18.11.1986
Sameinað þing: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

126. mál, samningaviðræður tannlækna og Tryggingastofnunar

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Jónsdóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 131 að bera fram fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. um samningaviðræður tannlækna og Tryggingastofnunar ríkisins.

Eins og hv. þdm. og þm. er kunnugt er tannheilsa Íslendinga með því lakara sem við þekkjum í nágrannaríkjum okkar ef ekki þar allra lökust og er því brýnt verkefni að reyna að bæta þar úr. En á meðan ekki er einu sinni hægt að setjast niður við samningaborðið og ræðast við um taxta þá sem Tryggingastofnun mun greiða fyrir tannlæknaþjónustu er lítil von til þess að úr tannheilsu bætist hér á landi.

Eins og öllum er kunnugt slitnaði upp úr viðræðum milli Tannlæknafélags Íslands og Tryggingastofnunar ríkisins í júlí s.l. Tannlæknafélagið hefur sent bréf til formanns samninganefndar Tryggingastofnunar ríkisins þar sem lögð var áhersla á að þriðjudaginn 28. október yrði hafist handa að nýju þar sem fyrir lægju þá þær upplýsingar sem talið var að þyrfti til þess að viðræður gætu haldið áfram og m.a. voru það upplýsingar sem safnað var saman á Norðurlöndunum varðandi tannlæknakostnað þar. Svar við þessu bréfi hefur borist þar sem fram kom að formaður samninganefndar var í sumarfríi og var því ekki hægt að halda áfram samningaviðræðum. Önnur bréf hafa borist varðandi þetta mál þar sem hefur verið varað við því að uppbygging á tannlæknaþjónustu skólabarna sé í hættu vegna þessa máls. Því hef ég lagt fram þessa fsp. í tveimur liðum til hæstv. ráðherra:

„1. Mun ráðherra beita sér fyrir að fram verði haldið samningaviðræðum Tryggingastofnunar ríkisins og Tannlæknafélags Íslands?

2. Ef svo er, hvenær er von til þess að samningaviðræður hefjist að nýju?"