21.04.1986
Neðri deild: 92. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4330 í B-deild Alþingistíðinda. (4067)

268. mál, húsaleigusamningar

Frsm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 991 frá hv. félmn. Þetta nál. er um frv. til. 1. um breytingu á lögum um húsaleigusamninga, nr. 44/1979, með breytingum sem gerðar voru 1984.

Þetta frv. er flutt í beinu framhaldi af breytingum á samningalögum sem mælt var fyrir fyrr á þessum fundi. Því máli hafði verið vísað til hv. fjh.- og viðskn. og mikill meiri hl. nefndarinnar stendur að nál. þar sem gert er ráð fyrir því að þau ákvæði, sem þar er að finna, verði samþykkt. Verði það frv. að lögum breytast samningalögin nr. 7/1936, sem aftur hefur þá þýðingu að breyta verður húsaleigusamningalögunum eins og hér er ráð fyrir gert.

Herra forseti. Það er óþarfi að kynna efni þessa frv. Það hefur verið gert fyrr á fundi hv. deildar. Hv. félmn. hefur rætt þetta frv. og skoðað og mælir með því að það verði samþykkt óbreytt. Undir þetta nál. rita auk mín hv. þm. Halldór Blöndal, Stefán Guðmundsson, Eggert Haukdal, Stefán Valgeirsson, Svavar Gestsson og Jóhanna Sigurðardóttir.