20.12.1986
Efri deild: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2187 í B-deild Alþingistíðinda. (2026)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Í tilefni af ummælum hæstv. forseta vil ég segja að það er greinilegt að hér er ekki reiknað með þeim vinnutíma sem samninganefndarmenn þurfa að leggja á sig í erfiðum samningaumleitunum um kjaramál, og hún hafi reiknað með því að ég mundi tala a.m.k. í 8 tíma, en það er nú ekki meiningin. Ég mun tala innan við það.

Það frv. sem hér liggur fyrir er gott frv. Ég hygg að þar sé á ferðinni mörkun tímamóta sem leiði okkur til móts við þann nýja tíma sem blasir við okkur í dag. Ég geri mér grein fyrir því að það eru margir andvígir því að leggja niður Ríkismatið en þeir eru miklu fleiri sem eru með því að gera það.

Ég tel mig þekkja nokkuð til sjómennsku og sjómanna og hef haft undanfarna sólarhringa gott samband við sjómenn um þessa hluti. Þeir sem ég hef haft samband við eru allir sammála því að leggja þetta mat niður. Allir eru þeirrar skoðunar að Ríkismat sjávarafurða sé yfirleitt af því vonda og vilja breyta til.

Það kemur fram í nál. hv. þm. Skúla Alexanderssonar að ekki hafi gefist tími til þess að ræða við fulltrúa sjómannasamtakanna um þetta mál. Ég mótmæli þessu harðlega. Í Ed., hverri deild ég er í, reyndum við hvað eftir annað að fá þá til viðræðu um þetta mál. En þeir sem óskað var eftir til viðræðu um málið gáfu sér ekki tíma til þess að spjalla við okkur. (Gripið fram í: Ég tók það mjög rækilega fram í ræðu minni en þetta er aftur á móti Nd. sem ég er að tala um.) Það má vel vera að svo hafi verið. En ég þekki nú dálítið til sjómannasamtakanna og ég veit að það var tími til þess að koma til að ræða við sjútvn. og ég furða mig á því að fulltrúar sjómannasamtakanna skuli ekki hafa komið til viðræðu. Ég furða mig á því. Og ég verð að segja það alveg eins og er að með tilliti til alls í sambandi við þetta frv. tel ég þetta eitt af þeim atriðum sem snerta sjómenn hvað mest. Ef fulltrúar sjómannasamtakanna hafa ekki tíma til þess að gera þetta þá er eitthvað að. Ég veit að í Nd. hugsuðu þeir ekki eins mikið um þetta og við í Ed., en það að beita því fyrir sig að fulltrúar sjómannasamtakanna hafi ekki getað komið vegna tímaskorts eða einhvers slíks, ég tek ekki mark á því. Það er eitthvað annað sem þar er að baki. Ég vil að þetta komi fram.

Auðvitað hef ég ákveðnar áhyggjur af því hvernig þetta hefur verið framkvæmt allt saman í sambandi við Ferskfiskmatið. Maður spyr sig ákveðinna spurninga, ég hef gert það líka á nefndarfundum, en þrátt fyrir það að ég hafi ekki fengið fullnægjandi svör þaðan, þá er ég tilbúinn til að taka þessa áhættu sem þarna er á ferðinni gagnvart sjómönnum vegna þess að við erum að ganga til móts við nýja tima varðandi öll þessi mál. Framtíðin er allt önnur en hún var. Ég veit að formaður sjómannasamtakanna, Sjómannasambands Íslands, hefur þau tilmæli frá meiri hluta samninganefndar sjómanna að styðja það að þetta mat verði lagt niður. Það er vegna þess að menn vilja taka þessa áhættu. Menn vita það líka að matið er ónýtt og tákn gamalla tíma, þess tíma sem e.t.v. á ekki eftir að koma aftur og vonandi ekki. En ég vona líka að samfara þessari breytingu leysi menn betur sín deilumál en áður.

Ég man eftir því og vil geta þess að sporin hræða á þann veg að ef deilur koma upppá verða smávandamál meiri en góðu hófi gegnir. Ég vænti þess að það leysist og þess vegna sé ástæða til að gera þessa tilraun. En ef þessi tilraun gefst ekki vel, þá er hægt að kippa þessu til baka, fara aftur í sama horf eða svipað horf, þannig að Ríkismatið geti leyst það sem á vantar.

Þáttur í minni tortryggni birtist í tillögu sem við Alþýðuflokksmenn höfum flutt hér í deildinni. Það lýtur ekki endilega að því hvort matið verður lagt niður eða ekki heldur því hvernig að þessu verður staðið. Ég óttast það að þar með sé aðeins um það að ræða að honum Jóni verði sagt upp en séra Jón fái að vera áfram. Þetta verði áfram svona einhvers konar félagsmálastofnun Framsfl. án þess að nokkuð verði að gert. Þessi hugsun kom fram í síðustu umræðu. Það er alveg á hreinu að ég met það þegar menn taka þátt í félagsmálastörfum að menn séu ákveðnir í því að fylgja sínu fram. En það vekur nokkra tortryggni hversu einlitt lið er þarna og hversu vel er haldið utan um það sem slíkt. (Sjútvrh.: Hefur þm. skrá yfir það?) Ja, ég hef ekki nákvæma skrá yfir það en ég býst við að flokksstjórn Framsfl. hafi mjög góða skrá yfir það og ég óska eftir að fá hana frá hæstv. ráðh., því að hann mun vera innanbúðar þar.

Brtt. okkar Alþýðuflokksmanna er svohljóðandi: „Alþingi kýs á fyrsta fundi Sþ. eftir samþykkt þessara laga sjö manna nefnd til þess að endurskipuleggja starfsemi Ríkismats sjávarafurða með hliðsjón af breyttu hlutverki þess og með það að markmiði að rekstur verði sem hagkvæmastur og yfirstjórn sem einföldust og ódýrust.

Nefndin skal skila skýrslu um tillögur sínar og framkvæmd þeirra til sjávarútvegsnefnda Alþingis fyrir 1. mars 1987, svo og brtt. við lög um Ríkismat sjávarafurða ef nefndin telur þeirra þörf.“

Þetta er okkar tillaga og ég hef fundið það í umræðum hér að menn eru mjög samþykkir þessari till. Það sem menn leggjast gegn í þessari till. er það að þeir telja of lítinn tíma til þess að afgreiða hana vegna þess að jólaleyfi er fram undan og ef hún verður samþykkt þurfi hún að fara til Nd. og þar með verði málið dautt eins og kallað er á þingmáli. En ég er ósammála. Ef þetta væri stjfrv., þá væru ekki nokkur vandkvæði á þessu, þá mundu menn vakta það eða fara í þann farveg að samþykkja þetta kúgaðir af sínum flokkum eins og svo oft hefur komið fyrir. Þá vísa ég til þess að bestu menn hér hafa látið hafa sig í það að leggjast gegn fötluðu fólki með því að greiða atkvæði gegn þeim tillögum sem eru því til styrktar. Ég vil mælast til þess að þessi till. verði samþykkt vegna þess að þetta kemur til með að verða þeirri hugsun til góða sem þessu frv. fylgir.

Ég ætla ekki að vera langorður. Ég segi bara það að ég vænti þess að menn samþykki þetta frv., þetta er gott frv. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir það starf sem hann hefur unnið í þessu sem mörgum öðrum góðum störfum. En ég held að hann Jón Jónsson, sem lendir í því að vera sagt upp núna, muni spyrja að því af hverju séra Jón þurfi ekki líka að víkja. Og ég spyr að því líka. Af hverju þarf hann ekki að víkja? Af hverju ekki að skera upp allt kerfið? Af hverju ekki að segja öllu apparatinu upp og taka því tak? Af hverju þurfa allir topparnir að vera þarna þrátt fyrir það að verkefni falli að mestu leyti niður? Ég spyr og kannske verður því svarað einhvern tímann.

Ég vænti þess að þessi till. verði samþykkt og ég held, þrátt fyrir það að hún verði samþykkt, að það verði hægt að fá hana í gegnum Nd. því svo margir velviljaðir menn hafa mælt þessari till. bót.