16.03.1987
Neðri deild: 66. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4320 í B-deild Alþingistíðinda. (4074)

420. mál, Innheimtustofnun sveitarfélaga

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ræður hv. 10. landsk. þm. bera þess svo sannarlega vitni þegar menn vansvefta fara í stólinn og bera fram svo fáránlegar spurningar að mann setur hljóðan. Seinasta fsp. frá hv. þm. var sú hvort Jöfnunarsjóðurinn væri í þágu hinna dauðu. Og er ekki að undra þó að maður verði hissa. (GHelg: Ekki sagði ég nú það.) Hann spurði hvort það væri ekki í þágu hinna lifenda og sé það ekki í þágu hinna lifenda hlýtur það að vera í þágu hinna dauðu. Það þarf ekki mikla hugsun til að átta sig á því. En svo ruglaðir geta menn verið í eigin málflutningi að þeir skilji ekki einu sinni hvað þeir hafa sagt hér í salnum.

Hv. þm. talaði um að það væri spauglaust ef menn þyrftu að greiða með fjórum eða fimm börnum og það er hárrétt. En jafnframt tók hún það fram að þessi krafa hefði forgang, þ.e. hver einasti launamaður í landinu verður, þrátt fyrir allan bægslagang hv. þm., þó að allt væri samþykkt sem hún hefur lagt hér til, að greiða með fjórum eða fimm börnum ef hann væri launþegi í landinu. Niðurstaðan er sú að hún hefur ekkert leyst fyrir hinn almenna launamann í landinu, nákvæmlega ekkert.

Dráttarvextir verða engir hjá manninum sem staðgreiðir af sínum launum. Þetta hefur forgang. Það kom fram hjá ræðumanni. Og hverjir eru þá þar fyrir utan? Jú, það er upptalið að hennar mati að það séu fangarnir á Litla-Hrauni. Vafalaust er hægt að finna feður í þeirra hóp. Ekki skal gert lítið úr því. En það er þó nokkuð stór hópur sem hefur aðstöðu til að greiða ekki. Hverjir skyldu það nú vera, hv. 10. landsk. þm.? Ætli það séu ekki atvinnurekendurnir í landinu, mennirnir með sjálfstæða starfsemi? Ætli það séu ekki þeir sem geti komið sér undan því að greiða og safna þarna upp skuld ef þeim sýnist svo? Og ætli það séu ekki þeir sem mundu græða mest á dráttarvöxtunum ef þeir yrðu felldir niður? Ætli það væri ekki rökréttara hjá hv. þm. að taka sig til og flytja till. um að það væri ákveðið hámark sem hver og einn einstakur maður yrði látinn greiða af launum sínum ef hugsunin væri á bak við þetta að það væri einhver félagslegur þáttur í málinu? Hv. þm. gerði sér enga grein fyrir því. (GHelg: Jú.) Hann sat fastur í dráttarvöxtunum, svo gersamlega fastur að hann áttaði sig ekkert á því hvaða hópar það væru sem slyppu samkvæmt kerfinu eins og það er.

Ég lýsi undrun minni, herra forseti, á því að ræður séu fluttar eins og hv. 10. landsk. þm. flutti og vissulega er það alvarlegt mál ef mönnum er haldið hér á fundum svo lengi að þeir skynja ekki betur sinn eigin málflutning en kom fram í þeirri ræðu. Auðvitað hlýtur það að vera mikið álitamál hvort þeir séu þá færir um að greiða atkvæði í þingsölum eins og þeir fullyrtu að þeir hefðu ekki verið fyrir seinustu þinglok þegar þetta frv. var samþykkt. Því var yfirlýst að þá hefðu menn ekki verið í standi til að greiða atkvæði í þingsölum, þeir hefðu verið orðnir svo illa haldnir. Auðvitað hlýtur að vera eðlilegt, ef menn vilja breyta þessu, að flytja brtt. við kjarna málsins.

Kjarni málsins er sá að viss hópur getur safnað þarna skuldum í dag en er fær um að greiða. Annar hópur er ófær um að greiða og þá er eðlilegt að dráttarvextirnir séu felldir niður af honum. En það sem hlýtur að verða að gerast, ef taka á umræðuna alvarlega eins og hv. 10. landsk. þm. var að láta í skína áðan að hann hefði áhuga á, er ákvarðanataka um að þess verði ekki krafist að neinn maður greiði hærri upphæð en ákveðna í hlutfalli við hans laun og það safnist þá annaðhvort upp skuld hjá stofnuninni, sem geymist þar og greiðist seinna, eða hún falli niður af félagslegum ástæðum.