10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1763 í B-deild Alþingistíðinda. (1298)

172. mál, fræðsluútvarp Ríkisútvarpsins

Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans og ég lýsi ánægju minni yfir því að unnið skuli vera að þessu máli, en eins og menn vita er enn mikill munur á aðstöðu fólks til að leita sér hvers kyns menntunar af hinum ýmsu ástæðum, svo sem vegna búsetu, efnahags, atvinnuþátttöku, fötlunar eða jafnvel kynferðis.

Fræðsla í gegnum fjölmiðla væri til mikilla bóta til að koma til móts við menntunarþörf þeirra sem af ofangreindum ástæðum geta ekki sótt menntun sína til hins hefðbundna skólakerfis.

SI. vor gerðu stjórnendur Fjölbrautaskóla Vesturlands könnun á áhuga fólks í landshlutanum á að stunda nám með aðstoð fjarkennslu. Könnunin gaf ótvíræða vísbendingu um töluverðan áhuga og af 66 sem svöruðu voru 41 kona. En það sýnir sig, eins og svo oft áður, að konur sem búa í dreifbýli hafa margar hverjar haft ákaflega takmarkaða möguleika til að afla sér menntunar. Könnun þessi bauð aðeins upp á byrjunarnám í einstökum greinum og segir því ekkert um þá sem hafa einhvers konar framhaldsnám að baki og kynnu að hafa áhuga fyrir að halda því áfram. Þá bauð könnunin heldur ekki upp á val á námi til ákveðinna réttinda eða loka á tilteknum námsbrautum. Ef þetta tvennt er haft í huga svo og að í þessu tilfelli var einungis boðið upp á námsgreinar sem nú eru kenndar innan okkar hefðbundna skólakerfis. Væntanlega spannaði námsframboð fræðsluútvarps yfir mun stærra svið og mundi sinna menntunarþörf mun stærri hóps en þess sem hefur notið skólagöngu innan skólakerfisins.

Á síðasta kjörtímabili flutti hv. varaþingkona Kvennalistans Guðrún J. Halldórsdóttir frv. til l. um fjarnám ríkisins. Hugmynd hennar var ákaflega vel tekið og nú þegar munu vera hafnar tilraunir með fjarkennslu, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra.

Í grg. með frv. segir Guðrún Halldórsdóttir m.a., með leyfi forseta:

„Hverri þjóð sem vill kenna sig við menningu og framfarir er þörf á að halda uppi fjölbreyttri fræðslu fyrir þegna sína.“

Það kom fram í svari hæstv, menntmrh. að á fjárlögum næsta árs væru ætlaðar 6 millj. kr. til þessa verkefnis. Það gefur auga leið að sú fjárveiting gefur litla möguleika til að sinna þessu verki jafnmyndarlega og þörf er á. Ríkisútvarpið hefur mikilvægum skyldum að gegna til að ná þessu markmiði og því er það von mín að hefja megi sem fyrst þessa fræðslu, og þá ekki einungis í hefðbundnum greinum sem boðið er upp á innan skólakerfisins. Ég fagna því að hæstv. menntmrh. skuli vilja byrja á því að leggja sérstaka áherslu á íslenskukennslu.