17.11.1986
Efri deild: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í B-deild Alþingistíðinda. (750)

125. mál, opinber innkaup

Árni Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu. Mér láðist að geta um eitt atriði áðan þegar ég fjallaði um það mál sem nú er til umræðu og láðist að beina einni spurningu til hæstv. fjmrh. Í því frv. til l. sem við nú ræðum, um opinber innkaup, stendur m.a. í 5. gr.:

„Innkaupastofnun ríkisins annast innkaup á vörum og þjónustu fyrir ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki, rannsakar sameiginlegar þarfir á vörum og þjónustu og beitir sér fyrir samræmdum innkaupum á vörum til þarfa ríkisins. Einnig skal stofnunin láta í té viðskiptalega aðstoð og leiðbeiningar um einstök vörukaup eftir því sem þörf gerist.“

Lokasetningin og sú mikilvægasta er þessi: „Stofnunin ráðstafar eigum ríkisins sem ekki er lengur þörf fyrir.“

Í athugasemdum frv. við þessa grein segir: „Eina nýmælið efnislega er ákvæðið í 5. gr. um að stofnunin ráðstafi eignum ríkisins sem ekki er lengur þörf fyrir. Hins vegar hefur þetta ákvæði verið framkvæmt í reynd þar sem Innkaupastofnun ríkisins hefur séð um sölu ýmissa eigna ríkisins, svo sem bíla, fasteigna o.s.frv.“

Og þá er komið að spurningunni: Í Morgunblaðinu á sunnudag, í gær, birtist stór auglýsing þar sem ríkissjóður leitar tilboða og þar segir:

„Ríkissjóður hefur ákveðið að leita tilboða í eftirtaldar graskögglaverksmiðjur“ - og þær eru taldar upp þrjár. Síðan segir neðanmáls: „Ástand og viðhald húsnæðis og verksmiðjanna er í góðu lagi. Allar frekari upplýsingar um ofangreindar verksmiðjur gefa Dan Valgarð S. Wiium lögfræðingur, fasteignasölunni Kjöreign, Ármúla 21, Reykjavík“ - og síðan koma símar - „og Hreinn Pálsson á skrifstofu graskögglaverksmiðjanna“ o.s.frv.

Nú er spurning mín til hæstv. fjmrh.: Úr því að það segir í athugasemdum við 5. gr. að þetta ákvæði hafi verið framkvæmt í reynd um sölur á eignum ríkisins, því er þetta nýja form tekið upp í sambandi við sölu á graskögglaverksmiðjunum? Ég vildi gjarnan fá svar við þessari spurningu og ég veit að hæstv. fjmrh. veitir það.