22.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2508 í B-deild Alþingistíðinda. (2316)

Brottvikning fræðslustjóra í Norðurlandsumd. e.

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er mjög liðið á þessa umræðu og ástæðan til þess að ég kvaddi mér hljóðs var fyrst og fremst sú að þakka fyrir að hæstv. menntmrh. sá ástæðu til að sakna mín sérstaklega í fyrradag um leið og hann taldi sérstaka ástæðu til þess að kalla Alþýðubandalagsmenn „hyski“ og ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir það hrós sem hann hefur með þessum hætti flutt Alþb. Mér þykir vænt um að hann skuli ausa fúkyrðum yfir Alþb. Það sýnir hvað Alþb. er góður flokkur vegna þess að þeim mun stríðari sem fúkyrðaflaumurinn er út úr hæstv. menntmrh. um einn stjórnmálaflokk, þeim mun vísara má telja að sá flokkur standi í sínu stykki.

Í ræðu sinni kom hæstv. menntmrh. reyndar að því að það kynni að vera svo að „hyskið“ væri eingöngu norðan fjalla að því er Albþ. varðar, en ég fullvissa hann um að „hyskið“ er bæði norðan og sunnan fjalla í þeirri merkingu þess orðs sem hann notaði hér á dögunum. Staðreyndin er auðvitað sú að öll málsvörn menntmrh. í þessu máli hefur verið með þeim endemum í orðbragði, fúkyrðum og stóryrðum, að ég hygg að hafi einhver látið sér detta í hug að hann vildi flytja fram rök með máli sínu hafi sá hinn sami óðara snúið baki við ráðherranum vegna þess að fúkyrðaflaumurinn hefur spillt fyrir öllum málstað ráðherrans í þessu máli og var þó nóg að gert samt. Og þegar hæstv. ráðherra menntamála ræðst að fyrrv. hæstv. menntmrh. Ingvari Gíslasyni fyrir þá ræðu sem hann flutti hér í dag þar sem hann af hógværð og með rökum gerði grein fyrir afstöðu sinni, hvað segir þá hæstv. menntmrh. Íslands, æðsti maður mennta og menningar í þessu landi? Hann segir: Hv. þm. Ingvar Gíslason getur tæplega verið með öllum mjalla. Og síðan segir hann: Það stendur strókurinn upp úr hv. þm. Ingvari Gíslasyni þegar hann er að rökstyðja mál sitt. Ég held að maður sem brúkar kjaft, með leyfi hæstv. forseta, með þessum hætti sýni eitt og aðeins eitt. Það er það að málstaður hans er vondur. Hann verður að þyrla upp orðbragði af þessu tagi til að láta ekki sjást og glytta í hinar raunverulegu staðreyndir málsins sem eru ofríki og hroki þannig að með endemum er í íslenskri stjórnmálasögu. Ég hygg að fáir ráðherrar fyrr eða síðar hafi sýnt aðra eins framkomu, annan eins ruddaskap gagnvart sínum undirmönnum og þessi hæstv, ráðh. hefur gert hverjir svo sem þeir hafa verið. Og það er athyglisvert að þessi ríkisstjórn, sem hefur liðið vaxtaokur sem hefur lagt heilu heimilin í rúst, ákveður að finna tvo menn sem á að hengja, tvo menn sem á að krossfesta og dæma. Hverjir eru þessir höfuðskúrkar nútímasögu á Íslandi? Hverjir eru þessir stórmafíósar sem ríkisstjórnin með hina miklu riddara réttlætisins innanborðs hefur fundið? Hverjir eru þeir? Þeir heita Sigurjón Valdimarsson og Sturla Kristjánsson. Það á að ráðast á garðinn þar sem hann er allra hæstur og þetta er aðferðin sem ríkisstjórnin notar.

Ég tel að það sé með einföldum rökum hægt að sýna fram á að hæstv. ráðherra menntamála hafa orðið á afglöp í þessu máli, embættisleg afglöp. Til þess að víkja manni frá tafarlaust með þeim hætti sem ráðherrann hefur gert verður að veita viðkomandi ítrekaða áminningu, en þær áminningar sem veittar höfðu verið með ljósum eða óljósum hætti höfðu verið afturkallaðar með sérstökum traustsyfirlýsingum menntmrn. til þessa manns, Sturlu Kristjánssonar. Þess vegna er ólöglega að þessu máli farið og hæstv. ráðh. segir þá væntanlega í framhaldinu: Dæmið þið mig. En hvernig er það mál? Það er hæstv. fjmrh. sem verður kallaður fyrir dóm og hæstv. menntmrh. mun áður en til þess dóms kemur verða kallaður fyrir annan dóm. Það er dómur kjósenda í þessu landi. Það er sá dómur sem er æðstur yfir stjórnmálamönnum. Þess vegna er það fjarstæða þegar hæstv. ráðh. er að nota þetta með dómstólana sem einhver rök í málinu. Ja, komið þið bara og kærið þið mig. Málið liggur ekkert þannig.

Þegar ráðherra beitir ofríki með þeim hætti sem hér hefur verið gert á hinn almenni maður, jafnvel þó hann gegni þýðingarmikilli trúnaðarstöðu í kerfinu, enga tafarlausa vörn. Þess vegna m.a. eru þessi vinnubrögð ráðherrans ólíðandi.

Og hver er sá ráðherra sem hér talar? Það er hæstv. ráðherra menntamála, skólamála. Og hvert er hans hlutverk? Að framkvæma grunnskólalög, lög um menntamál. Og þegar opinberir starfsmenn í Norðurlandskjördæmi eystra finna börn með sérþarfir eru þeir skammaðir fyrir það hástöfum af ráðherranum úr ræðustól á Alþingi ítrekað. Það stendur strókurinn upp úr ráðherranum um að þetta embættisgengi þarna, sálfræðingar og ég veit ekki hvað það heitir, fyrir norðan gengi svo snarplega fram í leitinni að þeir fundu helmingi fleiri börn á Norðurlandi eystra en á Reykjanesi. Og þeir eru sérstaklega gagnrýndir fyrir að vinna þannig sín embættis- og skyldustörf, þessir menn. Það er engu líkara en þeir hafi gengið inn á hvert heimili í Norðurlandi eystra og reynt endilega að slíta út sem allra flest börn burtséð frá þörfinni hjá viðkomandi einstaklingum. Ég hygg að húsbóndi menntamála og grunnskólalaganna hafi aldrei gengið eins langt í að ráðast á faglega undirmenn sína eins og núv. ráðh. hefur gert. Og ég vil spyrja: Hvar endar það ef ráðherrar komast upp með þennan hroka, þennan yfirgang gagnvart undirmönnum sínum? Það kann vel að vera að það þurfi að takmarka þær verndarreglur sem eru til um mandarína kerfisins eins og hér var rætt um áðan. En hvað þýðir það ef einn ráðherra kemst upp með að haga sér eins og hæstv. menntmrh. hefur gert? Það þýðir að allt þjónustukerfi ríkisins er í stórkostlegri hættu ef annar eins yfirgangsmaður sest aftur á stól menntmrh. í þessu landi. Þá mega sérfræðingar eins og sálfræðingar ekki vinna sín verk. Þá verða þeir af ráðherrum gagnrýndir fyrir að þeir gangi snarplega fram í því að leita að börnum með sérþarfir á Norðurlandi eystra eða hvar það nú er.

Og það er húsbóndi grunnskólalaganna sem talar. Það er húsbóndi grunnskólalaganna sem kveða á um það að það eigi sérstaklega að sinna þessum einstaklingum með stuðnings- og sérkennslu. Það er ekki fjmrh. sem hér hefur verið að tala heldur húsbóndi grunnskólalaganna. Og ég hygg að það sé erfitt að finna dæmi um jafnmetnaðarlausan menntmrh. fyrir hönd síns starfssviðs, að ég kveði ekki fastar að orði, því þar er ekki fyrir að fara áhuganum á því að sækja fram í þessum málaflokki heldur þvert á móti þarf að sauma að þessu kerfi með orðum um sukk, óráðsíu og hvers konar dylgjum, með skýrslum og greinargerðum sem eru skrifaðar uppi í ráðuneyti í nauðvörn á síðustu stundu jafnvel eftir að búið er að vinna þau verk sem ráðherrann er að burðast við að réttlæta.

Það er athyglisvert að hugsa um það, herra forseti, einmitt í þessu máli að nú eru uppi miklar umræður um það að það þurfi að dreifa valdi, það þurfi að flytja verkefni til byggðarlaganna sem allra mest. Sjálfstfl. hefur sýnt afstöðu sína í þeim efnum, t.d. í Borgarspítalamálinu mjög vel. Það er sama sagan uppi hér. Það er sóknin í allsherjarmiðstýringu þegar Sjálfstfl. hefur valdið. Þá á að selja allt undir Flokkinn, með stórum staf og greini, fjandskapur við allar tilraunir til að ráða málum til lykta í hinum einstöku byggðarlögum.

Það er einnig nokkuð athyglisvert þegar hæstv. menntmrh. gerir það að aðalárásarefninu á Sturlu Kristjánsson að það hafi verið haldinn blaðamannafundur. Ja, þvílíkt hneyksli!

Herra forseti. Það mun hafa gerst norður í landi að það var haldinn blaðamannafundur. Almenningi í Norðurlandi átti að gera grein fyrir tilteknum málum, ekki samkvæmt ákvörðun þessa manns eins heldur samkvæmt ákvörðun yfirvalda fyrir norðan og ég held Fjórðungssambands Norðurlands, ef ég man rétt, og þetta þokkafélag, Fjórðungssamband Norðurlands og fræðsluráðið í Norðurlandi eystra, gerði sér lítið fyrir og hélt blaðamannafund. Það er sérstakt árásarefni að það skuli vera haldinn blaðamannafundur til að gera grein fyrir stöðu mála. Það sýnir með öðru lýðræðisást íhaldsins í þessu máli. Það má ekki láta fólkið vita. Það á að pukrast með niðurskurðinn og svínaríið á bak við tjöldin. Það má ekki segja frá, má ekki segja satt.

Ég tel, herra forseti, að í þessum umræðum hafi komið fram fullgildar röksemdir um að það sé alveg óhjákvæmilegt að á þessum málum verði tekið frekar á hv. Alþingi. Umræðum um málið er m.ö.o. örugglega ekki lokið, jafnvel þó að þessari löngu utandagskrárumræðu ljúki senn. Það er ekki hægt að láta staðar numið, herra forseti, því að hér eru svo alvarleg mál uppi. Þau snerta félagslega þjónustu í landinu, snerta skólana, réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og embættisfærslu ráðherra. Þess vegna er óhjákvæmilegt að þetta mál verði rætt enn frekar. Og það er fróðlegt í þessu efni að athuga að þó að því sé haldið fram að hæstv. menntmrh. hafi þingmeirihluta á bak við sig í þessu máli, sem er sennilega rétt miðað við orð hv. 1. þm. Norðurl. e., er það engu að síður svo að þeir sem hér hafa talað, m.a. úr Framsfl., hafa gagnrýnt ráðherrann mjög harðlega og styðja ekki athafnir hans í þessu máli. Það er til umhugsunar um ráðherraábyrgð þegar hlutirnir liggja með þessum hætti.

En fyrst og fremst, herra forseti, vildi ég stíga hér í stólinn til þakka hæstv. ráðh. fyrir tvennt. Fyrst að hann skyldi sakna mín í fyrradag. Annað hitt að hann skyldi kalla Alþýðubandalagsmenn „hyski“. Það er hrós úr hans munni.