10.02.1988
Neðri deild: 57. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4417 í B-deild Alþingistíðinda. (3052)

260. mál, brottfall ýmissa laga á sviði viðskiptamála

Stefán Valgeirsson (frh.):

Herra forseti. Ég mun hafa verið þar í ræðu minni að ég ætlaði að minnast á vexti í öðrum löndum vegna þess að hér hafa verið fullyrðingar um það að víða séu hærri vextir en eru á Íslandi. Ég tek þó fram að þessi samantekt er frá því fyrir áramót og síðan hafa vextir lækkað í nokkrum löndum þó að ég hafi það ekki hér fyrir framan mig hvað slík vaxtalækkun hefur orðið. En þetta er eftir Seðlabankanum haft og ég vona að það sé rétt.

Það er sagt að á Íslandi séu vextirnir frá 4,7 upp í 7,7%. Ég vil byrja á því að gera athugasemd við þetta. Það er að vísu talað um meðalvexti á sl. ári, en þegar þessi samantekt er gerð er miðað við 2/3 ársins, ekki síðustu fjóra mánuðina sem breytir líka þessari mynd verulega. Þeir segja að þetta hafi verið frá 4,7 upp í 7,7%, í Bandaríkjunum 2,9%, í Bretlandi 4,3%, í Vestur-Þýskalandi 5,4%, þeir eru verulega lægri núna, í Frakklandi 6,2%, í Japan 2,1%, Kanada 4,8%, í Danmörk 9%, í Finnlandi 4,1%, í Svíþjóð 6,5%, í Belgíu 7,1%, í Hollandi 5%, í Sviss 3,6%, á Ítalíu 8,4%, á Írlandi 4,8%, í Austurríki 5,3%, í Portúgal 10,9%, á Spáni 10,5%, í Ástralíu 9,3% og á Nýja-Sjálandi 17,4%.

Vextir á Íslandi hækkuðu verulega á síðasta þriðjungi sl. árs. Það kemur t.d. fram í skýrslu Seðlabankans að vextir á verðtryggðum reikningum eru verulega hærri. Það kom fram í viðtali við hæstv. utanrrh. að hann taldi að útlánsvextir væru 20–30%. Aðrir hafa nefnt við mig enn þá hærri tölu, þ.e. þá er það í vissum tilvikum. Ég held að það sjáist á þessum upplestri að raunvextir á Íslandi eru með þeim allra hæstu ef ekki hæstu miðað við þessa töflu.

Hæstv. bankamálaráðherra talaði um að fá erlenda banka inn í landið. Ég viðurkenni að ég hef ekki haft möguleika á að athuga það svo nákvæmlega nema ég hef haft samband við menn sem eru kunnugir á þessu sviði og þeir benda á að erlendir bankar muni ekki koma inn í landið öðruvísi en að gera ráð fyrir því að þeir hafi af því verulegan hagnað. Og ef reynslan sýni það að þeir hafi metið það rangt muni þeir hverfa héðan í skyndingu. Ég vil ekki fullyrða um það hvort þessar skoðanir eru á rökum reistar, en ég vil samt láta það koma hér fram til umhugsunar. Ef þessar skoðanir reyndust réttar, ég hef talað t.d. við hagfræðinga um þetta mál, við bankamenn, gæti það verið dálítið umhugsunarefni hvaða afleiðingar það gæti haft en ég ræði það ekki frekar hér.

Hæstv. bankamálaráðherra ræddi um það að verðtryggingin hafi bjargað fjármagnsmarkaðinum hér. Við höfum ekki deilt um þetta atriði. Það sem er verið að deila um er að vaxtahæðin hefur farið alveg úr böndum. Það er orðið eins — ja, ég vil segja vitlaust eins og áður var þegar vextirnir voru svo og svo neikvæðir. Það stendur enginn atvinnurekstur eða einstaklingar undir svona fjármagnskostnaði. Það er málið. Það vita allir sem hafa opin augun að eignatilfærsla í þessu þjóðfélagi er blátt áfram hrikaleg í dag. Og mér þykja það mjög mikil tíðindi ef þeir menn sem kenna sig við jafnaðarstefnu vilja ekki og fást ekki til þess að grípa þarna í taumana og laga þetta. Þetta er óliðandi. Þetta hlýtur að verka þannig að til ófarnaðar leiði eins og mýmörg dæmi er hægt að koma með. Atvinnurekstur er að stöðvast, atvinnuleysið fer þá í kjölfarið. Einstaklingar eru gjaldþrota og það fer ört vaxandi. Hver hv. þm. vill bera ábyrgð á slíkri þróun?

Það hefur verið talað um að verðbólgan fari eftir eftirspurn. Hún eigi að ráða og hún ráði. Það ræður auðvitað nú en það er líka ýmislegt sem verður til þess að hafa áhrif á það að almenningur telur að verðbólgan fari vaxandi, en eigum við að leiða hugann að því hvers vegna það er. Þetta gerist þrátt fyrir það að hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkar hafi heitið þjóðinni því að vinna á móti verðhækkunum. Meira að segja ætla þeir að vinna að því að lækka verðbólguna og lækka vextina. Ef það er rétt, sem ég raunar efast ekkert um, að það sé ein af ástæðunum er það fyrir það að þjóðin treystir ekki ríkisstjórninni, blátt áfram vegna þess. Hún tekur ekki mark á orðum hennar og það ætti hæstv. ríkisstjórn að hugleiða niður í kjölinn.

Ég gat um það í fyrri ræðu minni að í september á sl. ári hefði ríkissjóður leitað út á hinn almenna markað með ríkisvíxla og þar með aukið eftirspurnina. Það er annað sem mig langar líka til að vekja athygli á en það er að ríkissjóður hefur samið við Seðlabankann um viss kjör á sínum yfirdrætti sem fer eftir hlaupareikningum bankanna en er þó 1% minna. Ef samkomulagið stendur ekki af hálfu ríkissjóðs verða þessir vextir að vísu hærri, það sem umfram er, en aldrei eins og dráttarvextir eru á hverjum tíma.

Auðvitað varð þessi breyting, að ríkissjóður fór út á hinn almenna markað og fór að keppa við bankana um peningana — og ég ætla ekki að bæta við það sem ég sagði um daginn um það efni, ég held að það hafi komið alveg nógu skýrt fram — til þess að vaxtasprenging varð í landinu. Og ég sný ekki aftur með það að það er algjörlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar hvernig komið er í þessum málum og þegar menn halda því fram að vextirnir hafi ekki áhrif á verðlagið er ég alveg hættur að skilja slíkan málflutning og slíka menn. Halda menn virkilega að verslunin láti ekki vextina koma fram í verðlaginu? Dettur mönnum það í hug? Gera menn sér ekki grein fyrir hvað er að gerast í sambandi við dreifbýlisverslunina hvort sem það er samvinnuverslun eða einkaverslun? Það hafa sagt mér einir þrír forstöðumenn slíkra verslana að umsetningin í byggingarvörum og vefnaðarvörum hjá sér sé ekki nema tvisvar sinnum á ári. Miðað við þessi vaxtakjör þyrfti að setja á þessa vöru 20% vexti til að standa undir vöxtunum einum saman. Hér á þessu svæði er þetta náttúrlega allt annað vegna þess að afsetningin á sumum vörum er kannski þannig að þeir þurfa enga vexti að borga því að kaupmenn geta fengið vaxtalausa víxla í 45 daga. Ég veit a.m.k. dæmi þess að kaupmenn hafa getað velt í matvöruverslunum 20–30 sinnum á ári. Þá geta menn reiknað aðstöðuna út.

Það er sem sagt tvennt, og ég undirstrika það hér og nú, sem hefur gerst í þessum málum. Annars vegar er það „grái“ markaðurinn sem hefur engar skyldur, hvorki bindiskyldur eða aðrar skyldur, og ,.grasserar“ hér og meira að segja hæla menn sér af því í viðtölum við blöð að þeir séu að komast yfir svo og svo miklar eignir. Ég er margsinnis búinn að leggja áherslu á það, bæði hér á hv. Alþingi og við fyrrv. ríkisstjórn, að þarna verði að taka í taumana, annars muni til ófarnaðar leiða. Það eru fyrst og fremst þessar tvær ástæður. Ríkissjóður keppir um fjármagnið við bankana og „grái“ markaðurinn fer sínu fram og engum lögum er hægt yfir hann að koma eftir því sem manni heyrist. Sú lagasetning sem átti að verða í fyrra um þetta efni reyndist haldlaus. Ég benti líka á að ég væri hræddur um að reyndin yrði sú þó að aðrir fullyrtu hið gagnstæða.

Ég sé mér ekki annað fært en að lesa tvo kafla upp úr skýrslu Seðlabankans máli mínu frekar til stuðnings, með leyfi forseta. Hér stendur á annarri síðu í þessari viðamiklu skýrslu þar sem þeir eru að tala um þróunina í þessum málum:

„Í fyrsta lagi hefur verðbólgan og óvissa um framtíðarþróun verðlags verið vaxandi á þessu tímabili og aukið jafnvægisleysi á lánamarkaði.

Í öðru lagi hefur aukin samkeppni á lánamörkuðum, bæði vegna almennrar þenslu og aukinnar fjáröflunar ríkisins og annarra opinberra aðila, aukið á eftirspurn eftir lánsfé.

Í þriðja lagi hafa raunvextir bankakerfisins smám saman verið að aðlagast raunvöxtum á öðrum hlutum lánamarkaðarins eins og hlaut að verða í kjölfar aukins frjálsræðis á lánamarkaðinum. Er reyndar slík samræming vaxtakjara lánsfjár eitt af skilyrðum þess að heildarjafnvægi geti náðst á markaðinum.“

Hvað eru þeir að segja í þessari málsgrein? Þeir eru að viðurkenna að „grái“ markaðurinn og boð ríkisins um raunvexti upp á 41,3% verði til þess að pressa upp vextina. Það stendur hér skýrt í skýrslu Seðlabankans.

Ég ætlaði ekki að þreyta þm. á of miklum lestri upp úr þessari skýrslu. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. geti fengið hana í hendur, enda er hægt að draga af henni ýmsa lærdóma. En ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa neðarlega af þriðju síðu skýrslunnar. Þar segir:

„Á fyrstu átta mánuðum ársins virðist hann þó vera nokkuð minni en á árinu 1986.“ — Hér er verið að tala um þensluna. — „Ýmislegt bendir til þess að afkoma innlánsstofnana verði ekki góð á þessu ári og gefur það ásamt upplýsingum um þróun vaxtamunar ekki tilefni til þess að gera sérstakar ráðstafanir af hálfu Seðlabankans til þess að draga úr vaxtamun. Rétt er þó að taka fram að enn er unnið að þróun talnaefnis og endurbættum aðferðum til mats á vaxtamun og verður því þegar af þeirri ástæðu að fara varlega í ályktunum um þessi efni.

Nú er unnið að því að meta vaxtamun út frá reikningsuppgjörum innan árs. Bankar og sparisjóðir taka slíkt uppgjör saman þrisvar á ári og mun því henta að gera ráðuneytinu grein fyrir niðurstöðu um vaxtakjör í kjölfar þess en ekki ársfjórðungslega eins og nú er gert samkvæmt beiðni ráðuneytisins.“ Svo mörg eru þau orð.

Ég held að ég láti þetta nægja í sambandi við þær umræður sem hafa farið fram að öðru leyti en því að ég tel það sjálfsagt mál að sú nefnd sem fær frv. til umfjöllunar athugi það mjög vel. Ég er ekki sammála þessum lagagreinum en það þarf að gera eitthvað í þessu máli. Það er alveg á hreinu. En ég vil ekki úttala mig um það hér og nú, ég á eftir að kanna það betur. En svo getur ekki haldið áfram. Það verður að taka á þessum málum eins og ég mun kannski koma svolítið betur að því að ég verð að fara út í aðra sálma nokkra stund.

Í Morgunblaðinu í morgun er viðtal við formann Framsfl., hæstv. utanrrh. Steingrím Hermannsson, út af viðtali við mig í Morgunblaðinu í gær þar sem Morgunblaðið spurði um veru mína í bankaráði Búnaðarbankans og hvort ég ætlaði að sitja þar áfram.

Hæstv. utanrrh. segir: "„Ég er Stefáni mjög ósammála. Hann var kosinn í bankaráð sem fulltrúi Framsfl. og þá um leið sem fulltrúi framsóknarmanna í þéttbýli og dreifbýli. Það mundi sýna siðferðilegan styrkleika að hann segði sig úr bankaráðinu“, sagði Steingrímur Hermannsson utanrrh. og formaður Framsfl. er Morgunblaðið innti hann álits á þeim ummælum Stefáns Valgeirssonar, þm. Samtaka jafnréttis og félagshyggju, að ekkert óeðlilegt væri við það að hann sæti í bankaráði Búnaðarbankans fyrir tilverknað Framsfl.“

Ég sé ekki ástæðu til að lesa meira upp úr þessu samtali. En af þessu tilefni, og mér þykir það mjög leitt að utanrrh. á ekki sæti nú á þingi og er ekki viðstaddur, kemst ég ekki hjá því vegna blaðamanna sem hafa hringt í mig í morgun að skýra mitt viðhorf út af þessum ummælum hæstv. utanrrh. Þar sem þetta er í raun og veru allt tengt þessu máli vil ég byrja á því að segja að ég sagði mig ekki úr Framsfl., mér var vísað úr honum. Ég ætla ekki að rifja það upp að öðru leyti en því að það voru samtök margra manna á Norðurl. e. sem skoruðu á mig að fara í framboð. Það var sótt um að fá bókstafinn BB. Því var hafnað af forustu Framsfl. Samkvæmt lögum flokksins eru þeir sem fara í framboð fyrir aðra þar með sjálfkrafa úr honum farnir. Þetta er málið.

Ég vil þá koma að því að eftir kosningar barst mér svohljóðandi bréf, þrátt fyrir það að búið væri að vísa mér úr flokknum, sem ég kemst ekki hjá að lesa upp. Það er dagsett 10. júní 1987.

„Herra alþingismaður Stefán Valgeirsson. Þingflokkur framsóknarmanna gerði á fundi sínum í gær svohljóðandi samþykkt:

Þingflokkur framsóknarmanna samþykkir að bjóða Stefáni Valgeirssyni að ganga í þingflokkinn með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir. Ég og stjórn þingflokksins sem verður kjörin mjög fljótlega erum að sjálfsögðu reiðubúin til þess að ræða við þig um mál þetta. Það er von okkar að þú sjáir þér fært að taka sem fyrst sæti í þingflokknum.“

Undir þetta ritar Steingrímur Hermannsson fyrir hönd þingflokks framsóknarmanna.

Ég svaraði þessu bréfi og sagði að ég þyrfti að hafa samráð við mitt fólk á Norðurlandi og á þessum tíma væri ekki gott um fundarhöld. Fundur var svo ekki fyrr en 1. okt., með þeim formanni Framsfl. og formanni þingflokksins, norður á Akureyri þar sem við vorum tíu fyrir samtökin sem mættum þar til fundar. Við höfðum tekið saman nokkra skýrslu upp á 12 blaðsíður þar sem við fórum yfir stjórnarsáttmála Þorseins Pálssonar og gerðum miklar athugasemdir.

En hvað gerðist á þessum fundi? Formaður Framsfl. og formaður þingflokksins sögðu að í öllum tilvikum nema einu væru þeir sammála okkur en vegna þess að þeir væru í þessari ríkisstjórn gætu þeir ekki beitt sér fyrir þessum malum. Sem sagt, við á Norðurl. e. sem stóðum að framboði á vegum Samtaka jafnréttis og félagshyggju vorum með stefnu Framsfl. sem þeir höfðu ekki þrótt í sér til að fylgja eftir. Þeir vildu ekki missa stólana. Ég kemst ekki hjá því að lesa upp tvö bréf sem fóru frá okkur sem lýsa alveg gangi þessara mála.

Áður en ég les þau upp vil ég segja það að í raun og veru hefur formaður Framsfl., hæstv. utanrrh., staðfest þetta að verulegu leyti, í viðtölum við blöð. Hver sagði að Róm væri að brenna, þegar hann var að minnast á efnahagsástandið í hans eigin landi þar sem hann ber ábyrgð ekki síður en aðrir, ekkert síður en aðrir? Hvað sagði hann líka í sambandi við ástandið? Hann sagði að öll þessi efnahagsmál þjóðarinnar væru hreint afskræmi. Í raun og veru þarf kannski ekki mikið annað heldur en að vitna í þessi ummæli.

Hann talar um að ég muni sýna siðferðilegan styrk ef ég segi mig úr bankaráðinu. Ég tel mig geta unnið ögn að málefnum, þeim málefnum sem ég hef sinnt á undanförnum árum, með því að sitja þar áfram. En hann ætti að sýna siðferðilegan styrk og segja sig úr ríkisstjórninni ef hann meinar nokkuð með þessum orðum sem ég hér tilfærði. Hvorki hæstv. utanrrh. né aðrir þurfa að halda að ég muni hlífa nokkrum eins og nú stendur á landsbyggðinni og hjá fátækara fólkinu í landinu. Það er alveg á hreinu.

Ég ætla að láta þetta nægja, en harma það að formaður Framsfl. skuli ekki vera hér og ekki eiga sæti nú á þingi því það er ekki háttur minn að svara nema ég megi til. En þar sem ég fæ ekki frið fyrir blöðum út af þessu viðtali í morgun við hæstv. utanrrh. þá tel ég mig knúinn til að segja það sem ég hef sagt og það sem ég á eftir að segja.

Og þá hefst lesturinn á fyrra bréfinu, með leyfi forseta. Þetta er dagsett 6. okt. og er skrifað til Páls Péturssonar, formanns þingflokks Framsfl.

„Ég vísa til fundar þíns og formanns Framsfl. með fulltrúum Samtaka jafnréttis og félagshyggju, sem haldinn var á Akureyri 1. þ.m., þar sem rætt var um boð Framsfl. að bjóða Stefáni Valgeirssyni að ganga í þingflokkinn með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir, eins og stendur í boðsbréfi.

Á þessum fundum lögðum við fram athugasemdir við starfsáætlun ríkisstjórnarinnar með beinum tilvitnunum í hana þar sem fram kemur að í mörgum veigamiklum málum getum við ekki átt samleið með þeim flokkum sem telja sig bundna af slíkri starfsáætlun. Í niðurlagi athugasemda okkar segir: Hingað til hefur hlutverk stjórnvalda fyrst og fremst falist í að skapa starfsskilyrði fyrir atvinnuvegina. Samtök jafnréttis og félagshyggju leggja ekki síður áherslu á að skapa skilyrði í þjóðfélaginu til þroska, heilbrigðis og ábyrgðar hvers og eins, m.a. með þeim breytingum á öllu skólastarfi þar sem mannrækt og sönn menning er sett í öndvegi í stað hefðbundinnar fræðslu, ítroðslu, og með því að beita hvarvetna samræmdum aðgerðum í jafnréttisátt.

Þessi umfjöllun og athugasemdir okkar við starfsáætlun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar leiðir í ljós að okkar mati að það einstaklingsfrelsi sem ríkisstjórnin stefnir að í grundvallarmarkmiðum sínum sé í raun frelsi þeim til handa sem sitja að fjármagni og völdum og leiði ekki til aukins jafnréttis, heldur þvert á móti.

Þessi skilningur á einstaklingsfrelsi gengur þvert á þá skilgreiningu samtakanna að raunverulegt frelsi einstaklinganna felist í því að geta tekið ábyrgð á eigin lifi og samfélaginu. Okkur sýnist það ganga eins og rauður þráður í gegnum hvert atriði af öðru í starfsáætluninni að þeim sem ráða fjármagninu sé ætlað að della og drottna í okkar þjóðfélagi í næstu framtíð ef eftir þessum stjórnarsáttmála verður farið.

Verði ríkisbankarnir gerðir að hlutafélagsbönkum, lánasjóðir atvinnuveganna sameinaðir eða þeim gert skylt að lána eftir sömu reglum, fólksflóttinn til höfuðborgarinnar látinn halda áfram og aðstöðumunur vegna búsetu ekki minnkaður hefur einstaklingsfrelsið brugðið sér í líki frjálshyggjunnar, ýtt enn frekar undir misréttið og það geta Samtök jafnréttis og félagshyggju ekki stutt. Telji forustusveit Framsfl. að við misskiljum þá grundvallarstefnu sem felst í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar og ef í ljós kemur að athuguðu máli að sjónarmið okkar og markmið fara að verulegu leyti saman þá fögnum við því og erum reiðubúin að starfa með öllum þeim sem vilja vinna að framgangi raunverulegs jafnréttis og koma á jafnvægi í byggð landsins.

Eftir að þið vikuð af fundi sátum við eftir, fulltrúar Samtaka jafnréttis og félagshyggju, til að meta það sem frá ykkur kom á fundinum og íhuga svar við boði þingflokks framsóknarmanna. Að okkar mati kom eftirfarandi fram af ykkar hálfu á fundinum:

1. Að þingmaður Samtaka jafnréttis og félagshyggju getur því aðeins gengið í þingflokk Framsfl. að hann geri það sem stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar.

2. Forustumenn Framsfl. lýstu því hins vegar yfir að þeir styðji okkar stefnumál en vera þeirra í núverandi ríkisstjórn og þar með stjórnarsáttmálinn komi í veg fyrir að hægt sé að beita sér í þessum málum sem við berum fyrst og fremst fyrir brjósti.

Þegar við lögðum áherslu á eitthvert baráttumál okkar þá var langoftast svar ykkar: „Hvar á að taka peningana?" eða „Það er bara ekki samstaða um þessi mál.“ Fáar eða engar leiðir virtust færar í þeim málum að ykkar dómi.

Það kom fram í okkar máli að margar byggðir riða nú til falls, sérstaklega þar sem sauðfjárrækt er aðalbúgreinin. Einnig verður að bæta og tryggja hag þeirra mörgu byggðarkjarna um allt land sem eru undirstaða okkar sjávarútvegs. Hlutdeild þeirra í aflafé verður að auka þannig að atvinnugreinin geti boðið starfsfólki sínu bætt kjör og atvinnuöryggi. Jafnréttislögin eru þverbrotin, sbr. ráðningu í stöðu kvensjúkdómalæknis við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, sbr. 9. gr. jafnréttislaga og fjögurra ára áætlun ríkisstjórnarinnar um jafnréttismál.

Launamunur hefur aukist, sbr. 7,23% launahækkun 1. þ.m. á öll laun, og aðstöðumunur eykst þar sem 10% söluskattur er nú lagður á alla matvöru nema mjólkurvörur og kjöt, meira að segja á mötuneyti heimavistarskóla. Okkur nægir ekki að sagt sé að ríkisstjórnin stefni í réttlætisátt ef framkvæmdin er öfug.

Þegar við bentum á að það gæti tæpast farið fram hjá neinum hvar fjármunirnir eru þar sem milljarðahallir eru byggðar nú á höfuðborgarsvæðinu var svar ykkar: „Það er engin samstaða um að færa þá fjármuni til.“

Okkur virðist sem sé ekkert vera hægt að gera til þess að sporna við þeirri þróun að fjármunir og völd færist sífellt í færri hendur á kostnað landsbyggðar og á kostnað þeirra fjölmörgu sem hafa lökustu samkeppnisaðstöðuna. Við bentum ykkur á að þetta er ekki lögmál, heldur leikreglur, kerfi sem verður að breyta ef við ætlum að halda uppi byggð í landinu og vinna að raunverulegu jafnrétti.

Samtök jafnréttis og félagshyggju eru breytingarafl, hópur fólks sem sér að við verðum að fara nýjar leiðir til þess að ná raunhæfum árangri. Við sættum okkur ekki við að málefnin séu látin víkja fyrir annarlegum sjónarmiðum. Við sjáum að í núv. ríkisstjórn er auðgildið sett ofar manngildinu. Jafnrétti, lagfæring á aðstöðumun, landsbyggðarstefna o.fl. verður að bíða betri tíma þar sem ekki eru finnanlegir fjármunir til slíkra hluta og það í mesta góðæri sem þjóðinni hefur hlotnast í langan tíma.

Hvenær verða þá peningar finnanlegir til þess að jafna launin og minnka aðstöðumuninn í okkar þjóðfélagi, eða vantar raunverulegan vilja til að halda uppi virkri byggðastefnu og setja í framkvæmd þjóðhagslegar aðgerðir til að vinna gegn vaxandi misrétti? Forustumenn Framsfl. virðast hafa gleymt hinum fleygu orðum og gildi þeirra: „Vilji er allt sem þarf.“

Samtök jafnréttis og félagshyggju geta með engu móti stutt ríkisstjórn sem setur auðgildið ofar manngildinu. En þar sem á fundi okkar kom greinilega fram að þið sögðust vilja vinna að framgangi þeirra mála sem við leggjum þyngstu áhersluna á, og þótt Framsfl. telji sig ekki geta beitt sér fyrir þeim málum á meðan hann er aðili að þessari ríkisstjórn, þá erum við fús til þess að kjósa með ykkur í þingnefndir, án annarra skuldbindinga ef um það semst. Það skal tekið fram að með þessu erum við að bjóðast til að vinna með Framsfl. en alls ekki með núv. ríkisstjórn.

Ef aðstæður breytast svo að þið getið farið að vinna samkvæmt sannfæringu ykkar að þeim stefnumálum sem þið lýstuð á fundi okkar, þá gæti komið að því að nánara samstarf við Framsfl. reyndist mögulegt. Tíminn leiðir það í ljós.“

Undir þetta ritar Stefán Valgeirsson fyrir hönd fulltrúa Samtaka jafnréttis og félagshyggju sem sátu fundinn.

Síðan gerist það að það kemur í útvarpi að mig minnir 10. okt. að ákveðið sé að leggja söluskatt á alla matvöru. Og 11. okt. átti ég fund með hv. þm. Páli Péturssyni, en það bréf sem ég sendi síðan er skrifað 12. okt. og er þannig, með leyfi forseta:

„Herra Páll Pétursson, formaður þingflokks Framsfl.

Ég vísa til bréfs sem ég sendi þér 6. okt. 1987. Bréf þetta var sent í framhaldi af fundi sem fulltrúar Samtaka jafnréttis og félagshyggju áttu með þér og formanni Framsfl., Steingrími Hermannssyni, á Akureyri 1. okt. sl.

Í upphafi bréfsins er gaumgæft hvernig ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar hyggist vinna að framgangi jafnréttis í þjóðfélaginu. Í niðurlagi bréfsins hafna Samtök jafnréttis og félagshyggju stuðningi við ríkisstjórnina, m.a. vegna þess að samkvæmt stjórnarsáttmálanum eru landsbyggðin og þeir sem lökustu aðstöðuna hafa í þjóðfélaginu settir hjá. Sáralítið virðist á döfinni til þess að stöðva eða snúa við fólksflótta af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins eða draga úr öðru misrétti í þjóðfélaginu.

Vegna þess að upphafleg stefnumál Framsfl. voru á sama veg og þau stefnumal sem Samtök jafnréttis og félagshyggju berjast fyrir buðumst við í fyrrnefndu bréfi til þess að kjósa með Framsfl. í þingnefndir án þess þó að styðja núverandi ríkisstjórn. Var þetta gert í þeirri vona að Framsfl. gæti síðar farið að vinna samkvæmt stefnumálum sínum og sannfæringu flokksmanna sinna.

Eftir að þetta bréf var sent hefur ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar gripið til mikilla efnahagsráðstafana í framhaldi af endurskoðaðri þjóðhagsspá að sagt er. Er hér gripið til aðgerða sem enn auka misréttið í þjóðfélaginu og hallar enn á landsbyggðina með þeim aðgerðum. Má nefna að fjárveitingar til framkvæmda vegna hafna, vega, skóla og heilsugæslu verða skornar niður og söluskattur lagður á öll matvæli.

Allt eru þetta málaflokkar sem við lögðum áherslu á á fyrrnefndum fundi með ykkur Steingrími og teljum við að hér sé enn vegið að landsbyggðinni og þeim sem minna mega sín og álítum að órökrétt sé að draga úr þenslunni á höfuðborgarsvæðinu með því að skera niður framkvæmdir sem eru lífsnauðsynlegar fyrir landsbyggðina.

Ég átti góðan fund með þér í Þórshamri 11. okt. þar sem við ræddum hugsanlega samvinnu Framsfl. og Samtaka jafnréttis og félagshyggju varðandi nefndakjör. Vegna þessara breyttu aðstæðna taldi ég mig þurfa að ræða við fulltrúa samtakanna í kjördæminu áður en afráðið yrði um samvinnu. Ég hef nú haft samband við þá sem voru á fundinum með ykkur Steingrími og allmarga aðra sem hafa staðið framarlega í samtökum okkar. Niðurstaðan varð sú að öll töldu þau að við gætum á engan hátt unnið með þeim sem þannig standa að málum og vinna gegn baráttumálum okkar, jafnvel þó þeir hafi hag landsbyggðarinnar á stefnuskrá sinni. Við verðum að meta menn og flokka eftir gjörðum þeirra en ekki orðum. Samtök jafnréttis og félagshyggju geta því ekki unnið með Framsfl. að umræddu nefndakjöri.“

Undir þetta ritar Stefán Valgeirsson f.h. Samtaka jafnréttis og félagshyggju.

Ég vona að þegar ég er búinn að gera grein fyrir þessu hér hafi ég a.m.k. frið fyrir blöðum út af þessu máli. Og ég skal endurtaka það hér og nú að miðað við þessa sögu, miðað við hvernig þetta hefur gengið til, hvarflar ekki að mér eða öðrum í samtökunum að ég fari úr bankaráði Búnaðarbankans. Ég get hins vegar bent þeim á það sem þarna ráða að auðvitað geta þeir losnað við mig með því að breyta lögum. En þá gera þeir það.

Ég hef ekki meira að segja um þetta mál. Ég var að vona að ríkisstjórnin færi að sjá að sér í sambandi við þessi vaxtamál, þessi lánakjör, og yfirfari þessi mál þar sem mér virðist að þetta sé orðið trúaratriði í sambandi við vexti, að þeir eigi að fara eftir framboði og eftirspurn og ekki síst þegar er unnið svona að málum eins og ég hef lýst og reynt að rekja í máli mínu hér á undan.