25.02.1987
Neðri deild: 48. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3524 í B-deild Alþingistíðinda. (3113)

311. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútveg

Frsm. sjútvn. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég tala fyrir frv. til l. um breytingar á lögum nr. 24 7. maí 1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

Um miðjan janúar s.l. voru gerðir nýir kjarasamningar milli sjómanna og útvegsmanna og var með þeim ákveðið að breyta í veigamiklum atriðum tilhögun skiptaverðmætis sjávarafla. Þar sem hér er um svo miklar breytingar að ræða voru aðilar sammála um að óska eftir breytingum á lagaákvæðum í samræmi við það. Í framhaldi af þessum samningum lýsti ríkisstjórnin því yfir að hún mundi beita sér fyrir staðfestingu þess.

Meginbreytingarnar eru fjórþættar:

1. Hlutfall skiptaverðmætis af aflaverðmæti sjávarafla sem landað er innanlands var hækkað úr 75% frá 1. jan. s.l. til 31. maí n.k. og upp í 76% frá 1. júní 1987.

2. Ákveðið var að tengja skiptaverðshlutfallið innkaupsverði á olíu þannig að hækkun olíuverðs hér á landi hefði í för með sér hækkun á skiptaverðshlutfalli en lækkun olíuverðs leiddi aftur á móti til hækkunar á skiptaverði til sjómanna.

3. Þriðja atriðið sem samið var um og snerti skiptakjörin beinlínis varðar ákvörðun skiptaverðs á gámafiskútflutningi. Þar varð samkomulag um að áður en skiptaverðmæti er reiknað skuli draga frá heildarverðmæti þann tilkostnað útgerðar sem hlýst af þessum útflutningi. Þetta ákvæði tekur gildi 1. júní n.k.

Fjórða atriðið snertir skiptakjör á þeim veiðiskipum sem frysta eigin afla um borð. Eru skiptakjörin mismunandi eftir því hvort um bolfisk eða rækju er að ræða og er þar horfið að sama fyrirkomulagi og var fyrir gildistöku laganna um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun. Með þessu frv. er lagt til að þessar breytingar verði lögfestar.

Sjútvn. hefur athugað þetta frv. og rætt það á fundum sínum og mælir með því að það verði samþykkt. Fjarverandi afgreiðslu málsins var Halldór Blöndal. En undir nál. rita Stefán Guðmundsson, Garðar Sigurðsson, Ingvar Gíslason, Guðmundur Einarsson, Gunnar G. Schram og Pétur Sigurðsson.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað