02.12.1986
Sameinað þing: 24. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

131. mál, heimilisfræðsla

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Málefni hússtjórnarskólanna hafa komið til umræðu öðru hvoru og það er mjög eðlilegt í jafnmikilli kreppu og þessi fræðsla á við að búa og þær stofnanir sem sérstaklega hefur verið ætlað að sinna þessari kennslu, hússtjórnarskólarnir.

Ég nefni aðeins fáein atriði í tengslum við þetta mál sem ég tel góða tillögu. Ég tek undir flutning hennar. Eins og hv. 2. flm. þessarar tillögu nefndi eru það auðvitað fleiri þættir sem gætu átt heima í úttekt af þessu tagi, eins og héraðsskólarnir. Ég held að vandi hússtjórnarfræðslunnar sé sumpart til kominn vegna þess að það skortir eðlilega stefnumörkun varðandi yfirstjórn fræðslumálanna í landinu. Á grunnskólastigi hafa menn tekið ákveðin skref með uppbyggingu á fræðsluskrifstofum og ætlað þeim og fræðsluráðum í landshlutum ákveðinn hlut í sambandi við uppbyggingu og skipulag fræðslumála á sínu svæði. á framhaldsskólastigi skortir slíka stefnumörkun og ramma varðandi yfirstjórn þeirra mála sem heyra undir menntmrn. skv. ýmsum sérlögum um hina einstöku framhaldsskóla og almennum lögum um fjölbrautanám.

Við þm. Alþb. í hv. Ed. höfum nú í tvígang lagt fram frv. til laga um framhaldsskóla þar sem gert er ráð fyrir mjög mikilli valddreifingu í umsýslan og yfirstjórn framhaldsskólastigsins í landinu.

Nú er það svo að heimilisfræðsla varðar bæði skólastigin, með mismunandi hætti að sjálfsögðu eftir því sem við á, bæði grunnskóla- og framhaldsskólastig. En hússtjórnarskólarnir hafa frekar tengst framhaldsskólastiginu en grunnskólanum þannig að þau losaratök sem hafa verið varðandi stjórnun þessara skóla og takmarkaður áhugi sem hefur beinst að málefnum þeirra stafar af þessari miðstýringu hér út frá menntmrn. sem hefur haft með þessi mál nær alfarið að gera, sums staðar líklega með vissri milligöngu skólanefnda sem skipaðar hafa verið á seinni árum til að fjalla um málefni einstakra skóla. Ég held að þetta eigi að vera umhugsunarefni fyrir þá sem fá þessa till. til þál. til umfjöllunar, að þarna er viss ástæða fyrir því hvernig komið er.

Ég er alveg sannfærður um það að ef menn hefðu náð almennri stefnumörkun varðandi framhaldsskólastigið með þeirri valddreifingu sem við höfum markað stefnu um í Alþb. varðandi þetta skólastig, og þá einnig varðandi grunnskólann, væru þessi mál ekki í því óefni sem þau víða eru. Ég er alveg sannfærður um það að heimafólk hefði ekki látið það gerast að þessar skólastofnanir sums staðar standi gagnslitlar eða til lítilla nota og hafi slitnað úr tengslum við umhverfi sitt. Þannig að hér er sem sagt að mörgu að hyggja um þessi efni.

Gildi heimilisfræðslunnar er mikið eins og hér hefur komið fram í þessari umræðu. Við erum að ræða um þýðingu heimilisstarfanna, nauðsyn á sérstöku mati heimilisstarfanna, að þau séu tekin inn í almennt starfsmat og margt fleira sem ber hér á góma. Allt tengist þetta auðvitað spurningunni um að heimilisfræðin og heimilisfræðslan eigi ákveðinn sess í almennu skólakerfi landsmanna, bæði grunnskólastigi og framhaldsskólastigi.

Ég vil geta þess, herra forseti, að það er ekki alls staðar jafnbágt ástand varðandi starfsemi og nýtingu þessara skóla og skyldu menn einnig hafa það í huga. Sá hússtjórnarskóli, áður húsmæðraskóli, sem mér er tengdastur er Húsmæðraskólinn á Hallormsstað, eini skóli sinnar tegundar á Austurlandi. Það eru mörg ár og raunar áratugir frá því að fór að draga úr almennri sókn í þann skóla eftir gamla kerfinu, ef svo má segja. Þegar ég hafði það hlutverk með höndum að reyna að hjálpa til við að móta stefnu fyrir framhaldsnám á Austurlandi og var í forystu fyrir byggingarnefnd menntaskóla á Egilsstöðum fyrir áratug eða svo, leit ég einnig til þessa skóla og við í byggingarnefndinni og komum ákveðnum tillögum á framfæri við menntmrn. þess

efnis að aðstaðan í þessari skólastofnun yrði notuð bæði fyrir grunnskólastig og framhaldsskólastig, þannig að þeir skólar þar sem ekki hefði verið búið að heimilisfræðslunni sem skyldi í heimahéraði fengju afnotarétt af þeirri aðstöðu sem þessi sérskóli, þessi hússtjórnarskóli, byði upp á. Það var tekið undir þessar tillögur heima og reyndar í ráðuneyti og sú breyting gerð á að skólar á Austurlandi, sem svona var ástatt um, nýttu sér aðstöðuna á Hallormsstað með því að fara með nemendur í einstökum bekkjum þangað í vikutíma, tvisvar á vetri má ég segja, og fyrri hluta vetrar nýttist skólinn að fullu til slíkra nota. Allir höfðu ánægju af og þarna var tekið á fleiri þáttum eins og umhverfisþáttum þar sem umhverfið á Hallormsstað býður mjög upp á að veita fræðslu og innsýn inn í ýmsa þætti umhverfismála og náttúrufræða. Þetta lukkaðist vel og að þessu búa menn enn á Hallormsstað.

Jafnframt hvöttum við til þess að væntanlegur menntaskóli á Egilsstöðum horfði til þess að nýta sér þessa aðstöðu til þess að byggja inn ákveðinn þátt í einstökum námsbrautum, eins og t.d. í matreiðslufræðum og öðru þess háttar sem krefst sérnáms og um er að ræða sérstakar námsbrautir í sumum framhaldsskólum, að þeir nýttu sér aðstöðuna á Hallormsstað. Þetta hefur ekki gengið eftir sem skyldi varðandi framhaldsskólann en ég held að það sé kannske vegna þess að þeir sem að skólanum standa á Egilsstöðum hafa ekki lagt í það að hagnýta sér þessa aðstöðu og tengja þetta inn með þeim hætti sem hugmyndir okkar stóðu til en get þó ekki dæmt um það í einstökum atriðum.

Aðeins þetta til viðbótar: Það hefur hins vegar verið starfsemi einnig seinni hluta vetrar í þessum hússtjórnarskóla með þeim hætti að þar hafa verið námskeið fyrir karla og konur sem hafa viljað nýta þau. Ég hygg að það hafi aðallega verið konur a8 hefðbundnum hætti sem þar hafa verið á ferð. Það hefur glæðst aðsóknin að svona þriggja, fjögra, fimm mánaða námskeiðum þar við skólann. T. d. var hann fullnýttur í þessu skyni eftir áramótin í fyrra og ég hygg að það horfi eins varðandi núverandi námsár að það sé um verulega aðsókn að ræða í það nám sem þarna er boðið upp á, þó að aðeins sé um líklega þriggja til fjögra mánaða skeið. Þarna er viðleitni til að laga sig að breyttum aðstæðum sem hefur tekist nokkuð vel, en ég er sannfærður um að þarna má betur gera ef rétt er á haldið og legg að lokum áherslu á það að yfirstjórn þessara mála þarf að færast heim í hérað, líka varðandi héraðsskólana, þannig að heimafólkið finni það sem sitt verkefni að nýta þá aðstöðu sem þarna er til staðar með eðlilegum hætti en sé ekki að reyna að kippa hér í– ja, ég vil ekki hafa ljót orð, herra forseti - embættismenn sem eru fjarri vettvangi og sinna þessum málum því miður ekki sem vera þyrfti.