17.02.1988
Neðri deild: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4704 í B-deild Alþingistíðinda. (3242)

263. mál, almannatryggingar

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt hv. 2. þm. Norðurl. v. frv. um breytingu á lögum nr. 72/1969, um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, með síðari breytingum.

Þetta frv. felur fyrst og fremst í sér að breyta núverandi fyrirkomulagi verðjöfnunar í fiskiðnaði þannig að hún miðist við einstök fyrirtæki, en sé ekki sameign heillar greinar eins og verið hefur frá því að lögin um Verðjöfnunarsjóð tóku gildi. Með þessu frv. er gert ráð fyrir því að aðild hagsmunaaðila að stjórn Verðjöfnunarsjóðsins verði breytt og að hvert fyrirtæki um sig geti ákveðið að innstæða þess sé ávöxtuð á sérstökum reikningi í banka eða öðrum lánastofnunum að eigin vali. Að öðru leyti er gildandi lögum lítið breytt með þessu frv. En þó að innheimtukerfi sjóðsins verði með sama hætti og verið hefur, þó það sé ekki brtt. um það, þá geri ég ráð fyrir því að það þurfi að endurskoða framkvæmd þeirra laga verulega frá því sem nú er.

Verðjöfnun í sjávarútvegi á sér alllanga sögu. En það var ekki fyrr en á árinu 1967 eftir að verðfall varð mjög mikið á íslenskum útflutningsmörkuðum samfara samdrætti í afla að þá var sem oft áður horfið að því af hálfu ríkisstjórnar að ábyrgjast lágmarksverð á ákveðnum afurðum. En ríkissjóður lagði þá fram í þessu skyni á árinu 1976 140 millj. kr. og þá var tekin ákvörðun um að stofna Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins og svo var gert með lögum sem hann hefur starfað eftir síðan með tiltölulega litlum breytingum og eru nr. 72/1969. Í þeim lögum er hlutverk sjóðsins skilgreint með almennum orðum "... það er að draga úr áhrifum verðsveiflna sem kunna að verða á útflutningsafurðum fiskiðnaðarins“. Og eins og ég sagði áðan þá hafa þessi aðalatriði staðið svo að segja óbreytt síðan.

Í þessu frv. eru ákvæði til bráðabirgða sem gera ráð fyrir því að skipta skuli eignum Verðjöfnunarsjóðs, sem fyrir hendi eru við gildistöku þessara laga, milli framleiðenda fiskafurða sem greitt hafa í sjóðinn frá 1. jan. 1985 í þeim hlutföllum sem framreiknaðar greiðslur hvers og eins hafa numið af heildargreiðslum á þessu tímabili. Skal þannig fundin inneign hvers framleiðanda lögð inn á sérreikning hans hjá Verðjöfnunarsjóði sem stofnaður verður samkvæmt þessum lögum.

Nú þegar tiltekinn framleiðandi hefur greitt í sjóðinn vegna fleiri en einnar fiskafurðar þá skal skipta inneign hans samkvæmt framangreindu á sérreikninga hans fyrir viðkomandi fiskafurðir í sömu hlutföllum og nemur hlutfallslegri innbyrðis skiptingu greiðslna til Verðjöfnunarsjóðs á umræddu tímabili vegna viðkomandi afurða.

Enn fremur segir í frv.:

„Nú framleiðir einhver framleiðandi fiskafurða ekki lengur tiltekna fiskafurð og skal þá samkvæmt ósk hans heimilt að láta inneign hans vegna þeirrar fiskafurðar ganga inn á sérreikning hans sem stofnaður er vegna annarrar fiskafurðar.

Sé einhver framleiðandi alfarið hættur rekstri skal hann sækja um endurgreiðslu á innstæðu sinni áður en 12 mánuðir eru liðnir frá gildistöku laga þessara.

Innstæður, sem myndast hafa vegna frystingar á endurgreiddum uppsöfnuðum söluskatti, skulu greiddar út eftir sömu reglum og uppsafnaður söluskattur hefur verið endurgreiddur.

Sé af einhverjum ástæðum ekki unnt að rekja innstæðu í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins til tiltekins greiðanda í sjóðinn eða hafi innstæðu ekki verið vitjað af framleiðanda sem hættur er rekstri skulu þeir fjármunir renna til framfaramála í sjávarútvegi samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.“

Nú hefði mátt segja að það hefði jafnvel verið eðlilegt að flytja breytingu á öllum lögunum um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins en við flm. töldum þennan kost vera vænlegastan, að taka hér upp þau ákvæði sem mest hafa verið rædd.

En áður en lengra er haldið vil ég geta þess að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins sendi mér bréf í dag þar sem þeir segja að þau mistök hafi átt sér stað þegar áramótastaða Verðjöfnunarsjóðs var sett upp að staðan í saltfiskdeildinni er raunverulega um 77 millj. kr. hærri en í þeim gögnum sem ég hafði með höndum þegar þetta frv. fór í prentun. Ég tel því nauðsynlegt að þessi leiðrétting verði gerð hvað þetta snertir því að eðlilega verðum við að hafa það alls staðar sem sannara reynist.

Tildrögin að þessari endurskoðun hafa staðið lengi frá hendi okkar flm. Við höfum haft samband við fjölmarga aðila og rætt við þá oft og mörgum sinnum. Fyrsta uppkast að frv. um breytingar á Verðjöfnunarsjóði lá fyrir okkur 29. nóv. og við höfum haldið marga, marga fundi með fjölmörgum aðilum sem láta sig málið varða og frv. er í þeirri mynd sem það kemur nú fyrir þessa hv. deild og við, þessi hópur, höfum komist að niðurstöðu um.

Í fsp. sem lögð var hér fram á Alþingi af varaþm. Alþb. fyrir nokkru var spurt hvort ríkisstjórnin hygðist beita sér fyrir endurskoðun á lögum um starfsemi sjóðsins á næstunni. Hæstv. sjútvrh. svaraði því á þann veg að 27. jan. hefði sjútvrh. skipað nefnd til að endurskoða gildandi lög og reglur um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Hlutverk nefndarinnar er að meta hvort verðjöfnun sé raunhæf leið til að draga úr sveiflum í afkomu sjávarútvegs miðað við núverandi verðmyndun á fiski og skipulag á sölumálum sjávarafurða og með hvaða hætti slíkri verðjöfnun verði komið fyrir með sem virkustum og hagfelldustum hætti. Síðan er sagt frá því að í þessa nefnd hafi verið skipaðir þrír menn, Bolli Bollason, efnahagssérfræðingur í fjmrn., Ólafur Ísleifsson, efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, og Árni Kolbeinsson, ráðuneytisstjóri í sjútvrn., og starfsmaður í því sama ráðuneyti, Kristján Skarphéðinsson, hefur veitt þeirri nefnd forstöðu. Nefndinni er í skipunarbréfi falið að leita í störfum sínum samráðs við samtök helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi og nefndin hafði, þegar þetta svar lá hér fyrir Alþingi, haldið fjóra fundi og átt viðræður við samtök margra hagsmunaaðila í sjávarútvegi, en á þessu stigi segist hæstv. sjútvrh. ekkert geta fullyrt hvenær vænta má tillagna nefndarinnar en telur þó ekki ólíklegt að það verði í aprílmánuði nk.

Ég verð að segja það alveg eins og er að ég hef ekki mikla trú á því að það væri búið að skipa þessa nefnd sem skipuð var 27. jan., ef við, þessir menn, hefðum ekki unnið að þessu máli allt frá því snemma í haust. Þegar vitað var að lá fyrir frv. var loksins farið að skipa menn í nefndina.

Ég sé ekki að það sé neitt því til fyrirstöðu að þm. almennt geti unnið að sínum áhugamálum og lagt fram frv. um breytingu á gildandi lögum. Ég vil vitna í sjóðanefndina sem skilaði af sér verkefni á sl. ári. Þar segir um starf sjóðanefndarinnar sem var ef ég man rétt undir forystu hæstv. núv. viðskrh.:

„Nefndin kannaði í vor og sumar viðhorf helstu samtaka í sjávarútvegi til Verðjöfnunarsjóðsins. Þessi könnun leiddi í ljós að samtök fiskvinnslunnar eru á þeirri skoðun að leggja beri sjóðinn niður, en samtök sjómanna og útvegsmanna telja aftur á móti að hann eigi að starfa áfram. Að þessu athuguðu og á grundvelli þeirrar könnunar sem nefndin hefur sjálf gert á starfsemi sjóðsins telja nefndarmenn, aðrir en Árni Benediktsson og Knútur Óskarsson, ekki ástæðu til að breyta gildandi lögum um sjóðinn. Knútur telur að leggja beri sjóðinn niður eins og samtök fiskiðnaðarins leggja til, en Árni telur að gera þurfi ýmsar breytingar á lögum og reglum um starfsemina eða leggja hann niður að öðrum kosti. Þessir tveir síðastnefndu gerðu sérstaka grein fyrir afstöðu sinni í bókunum sem fylgdu með í nál.

Meiri hluti nefndarinnar telur að sjóðurinn hafi yfirleitt þjónað því hlutverki sem honum er ætlað að gegna og hann geti einnig framvegis gert gagn með því að draga úr sveiflum í afkomu sjávarútvegsins. Ekki megi þó ætla honum of stóran hlut í þessu efni því einnig þurfti að treysta á aðrar leiðir til þess að bregðast við slíkum sveiflum. Þá bendir meiri hluti nefndarinnar á að það geti verið heppilegt við ríkjandi skilyrði í gengismálum að samræma gengisviðmiðun við ákvörðun viðmiðunarverðs þannig að í öllum deildum sjóðsins verði miðað við SDR-gengi fremur en gjaldmiðil markaðslands. Ætla má að með þessu móti verði að nokkru tekið almennt tillit til mismunandi afkomu greina sem ýmist selja afurðir sínar á Evrópu- eða Bandaríkjamarkaði. Þetta telur nefndin hins vegar vera framkvæmdaratriði sem stjórn sjóðsins eigi að fjalla um á hverjum tíma.

Nefndarmenn urðu ekki sammála um það hvort þess skuli freistað að láta verðjöfnun ná til ísfisks sem settur er óunninn á markað erlendis. Fulltrúar útvegsmanna og sjómanna lögðust eindregið gegn því að verðjöfnun tæki til ísfisks og töldu reyndar ekki unnt að koma henni við með skynsamlegu móti. Fulltrúar fiskvinnslunnar vildu, ef á annað borð væri um verðjöfnun að ræða, að reynt yrði að finna leiðir til þess að láta ísfisk sæta sömu verðjöfnun og freðfiskur og saltfiskur á hverjum tíma.“

Þetta er í höfuðatriðum það sem þessi nefnd hafði að segja um Verðjöfnunarsjóðinn. Hins vegar tók nefndin afstöðu til fjölmargra eða þó nokkuð margra annarra greina í sjóðakerfi sjávarútvegsins og voru um það flutt frv. á síðasta ári.

Ég ætla ekki að gera þau frv. að umræðuefni hér, en ég tel að mikilvægt sé að þingnefnd sem fær þetta mál til meðferðar, sem verður örugglega sjútvn., leiti álits allra þessara aðila að nýju varðandi Verðjöfnunarsjóðinn. Deilur hafa verið uppi frá fyrstu tíð, annars vegar menn sem vilja leggja sjóðinn niður, hins vegar þeir aðrir sem vilja ekki standa að því að leggja sameiginlega í heila grein, heldur eigi, eins og við köllum, að eyrnamerkja þessa fjármuni.

Ég hnýt um það sem kemur fram í grg. frv., að það hljóti að vera mismunandi aðferðir við innheimtu á fjármagni til deilda. Og ef við berum saman, t.d. rækjudeildina, þá er hún upp á 390 millj. en eignastaðan er 450 millj. þannig að þar vantar fi0 millj. á að komið sé inn í deildina. En ef við förum aftur í óverkaða saltfiskinn, þá er ég með óleiðréttu töluna, er eignastaðan þar 610 millj. en ekki nema tæpar 180 millj. komnar inn. Sama er að segja um frystideildina. Eignastaðan er 150 millj., en það eru ekki nema rúmlega 81/2 millj. kr. komnar inn. Þetta gefur manni tilefni til að ætla að það sitji ekki allar greinar við sama borð. Nú ætla ég ekkert að óreyndu að fullyrða um þetta fyrr en um það verður fjallað í þeirri nefnd sem fær þetta mál til meðferðar. Ég legg á það áherslu að nefndin reyni að setja þetta sem víðast í umsögn, taki tillit til allra ábendinga sem fram koma í þessum efnum og vandi mjög til afgreiðslu á þessu máli sem er orðið mjög aðkallandi.

Eins og fram kemur og áður hefur komið fram segir að meginstarfsregla sjóðsins sé að innheimta afgjöld af útflutningsframleiðslu sjávarafurða þegar markaðsverðlag er talið hátt en bæta upp verð afurðanna þegar verðið er talið lágt. Við framkvæmd þessarar meginreglu skal einkum tekið mið af markaðsverðlagi afurða á undanförnum þremur árum og afkomu viðkomandi framleiðslugreina. Þar hefur mér oft þótt á skorta að stjórnin hafi tekið til greina afkomu viðkomandi framleiðslugreinar vegna þess að sumir menn þar á bæ hafa gjarnan viljað nota sér ekki nógu glöggt orðalag laganna, en mér þótti vænt um það á sínum tíma þegar ég sá að endurskoðunarnefnd sjóðakerfisins tók það alveg ótvírætt inn í sitt nál.

Það eru svo sérstaklega tvær deildir sem eiga fjármuni inni í Verðjöfnunarsjóði. Önnur þessi deild er rækjuveiðarnar og sem dæmi um örar breytingar sem orðið hafa í sjávarútvegi undanfarin ár má nefna þessar veiðar og vinnslu rækjunnar. Þegar sjóðurinn var stofnaður voru rækjuveiðar stundaðar innfjarða, t.d. við Ísafjarðardjúp og í Arnarfirði og þar eru elstu rækjuverksmiðjurnar. Sem kunnugt er eru nú hafnar úthafsrækjuveiðar og þetta er orðin umfangsmikil atvinnugrein sem framleiddi á sl. ári fyrir um 4000 millj. kr. Rækjuframleiðendum hefur fjölgað ört. Nýir aðilar hafa fengið rækjuvinnsluleyfi árlega. Þessum aðilum hefur raunar fjölgað svo ört að nú munu vera um 80 rækjupillunarvélar í landinu. Í þeim verða væntanlega skelflett um 30–35 þús. tonn af rækju á þessu ári, en þá ber auðvitað að hafa í huga að það er reiknað með 36 þús. tonna úthafsrækjukvóta sem verður, eitthvað af því, selt frosið og ópillað úr landi, en innfjarðarækjan getur e.t.v. orðið 3–4 þús. tonn. Til samanburðar má geta þess að Norðmenn vinna nú árlega um 90 þús. tonn af rækju í 155 pillunarvélum og keppa við okkur Íslendinga á sömu mörkuðum. Engin rök sýnast fyrir því að nýir framleiðendur fái sömu réttindi og hinir eldri til greiðslu úr Verðjöfnunarsjóði við slík skilyrði og þannig sé hvatt til þess að samkeppnisaðstaða, t.d. við Norðmenn, versni. En að því er varðar nýtingu afkastagetunnar verður að hafa í huga að þeir framleiðendur sem eru elstir og framleiða mest hafa greitt hundruð milljóna í sjóðinn. Þessu verður að breyta og koma á séreignarfyrirkomulagi eins og lagt er til í þessu frv.

Það kom mér mjög á óvart að sjá í dagblaðinu Tímanum í morgun að hæstv. sjútvrh. kvartar undan því að það séu undarleg vinnubrögð af hálfu samstarfsflokks að þm. þess flokks skuli leyfa sér að flytja mál á Alþingi Íslendinga og hann virðist vera, eftir því sem þar segir, fokreiður, blessaður ráðherrann. Ég hefði talið skemmtilegra fyrir hæstv. ráðherra að vera við þessa umræðu og hafa sparað sér samtalið við Tímann í gærkvöldi.

Ég verð að segja það að ég var í tveimur ríkisstjórnum í samstarfi við Framsfl. og ég minnist þess ekki að ég hafi hlaupið upp á nef mér þó að framsóknarmenn hafi flutt frumvörp um mál innan þeirra málaflokka sem undir mig heyrðu í þeim ríkisstjórnum. Og ég sé það að meira að segja framsóknarmenn flytja hér mál í sjávarútvegi, ekki eitt heldur tvö í vetur. En kannski ætlast ráðherrann til þess að það gildi annað um þm. Sjálfstfl., að þeir séu það múlbundnir. Ef þetta er orðið þannig vil ég ekki vera með í þessu samkrulli. Ég vil alveg hafa mínar skoðanir og mín ráð. Ég er kosinn á þing af fólki sem vinnur hörðum höndum og er sérstaklega þó í þessari atvinnugrein, sjávarútvegi. Þetta fólk hefur hvatt mig mjög til þess að vinna að þessu máli og ég hef gert það í fleiri mánuði. Ég neita því algjörlega að meira að segja sjálfur hæstv. sjútvrh., herra Halldór Ásgrímsson, geti sagt við mig: Þú bara flytur ekki eitt einasta mál sem er á sviði sjávarútvegs því að það er mitt og einskis manns annars. Þá er illa komið fyrir löggjafanum. En látum þetta allt vera.

Hins vegar finnst mér afar leiðinlegt að þegar sami ráðherra, sem var samstarfsmaður minn í fyrri ríkisstjórn, segir og Tíminn birtir það innan tilvitnunarmerkja: „Ég tel það mjög undarleg vinnubrögð af hálfu samstarfsflokks að standa að svona málum. Matthías Bjarnason barðist gegn því af mikilli hörku að sjóðakerfi sjávarútvegsins yrði breytt á sínum tíma og reyndi að koma í veg fyrir að af því gæti orðið. Vinnubrögð af þessu tagi eru ekki til þess fallin að greiða fyrir lausn mála þó að vissulega sé hverjum og einum þm. í sjálfsvald sett að meta hvernig þeir geti best komið áhugamálum sínum til leiðar.“

Ég vil vísa þessum ummælum til föðurhúsanna. Ég hef ekki greitt atkvæði á móti breytingum á sjóðakerfi sjávarútvegsins. Ég sem sjútvrh. á árinu 1976 flutti róttækustu breytinguna á sjóðakerfinu sem nokkru sinni hefur verið flutt. Þá var dregið verulega úr sjóðakerfinu, upp á fleiri milljarða, og fyrir þessu beitti ég mér. Þegar síðasta endurskoðun átti sér stað og kom fram hafði ég tilteknar athugasemdir fram að færa varðandi það að fella niður Úreldingarsjóðinn fyrst og fremst, varðandi það að fella niður Aflatryggingasjóð eða bætur vegna aflatjóns. Ég var innilega sammála nefndinni um það að fella niður bæði áhafnadeildina og hinar deildir sjóðsins sem og tryggingakerfið og fleira. Þetta lét ég koma fram bæði í ríkisstjórn og eins hér á hv. Alþingi. Ég greiddi atkvæði með og studdi frv., flutti eina stutta ræðu þar sem þetta kom fram. Ég bara skil ekki í hæstv. sjútvrh. að láta skapið hlaupa svona með sig í gönur og koma með svona fullyrðingar í víðlesnu blaði.

Ég hafði ætlað mér að flytja töluvert lengra mál. Ég vil hins vegar ekki verða til þess að tefja fyrir þessu máli því að það er nóg og mikil vinna eftir í nefnd og það þarf að leita samstarfs við marga aðila og það eru vafalaust mjög skiptar skoðanir um þetta atriði sem önnur. Mín skoðun er sú að það eigi alls ekki að leggja Verðjöfnunarsjóðinn niður. Þó að þær raddir gerist æ háværari held ég að það komi hinum einstöku greinum í sjávarútvegi illa þegar búið er að leggja hann niður. Hann verður ekki stofnaður á ný eftir að hann er lagður niður og þá munu koma margir úrtölumenn fram. En ég tel eðlilegt og sjálfsagt að gera þær grundvallarbreytingar sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Það er hvergi tekið á ferskfiskútflutningi í frv. Um það má deila í það óendanlega. Ég er tilbúinn til þess að hlusta á rök með og á móti þessu máli einstökum tilfellum, hvort sem þau koma frá ráðherra, ráðuneyti, greinum sjávarútvegsins eða öðrum og gera breytingar á frv. sem fyrir liggur. Aðalatriðið er það að breyting verði gerð vegna þess að breyting er nauðsynleg.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.