02.12.1986
Sameinað þing: 24. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

131. mál, heimilisfræðsla

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég tala fyrir þáltill. sem er á þskj. 137. Flm. er frú Magdalena M. Sigurðardóttir varaþm., sem á ekki sæti á þingi nú, og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson ásamt mér. Tillgr. hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að kanna með hvaða hætti best verði staðið að almennri heimilisfræðslu í landinu. Kannað verði m.a. hvernig að slíkri fræðslu sé staðið annars staðar á Norðurlöndum.

Ráðherra geri tillögu um endurskipulagða starfsemi hússtjórnarskólanna og heimilisfræðslu í landinu og leggi hana fyrir Alþingi.“

Á seinni hluta 19. aldar og í upphafi þeirrar 20. risu upp víðs vegar um landið hússtjórnar- og kvennaskólar. Fylgdu þeir í kjölfar vaknandi áhuga og kröfu kvenna um meiri menntun og meira jafnræði kynjanna. Þessi þróun náði hámarki sínu um miðja þessa öld er starfandi voru í öllum landshlutum hússtjórnarskólar, flestir með 8-9 mánaða starfstíma á ári. Eingöngu stúlkur sóttu um inngöngu, enda unnu flestar konur heima. Þá var ekki hægt að ganga út í búð og kaupa svo að segja alla hluti tilbúna. Því var mikils um vert að konur kynnu „að koma ull í fat og mjólk í mat“ og hráefni til matreiðslu kom beint af skepnunni og hagsæld heimilis valt á að húsmóðirin kynni vel til verka.

En þetta gildir bara enn og það skapast oft erfiðleikar þegar fólk stofnar heimili af kunnáttuleysi beggja aðila í þessum málum. Þess vegna er áríðandi að koma einhverju skipulagi á þessa fræðslu til að koma í veg fyrir erfiðleika á fyrstu búskaparárum þeirra sem fella hugi saman og hefja heimilishald.

Á áttunda áratugnum fór aðsókn að húsmæðraskólunum stórlega þverrandi og hafa þeir smám saman verið að týna tölunni. Á s.l. vetri var þremur vel metnum skólum í þéttbýlum héruðum hreinlega lokað. Þeir sem þekkja til starfsemi hússtjórnarskólanna harma þessa þróun og telja að þessi tegund skóla megi ekki leggjast niður. Það er hins vegar augljóst að þessir skólar eins og aðrir skólar verða að vera í takt við tímann. Hússtjórnarskólarnir veita ekki starfsréttindi á vinnumarkaðnum og því vill ungt fólk ekki eyða heilum vetri til náms í þeim. En það á ekki að leggja þá niður heldur breyta starfsemi þeirra.

Nú á að kenna heimilisfræði í grunnskólunum og er það vel, en mikill misbrestur er á að þeim ákvæðum í grunnskólalöggjöfinni sé alls staðar framfylgt. Á grunnskólastiginu má sannarlega ná góðum árangri sé kennslan vel skipulögð og miði að því að kenna nemendum að meta hollt fæði og lifnaðarhætti, almenn þrif og þekkingu á vörugæðum.

Takmörk eru þó fyrir því hvað ungir nemendur geta tileinkað sér af því sem þarna er kennt eins og raunar í öðrum greinum í skólum.

Í þjóðfélagi örra breytinga er nauðsynlegt að styrkja stöðu heimilanna. Það er því full þörf á að ungt fólk, konur sem karlar, eigi kost á námskeiðum í hefðbundnum heimilisfræðum, svo sem matreiðslu, þvotti, ræstingu, saumum, vöruþekkingu og að læra að nota þau mörgu hjálpargögn sem nú eru á boðstólum í sambandi við heimilisrekstur og fjölskyldumálefni. Þar að auki eru svo aðrar greinar sem í rauninni flokkast undir listiðnað, svo sem vefnaður, keramik, hekl, prjón og fjöldamargt annað.

Í þessu streituþjóðfélagi, sem við lifum í, er mikils virði að geta slakað á við holla og skapandi tómstundaiðju. Það er að vísu hægt að fara út í búð og kaupa flesta hluti tilbúna, en þá höfum við ekki fullnægt þeirri sköpunarþörf sem býr í okkur flestum og ber að hlúa að en ekki drepa niður.

Að þessu athuguðu sjáum við flm. að sannarlega er þörf fyrir hússtjórnarskólana í þjóðfélaginu og að bregðast verður við þeim breytingum sem orðið hafa með því að laga starfsemi þeirra að nútímaháttum.

Á nokkrum stöðum hafa hússtjórnarskólarnir fært starfsemi sína í námskeiðaform sem hafa verið vel sótt, bæði af almenningi og sem valgreinar í framhaldsskólunum. Þannig hafa kennarar þessara skóla efnt til námskeiða í nágrannabyggðarlögunum og hefur þessi háttur mælst vel fyrir.

Það hefði raunar átt að hafa þessa þáltill. enn þá víðtækari, ekki síst vegna þess að sumir héraðsskólarnir virðast vera að verða verkefnalausir. Mikið hefur t.d. verið fjallað nú um framtíð Laugaskóla og hvernig beri að notfæra sér þau húsakynni og þá aðstöðu sem þar er fyrir hendi og þannig er um fleiri skóla. Auðvitað þarf að kanna hvort það henti að nota slík menningarsetur til áframhaldandi skólahalds, t.d. í beinu eða óbeinu sambandi við verkmenntaskólana, svo sem t.d. Verkmenntaskólann á Akureyri, hvort það henti að taka einhverjar greinar þar inn og nýta þá fjármuni sem þar eru á staðnum til þeirra hluta.

Þessi till. fer sjálfsagt til félmn. Sþ. þar sem ég á sæti og ég mun huga að því, þó að ég sé flm. þessarar tillögu, hvort það sé rétt að breyta tillgr. í þessa átt þar sem það er mjög brýnt að þessi mál séu könnuð í víðara samhengi en felst í þessari tillgr. Ég legg til að þáltill. verði vísað, herra forseti, til félmn.