17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3148 í B-deild Alþingistíðinda. (2850)

322. mál, viðskiptahagsmunir Íslendinga gagnvart Evrópubandalaginu

Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Miðað við útflutningstölur fyrstu 10 mánuði ársins 1986 var saltfiskur um 30% af heildarútflutningsverðmæti Íslendinga til EBE. Ljóst er af þessum tölum hve mikilvægt Evrópubandalagið er fyrir saltfiskútflutning Íslendinga. Útflutningur á saltfiski hefur ekki fallið undir ákvæði fríverslunarsamninganna við EBE. Bandalaginu er því í sjálfsvald sett hvernig það meðhöndlar saltfiskinnflutning til aðildarríkja sinna. Saltfiskinnflutningur var lengst af leyfður án tolla skv. sérstakri undanþágu en árið 1985 ákvað bandalagið að nýta tollaheimild á saltfisk sem nemur 13% á flattan fisk en 20% á þorskflök.

Spánverjar eru nú að aðlaga sýna tolla sína tollum bandalagsins. Nú um áramótin var tollur á saltfiski hækkaður úr 7,6% í 10,1% á blautsöltuðum fiski og úr 8,5% í 11,9% á þorskflökum. Tollur gagnvart öðrum löndum bandalagsins er 5,1% en gagnvart Portúgal 6,4%.

Það er ljóst að Spánverjar eru að aðlaga sig bandalaginu, gera það á sjö árum, og hafa tollar verið hækkaðir nú þegar í 10,1 % .

Árið 1986 var Íslendingum mjög hagstætt vegna lítils framboðs á saltfiski frá samkeppnislöndunum. Þetta kom sér vel bæði í verðlagningu og nýtingu þeirra tollfrjálsu kvóta sem fyrir hendi eru. Staða getur orðið óviss á þessu ári þó óljóst sé hvernig þróunin verður. Ljóst er nú þegar að framleiðsla Norðmanna mun aukast á árinu 1987. Það eru einmitt Norðmenn sem hafa í gegnum tvíhliða samninga náð mjög hagstæðum kjörum fyrir saltfiskinnflutning sinn til bandalagsins. Þeir hafa samið um verulega háan tollfrjálsan kvóta. Þessi kvóti bætir senn samkeppnisaðstöðu þeirra til muna og má búast við að þeir verði harðsnúnir í samkeppninni við okkur Íslendinga á þessu ári.

Árið 1986 var framleiðsla saltfisks meiri en flest önnur ár frá því saltfiskmarkaðir opnuðust aftur eftir stríð. Jafnframt er útflutningsverðmæti saltfisksins meira en nokkru sinni fyrr. Þetta tókst þrátt fyrir mörg vandamál á árinu vegna stækkunar Evrópubandalagsins. Það er ljóst að það verður að bregða við vegna inngöngu þessara ríkja í bandalagið.

Ég hef borið fram svohljóðandi fyrirspurn vegna þessa:

„1. Er ekki nauðsynlegt vegna mikilvægra viðskiptahagsmuna Íslendinga að taka upp viðræður við Evrópubandalagið eftir stækkun þess er Spánn og Portúgal gerðust aðilar að því?

2. Hver er stefna ríkisstjórnarinar í þessum málum og hvað hefur verið gert til að undirbúa viðbótarsamninga við Evrópubandalagið?"