir viðmiðun við fjölskyldustærð. Núgildandi reglur eru þannig að tveggja til fjögurra manna fjölskylda fær fullt lán upp að 129 fermetrum. Ef byggt er stærra skerðist lánið. Fimm manna fjölskylda fær skv. núgildandi reglum fullt lán miðað við 149 fermetra húsnæði, en ef byggt eða keypt er stærra húsnæði skerðist lánið. Skv. þeim reglum sem nú eiga að taka við er engin viðmiðun við fjölskyldustærð og þess vegna getur einstaklingur eða 2-3 manna fjölskylda fengið fullt lán óskert, 2,1 millj. kr., vegna húsnæðis sem er allt að 170 fermetrar, en þá byrjar lánið fyrst að skerðast.

Í þessu sambandi vil ég benda á að í raun er opnað fyrir heimild til að lána fullt lán fyrir enn stærra húsnæði í fermetrum en 170 fermetra. Í frv. eru 170 fermetrar miðaðir við innanmál útveggja hússins alls að frádregnum bílskúr. Þetta svarar til 185-190 fermetra eignar ef miðað er við stærðarreiknireglur Fasteignamats ríkisins. Og þó í grg. sé sagt að ekki sé veitt lán til íbúðar sem er 220 fermetrar eða stærra er í reynd verið að tala um 270 fermetra húsnæði ef miðað er við þær reglur sem Fasteignamat ríkisins notar.

Ég taldi nauðsynlegt, herra forseti, að eyða í þetta nokkrum orðum því að ég óttast að þessi nýja útlánastefna muni enn auka á að mikið af niðurgreiddu opinberu fé, jafnvel enn meira en áður, renni til fólks sem er að byggja sér svo stórt húsnæði að óeðlilegt sé að styrkja slíkt af fé skattgreiðenda.

Ljóst er af þessu frv. að ýmsir endar eru enn lausir í því samkomulagi sem gert var um húsnæðismálin í nýgerðum kjarasamningum. Ég nefni einn veigamikinn þátt sem snýr að hagsmunum þeirra sem nú eru að kikna undan oki fjárhagsskuldbindinga, þeirra sem byggðu eða keyptu húsnæði á árunum 1980 og síðar. Í athugasemdum með frv. eru gefin fyrirheit um húsnæðisafslátt án þess að greint sé frá hve mikill sá afsláttur verður. Er ætlunin samkvæmt því sem fram kemur í athugasemdum að setja á laggirnar starfshóp sem útfærir tillögur í því efni.

Meðan ekki liggur ljóst fyrir hvað sá húsnæðisafsláttur verður mikill er erfitt að átta sig á því hvaða úrbótum þetta muni skila fyrir þá sem nú eru í greiðsluerfiðleikum. Að vísu liggur fyrir að verja eigi um 300 millj. kr. til viðbótarlána fyrir þá sem eru í greiðsluerfiðleikum, en það svarar ekki þeirri sanngjörnu kröfu sem þeir sem eru í greiðsluerfiðleikum hafa sett fram. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í bréf áhugamanna um úrbætur í húsnæðismálum, en þar segir, með leyfi forseta:

„Margt fólk hefur misst húsnæði sitt fyrir lítið, aðrir ramba á barmi gjaldþrots og mörg heimili eru í upplausn. Við erum nú að súpa seyðið af stefnu í lánskjara og launamálum sem ekki hefur gengið upp fyrir stóran hóp í þjóðfélaginu, einkum þá sem litlar tekjur hafa. Ráðamenn hafa margoft viðurkennt þetta í orði og nú verða þeir að vera menn til að axla ábyrgðina í verki með myndarlegum aðgerðum.“

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Með því að bjóða okkur sífellt upp á ný neyðarlán eruð þið í raun að endurlána okkur peninga sem þið hafið þegar tekið af okkur með óréttmætum hætti. Við krefjumst því leiðréttingar aftur í tímann, auk þess sem við teljum okkur eiga rétt á því að njóta allrar þeirrar lánafyrirgreiðslu sem nýtt húsnæðiskerfi kann að bjóða upp á.“

Þeirri kröfu hefur enn ekki verið svarað eða viðurkennt í verki að bæta þurfi fólki upp þær hrikalegu umframgreiðslur sem þetta fólk hefur þurft að standa undir vegna misgengis launa og lánskjara. Það er orðið brýnt að ná pólitískri samstöðu um að rétta hlut þeirra sem byggðu eftir 1980 og eru að kikna undan oki mikillar greiðslubyrðar og fjárhagserfiðleika sökum misgengis launa og lánskjara á umliðnum árum. Það er ljóst að þeir sem byggðu eða keyptu íbúðarhúsnæði eftir 1980 nutu aðstoðar verðbólgu og niðurgreiddra lána við fjármögnun íbúða sinna. Ekki alls fyrir löngu voru birtar þær athyglisverðu niðurstöður að fyrir tíu árum fóru 18 mánaðarlaun í að fjármagna þriggja herbergja íbúð. Nú fara 50 mánaðarlaun í að fjármagna eignina.

Það hlýtur að teljast sanngjarnt að lagt sé fram fjármagn til að jafna húsnæðiskostnað og rétta hlut þeirra sem byggðu eða keyptu á undanförnum árum meðan misgengi launa og lánskjara var sem mest. Um það hafa þm. Alþfl. lagt fram till. sem felur í sér að jafna húsnæðiskostnað milli mismunandi hópa í þjóðfélaginu með því að létta skuldabyrði þeirra sem harðast hafa orðið úti vegna íbúðaröflunar á s.l. árum. Það er lagt til að endurgreiða hluta af kostnaði við öflun íbúðarhúsnæðis til aðila sem keyptu eða byggðu á árunum 1980-1985 og urðu fyrir mikilli hækkun skulda vegna misgengis launa og lánskjara. Þar er lagt til að til grundvallar skuli leggja hækkun á skuldum sem sannanlega verða raktar til íbúðakaupa eða íbúðabygginga á tímabilinu 1980-1985 og nemi endurgreiðsluhlutinn 50% af þeirri hækkun sem átt hefur sér stað fram til 31. desember s.l., umfram hækkun almenns kaupgjalds í landinu. Endurgreiðsluhlutinn renni síðan til þess að greiða í fyrsta lagi vanskil, í öðru lagi lækka skammtímaskuldir viðkomandi og í þriðja lagi lækka skuldir viðkomandi til langs tíma.

Hér er um að ræða lausn á vanda þeirra sem nú eru í greiðsluerfiðleikum sem sannarlega mun skila sér til þessa fólks og bæta stöðu þess verulega. Ég tel, herra forseti, að það sé erfitt fyrir þingið að afgreiða þetta frv. um húsnæðismál án þess að á raunhæfan hátt sé tekið á vanda þeirra sem eru í greiðsluerfiðleikum. Hér á aðeins að veita fólki viðbótarlán sem ekki leysir þann mikla greiðsluvanda sem margar fjölskyldur eru í, auk þess sem möguleikar eru á því samkvæmt frv. að sá, sem misst hefur íbúð sína eða mestan hluta eignar sinnar í henni vegna greiðsluerfiðleika eða gjaldþrots, geti fengið fullan lánsrétt. Ég dreg í efa að þetta nýtist þeim sem helst þurfa, fólki sem er fjötrað í skuldum og hefur veðsett eign sína að fullu. Því nýtist ekki viðbótarlán og heldur ekki þó að því fólki sé tryggður sami réttur og þeim sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn, þ.e. fullur lánsréttur. Hvernig ætla menn þessu fólki að borga til baka slík lán þegar það stendur ekki undir þeim skuldum sem fyrir eru og þegar hvíla á eigninni?

Ég tel að 300 milljónir sem verja á í viðbótarlán kæmu þessu fólki fyrst til góða og yrðu til að rétta hlut þeirra verulega ef farin yrði sú leið sem lögð er til í frv. Kjartans Jóhannssonar og fleiri um jöfnun húsnæðiskostnaðar og endurgreiðslu í því sambandi. Spurningin er sú: Er hægt að ná pólitískri samstöðu um slíka lausn nú við afgreiðslu málsins? Þm. Alþfl. munu nú reyna að ná samstöðu um þetta mál hér á þinginu og flytja um það brtt. við meðferð málsins hér á Alþingi.

Í þessu frv. fylgir einnig með loforð um að ríkisstj. beiti sér fyrir því að húsbyggjendum og -kaupendum verði gefinn kostur á lengingu lánstíma í bönkum og sparisjóðum, þannig að lánstíminn verði a.m.k. 10 ár. Spurningin er: Hvað líður þessum síendurteknu loforðum um lánalengingu í bönkum? Hvað geta húsbyggjendur og -kaupendur treyst á þetta síendurtekna loforð ríkisstj. um að lánalenging eigi sér stað og skuldbreyting á skammtímalánum til a.m.k. 10 ára í bankakerfinu? Ég tel að ef ekkert verður að gert fyrir þá sem nú eru í miklum greiðsluerfiðleikum umfram það sem kemur fram í þessu frv. þá komi það í reynd að litlu gagni fyrir þá sem nú eru með eigur sínar á nauðungaruppboði eða standa frammi fyrir gjaldþroti af því að skuldir þeirra eru orðnar svo risavaxnar að ekki verður við neitt ráðið miðað við óbreyttar aðstæður eða frekari lausnir af hálfu ríkisstj.

Ég hlýt hér í lokin, herra forseti, að fara nokkrum orðum um Byggingarsjóð verkamanna og félagslegar íbúðarbyggingar sem mér sýnist að sé nokkuð hornreka og ekki fyrirsjáanlegt að hægt sé að auka mikið félagslegar íbúðarbyggingar miðað við þær tillögur sem hér liggja fyrir. Því ber vissulega að fagna að lánshlutfall til byggingar verkamannabústaða sé hækkað úr 80 í 85% af byggingarkostnaði, en það er þó enn undir því sem var áður en núv. ríkisstj. tók við, en þá var lánshlutfallið 90% af byggingarkostnaði.

Auðvitað er ljóst að mjög margir ráða ekki við útborgun í verkamannabústaðaíbúðum. Samt er þetta hagstæðasti kosturinn sem nú er fyrir hendi í húsnæðismálum. Nýlega kom fram í blaði að fólk, sem er innan þeirra tekjumarka sem sett eru sem skilyrði til að eiga rétt á að kaupa íbúð innan verkamannabústaðakerfisins, hefur ekki efni á því að kaupa þessar íbúðir af því að það ræður ekki við útborgunina. Vitnað var til þess að á Sauðárkróki sé verið að byggja 14 íbúða fjölbýlishús á vegum verkamannabústaða og hefur gengið mjög treglega að selja þessar íbúðir. Það er vitaskuld ljóst að láglaunafólki, sem ætlaðar eru þessar íbúðir, er um megn að standa undir útborgun, jafnvel þó hún verði lækkuð niður í 15% eins og hér er gert ráð fyrir. Af íbúð sem kostar 2,3 millj. þarf fólk að greiða 460 þús. kr. í útborgun. Og jafnvel þó útborgunarhluti þess verði 15% eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, þá er engu að síður um að ræða 345 þús. kr. sem mörgu láglaunafólki er um megn að standa undir. Þennan vanda leysa hugmyndir um kaupleiguíbúðir sem Alþfl. hefur lagt fram á Alþingi, og ekki bara á Alþingi því í borgarstjórn hefur borgarfulltrúi Alþfl. lagt fram tillögu um að 90 millj. kr. verði varið til kaupleiguíbúða fyrir ungt fólk. Í kaupleigufyrirkomulaginu er ekki um neina útborgun að ræða heldur fastar, tiltölulega lágar mánaðargreiðslur.

Ég skal ekki, herra forseti, tefja tíma þingsins með því að fara ítarlega út í kosti kaupleigufyrirkomulagsins enda hef ég nýlega mælt fyrir þáltill. um það efni þar sem ítarlega var rakið kaupleigufyrirkomulagið. Það er ljóst að kaupleiguíbúðir sameina kosti eignaríbúða, leiguíbúða, búseturéttaribúða og verkamannabústaða. Þær tillögur, sem Alþfl. hefur lagt fram í því efni, leysa ekki bara útborgunarvanda láglaunafólks í verkamannabústaðakerfinu, heldur einnig á almenna markaðnum því í okkar tillögum er gert ráð fyrir að kaupleiguíbúðir verði einnig á almennum markaði fjármagnaðar gegnum Byggingarsjóð ríkisins. Þessi nýja lausn í húsnæðismálum leysir því þann vanda sem er hvað stærstur hjá fólki sem er að koma sér þaki yfir höfuðið, þ.e. að eiga fyrir útborguninni og þurfa að brúa það bil t.d. með skammtímalánum í bönkum. Að því er Byggingarsjóð ríkisins varðar í þessu frv. þá fær fólk aldrei lánað meira en sem nemur 70% af kostnaðaráætlun viðkomandi íbúðar, eða 70% af raunverulegu kaupverði íbúðar. Þetta þýðir að ef miðað er við íbúð sem kostar 2,3 millj., þá þarf fólk að reiða fram um 700 þús. kr. sem það vafalaust þarf að verulegu leyti að brúa gegnum skammtímalán í bankakerfinu þar sem ráð er fyrir því gert að lífeyrissjóðirnir muni draga úr sínum lánveitingum til sjóðfélaga kaupi þeir fyrir 55% af sínu ráðstöfunarfé skuldabréf af byggingarsjóðunum.

Þetta vandamál, bæði í félagslegum íbúðarbyggingum og á almennum markaði, er leyst með þeim tillögum sem Alþfl. hefur flutt hér á Alþingi. Það verður að ætla að þm. sjái hvað hér er um góðan kost í húsnæðismálum að ræða sem ekki er dýrari fyrir ríkissjóð en þær tillögur sem hér er lagt til að lögfestar verði. Þm. Alþfl. munu því freista þess við afgreiðslu þessa frv. að flytja við það brtt. sem opnar fyrir lánveitingar til kaupleiguíbúða jafnt í félagslegum íbúðarbyggingum sem á almennum markaði. Ég trúi ekki öðru en að um það geti náðst samstaða. Og ég trúi því ekki að óreyndu að verkalýðshreyfingin hafi á móti því að slík brtt. komi fram og að slík breyting sé gerð á því samkomulagi sem gert var í húsnæðismálum í nýgerðum kjarasamningum. Kaupleiguíbúðir eru sá kostur sem mun koma launþegum miklu betur en þær tillögur sem hér liggja fyrir. Því tel ég að slíkur kostur og slík breyting á frv. hljóti að vera ásættanleg lausn fyrir alla aðila sem hlut eiga að máli.

Ég verð að segja að þar sem þessar tillögur sem hér eru til umræðu eru byggðar á samkomulagi sem gert var við verkalýðshreyfinguna þá kemur það mér á óvart hvað lítil áhersla er í þeim lögð á að styrkja félagslegar íbúðarbyggingar og veita til þess auknu fjármagni þannig að hægt sé að auka þær verulega.

Ég vil spyrja hæstv. félmrh. hvers megi vænta í því máli. Hér er lagt til að stórauknu fjármagni verði varið til húsnæðismála. Samkvæmt þeim útreikningum sem fyrir liggja og út frá er gengið er gert ráð fyrir að skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna verði á næsta ári aukin úr 1,6 milljörðum í 3,1 samkvæmt útreikningum, til að ríkissjóður geti að fullu staðið við útlánaáætlun sem fram kemur í grg. með þessu frv. og er sem hér segir:

Eðlileg eftirspurn eftir lánum til kaupa á nýjum íbúðum er talin svara til byggingar 1400 íbúða á ári. Fyrstu tvö árin verði eftirspurnin þó meiri en sem nemur lánum til 1600 íbúða. Þar af verði 800 lántakendur sem ekki eiga íbúð fyrir og njóta því forgangs. Eðlileg eftirspurn eftir lánum til kaupa á notuðum íbúðum er talin vera 2000, en jafnframt er bætt við 200 fyrstu árin. Þar af er gert ráð fyrir að um 1100 lán gangi til þeirra sem ekki eiga íbúð fyrir. Ef við þetta er staðið þá þarf ríkissjóður að leggja fram á næsta ári 2,6 milljarða, en framlag ríkissjóðs á yfirstandandi ári er 1,6 milljarðar. Ef hins vegar lánveitingum til þeirra sem eiga íbúð fyrir er frestað um eitt ár, þá þarf ríkissjóður að leggja fram 1 milljarð á næsta ári. Ef þetta verður með þeim hætti að þeir þurfa að bíða í eitt ár sem eiga íbúð fyrir, þá þýðir það að um verulega lækkun á ríkisframlagi er að ræða frá því sem nú er.

En ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Er einungis ætlunin að leggja Byggingarsjóði verkamanna til 200 millj. kr. aukið framlag? Eða hversu mikið mun hann fá af því aukna fjármagni sem inn í húsnæðislánakerfið kemur?

Herra forseti. Ég skal fara að ljúka máli mínu. Þó þetta frv. veiti mörgum aukinn lánsrétt frá því sem nú er, þá eru ágallar þess margir og það svo að þeir sem áður höfðu rétt úr húsnæðiskerfinu fá jafnvel engan rétt. Ef ég dreg saman í örstuttu máli veigamestu galla frv. og þær spurningar sem ég hef lagt fyrir bæði hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh., þá er það þannig í stuttu máli:

Í fyrsta lagi. Vegna breyttrar útlánastefnu í þessu frv. stendur fjárhagsgrundvöllurinn afar veikt. Getur ríkissjóður orðið að taka á sig 5,6 milljarða greiðslur eingöngu vegna vaxtamismunar á næstu 10 árum, miðað við 6% endurgreiðslu vaxta til lífeyrissjóðanna, og miðað við 9% þarf ríkissjóður að taka á sig 12,4 milljarða. Ég lagði fram spurningar í upphafi míns máls til hæstv. fjmrh. sem ég vil ítreka. Ég lagði þá spurningu fyrir hæstv. fjmrh., og geri nú, hvort hann sé tilbúinn til að lækka vexti þá sem ríkissjóður býður á almennum lánsfjármarkaði til að bæta samningsstöðu við lífeyrissjóðina og stuðla þar með að því að þetta lánsfjármagn lífeyrissjóðanna fáist á ekki hærri en 6% vöxtum? Ég sé ekki annað, hæstv. fjmrh., en að ef ríkisstj. og hæstv. fjmrh. beita sér ekki fyrir lækkun vaxta, þá þýði það að ríkissjóður verði að greiða lífeyrissjóðunum 9% vexti, því að í 1. gr. frv. er sagt að lánskjör af skuldabréfum skuli miðast við þau kjör sem ríkissjóður býður almennt á fjármagnsmarkaði.

Í öðru lagi liggur ekki fyrir heildarsamkomulag við alla lífeyrissjóðina um skuldabréfakaup eða með hvaða kjörum byggingarsjóðirnir fái lánsfjármagn frá þeim. Heildarsamkomulag liggur sem sé ekki fyrir við þá aðila sem standa eiga undir auknum lánsrétti samkvæmt þessu frv.

Í þriðja lagi tel ég að miklir ágallar séu á frv. varðandi lánsréttinn, sem leitt getur til mikils mismunar á lánum til einstaklinga úr byggingarsjóðunum, mismunar sem verður að teljast óeðlilegur ekki síst þegar um er að ræða niðurgreitt lánsfé sem greitt er af fé skattborgaranna. Ég hef lagt fyrir hæstv. félmrh. ýmsar spurningar í því sambandi sem ég vænti að hann svari. Spurningar varðandi lánsréttinn eru um réttindi þeirra sem eru í hlutastarfi:

Fá þeir sem eru í hlutastarfi full réttindi, hámarkslán 2,1 millj. ef þeir hafa greitt iðgjöld af hálfum dagvinnutekjum í tvö ár? Ég spyr líka: Telur félmrh. eðlilegt að lögfesta ákvæði sem geti mismunað lántakendum, ákvæði sem í raun geta leitt til þess að hátekjumaður fær meira lán af opinberu fé en lágtekjumaður? Telur félmrh. eðlilegt að örorkulífeyrissþegar eða þeir sem vegna fötlunar og örorku geta ekki verið á vinnumarkaðnum, svo og námsmenn, fái lágmarksrétt? Telur félmrh. ekki hættu á að um geti verið að ræða nokkurn hóp, auk námsmanna og örorkuþega, sem standa algerlega fyrir utan lífeyriskerfið og fá þar af leiðandi engin réttindi samkvæmt þessu frv., hvorki úr byggingarsjóðunum né frá lífeyrissjóðunum? Ég spyr: Getur verið hætta á að hópur manna, sem ekki eru í lífeyrissjóði og áður gátu fengið lán hjá Húsnæðisstofnun, að þeir séu sviptir þeim rétti og hafi enga möguleika á lánum? Ég minni á nafnaskrá lífeyrissjóða frá 1984 þar sem fram kemur að 25 000 manns séu utan lífeyrissjóða. Stærsti hópurinn þar er heimavinnandi fólk, námsmenn, elli- og örorkulífeyrisþegar sem tryggður er réttur með þessu frv. En eru ekki í þessum 25 000 manna hópi, sem er utan lífeyrissjóða, aðrir hópar sem sviptir eru lánsrétti af opinberu fé til húsnæðisöflunar með ákvæðum þessa frv.? Ég vil ekki fullyrða að svo sé, en ég spyr félmrh.: Hefur verið gengið úr skugga um að svo sé ekki?

Ég spyr líka ráðherra, þar sem að því er stefnt að veita stórauknu fjármagni til húsnæðismála: Er ekki eðlilegt að tengja fyrirgreiðslu til G-lána, þ.e. kaupa á eldra húsnæði, því að útborgunarhlutfall lækki og að það verði skilyrði fyrir lánveitingum til kaupa á eldra húsnæði?

Ég spyr ráðherra líka: Hvað með þá sem skipta um vinnu á síðustu mánuðum áður en sótt er um lán og kannske þar með um lífeyrissjóð? Getur það þýtt í reynd að lánsréttur viðkomandi skerðist um mörg hundruð þúsund kr. þar sem lánsréttur einstaklings, sem greitt hefur iðgjöld til tveggja eða fleiri sjóða síðustu tvö árin, ákvarðast með hliðsjón af þeim lánsréttindum sem skuldabréfakaup hvers einstaks sjóðs veita?

Ég spyr líka félmrh.: Telur hann verjandi að lögfesta ákvæði um lánsrétt sem ýtt geta undir óvígða sambúð, reglur sem leitt geta til fjárhagslegs taps fyrir fólk ef það gengur í hjónaband, eða fjárhagslegs ávinnings fyrir hjón ef þau skilja?

Ég óska einnig svars ráðh. við því hvort í reynd sé verið að lækka lán til einstaklinga með sérþarfir, úr 80% í 70%.

Ég spyr um afstöðu ráðherra til ákvæða um stærðar mörk. Telur hann forsvaranlegt, miðað við þá niðurstöðu sem liggur fyrir hjá Fasteignamati ríkisins um að t.a.m. árið 1983 fóru 25% lánsfjár til fjölskyldna, sem byggðu hátt í 60 m2 að gólffleti á hvern fjölskyldumeðlim eða stærra, er það forsvaranlegt, ég spyr, að rýmka enn stærðarmörkin og að af niðurgreiddu opinberu fé fari því mikið fjármagn til óhóflega stórs húsnæðis?

Ég spyr einnig ráðherra um aukningu á félagslegum íbúðarbyggingum: Má vænta miðað við ákvæði frv. að aukning verði á félagslegum íbúðarbyggingum eða er einungis ráð fyrir því gert að lítill hluti af auknu fjármagni byggingarsjóðanna fari til að auka félagslegar íbúðarbyggingar?

Og ég spyr ráðherra í lokin að því hvort hann muni beita sér fyrir því hér við afgreiðslu málsins að opnuð verði heimild til að lána til kaupleiguíbúða, hvort hann muni styðja þá till. sem þm. Alþfl. munu leggja hér fram við afgreiðslu málsins um það að opna fyrir lagaheimild til að lána til bygginga eða kaupa á kaupleiguíbúðum?

Ég hef hér dregið saman nokkrar helstu spurningar sem fram komu fyrr í ræðu minni og ég óska eftir að hæstv. félmrh. svari.

Herra forseti. Ég taldi nauðsynlegt að ræða hér nokkuð ítarlega ýmsa ágalla sem ég sé á þessu frv. og ég taldi brýnt að hv. þm. leiddu hugann að og sú þingnefnd sem málið fær til meðferðar skoðaði sérstaklega. Ég geri mér grein fyrir því að stuttur tími er til stefnu, en engu að síður er ekki verjandi að þingið afgreiði frá sér svo stórt mál með svo alvarlegum ágöllum sem ég hef hér lýst. Að vísu geri ég mér grein fyrir að hæstv. félmrh. hafði að vísu lítið um það að segja hvernig þessi frumvarpssmíð var úr garði gerð því að hér er fyrst og fremst um að ræða ákvæði sem samið var um í nýgerðum kjarasamningum og ríkisstj. hefur lagt fram frv. um hér á hv. Alþingi. En hæstv. ráðh. getur vissulega haft mikið um það að segja hvort alvarlegustu ágallarnir verði sniðnir af frv.

Ég vil í lokin, herra forseti, að það komi skýrt fram að þrátt fyrir þá ágalla, sem ég hef hér rakið, þá er vissulega í þessu frv. reynt að finna leið til að stuðla að stórauknum lánsrétti og betri lánskjörum til húsbyggjenda og íbúðarkaupenda en verið hefur. Engu að síður er það mín skoðun að ágallar þessa frv. séu margir og einnig það að ég tel að hægt hefði verið að finna betri lausn fyrir launafólk í húsnæðismálum en þetta frv. gerir ráð fyrir, og á ég þar ekki síst við kaupleiguíbúðirnar. Þar sem um er að ræða mál sem vafalaust var ein af meginforsendum þess að samningar tókust milli aðila vinnumarkaðarins í nýgerðum kjarasamningum þá geri ég mér grein fyrir að erfitt verður að ná fram nauðsynlegustu breytingum og lagfæringum á þessu frv. En það er þó skylda alþm. að ganga svo frá þessu máli að verstu ágallar verði af því sniðnir, ágallar sem hætta getur verið á að mismuni fólki mikið að því er lánsrétt varðar af niðurgreiddu opinberu fé til húsnæðismála.

Herra forseti. Ég ítreka í lokin það sem fram kom fyrr í mínu máli að þm. Alþfl. munu flytja brtt. sem heimila að lána úr byggingarsjóðunum til kaupleiguíbúða, sem og að jafnaður verði húsnæðiskostnaður þeirra sem byggðu eftir 1980, þannig að endurgreiddur verði hluti umframgreiðslna vegna misvægis launa og lánskjara á umliðnum árum.

Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.