04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (1228)

178. mál, könnun á tannlæknaþjónustu

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur tekið upp siði Halldórs Blöndals hér á þingi að vera með útúrsnúninga og snúa út úr orðum sem eru sögð í þessum ræðustól. Út af fyrir sig er það í lagi þó hv. þm. Halldór Blöndal leyfi sér slíkt, en að hæstv. fjmrh. og formaður í Sjálfstfl. leyfi sér að vera með útúrsnúninga, snúa hreinlega út úr því sem sagt er, tel ég honum ekki sæma.

Auðvitað veit hæstv. fjmrh. mætavel að Alþfl. hefur margflutt till. á þingi um að afnema ætti tekjuskatt af launatekjum. Við höfum margsagt að það sé launafólk sem fyrst og fremst beri tekjuskattinn. Það sem við mótmæltum þegar þessi endurálagning kom fram var fyrst og fremst aukin álagning á launafólk í þessu landi. Ég sagði að við hefðum flutt till. 1983 um að þetta launamat yrði endurskoðað. Það var ekki gert fyrr en þá á þessu ári. En að launamatið sé endurskoðað, sem leiðir þá til endurálagningar á sjálfstæða atvinnurekendur, hef ég ekkert við að athuga.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.