18.02.1987
Neðri deild: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3224 í B-deild Alþingistíðinda. (2915)

336. mál, deilur menntamálaráðuneytisins og fræðsluyfirvalda í Norðurlandsumdæmi eystra

Stefán Valgeirsson:

Virðulegi forseti. Í þau 20 ár sem ég hef átt sæti á virðulegu Alþingi man ég ekki til þess að frávísunartillaga hafi verið flutt við 1. umr. um frv. til l. Hins vegar vildi ég ekki vera meðflutningsmaður að því frv. sem hér er nú verið að greiða atkvæði um þar sem ég taldi litlar líkur á að meiri hluti þm. mundi styðja það í því formi sem það er fram borið. Ég hef talið að meiri líkur séu fyrir því að meiri hluti þm. styðji þá till. til þál. sem ég hef flutt, enda tel ég hana í fullu samræmi við beiðni fræðsluráðs Norðurlandsumdæmis eystra. Ég tel að þetta mál eigi að fara til nefndar og einnig þær þáltill. sem hafa verið bornar fram í Sþ. og reynt að fá samstöðu um að sett verði hlutlaus nefnd til að athuga öll málsatvik þessarar deilu. Ég tel að þessi frávísunartillaga sé ótímabær og því segi ég nei.