14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6467 í B-deild Alþingistíðinda. (4457)

20. mál, kaup og sala fasteigna á vegum ríkisins

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna því svari sem hefur komið fram við fsp. um fasteignir ríkisins. Ég kom að fjmrn. sem fjmrh. á eftir alþýðubandalagsmanninum Ragnari Arnalds og mér varð ljóst fljótlega eftir að ég tók við embætti að ég átti í erfiðleikum með að fá upplýsingar um eignir ríkisins vegna þess að þær höfðu ekki verið skráðar eins og um var talað í framsögu fyrirspyrjanda og upplýsingar lágu ekki fyrir. Þetta, eins og hún réttilega sagði, var í mesta ólestri.

Ég gerði ráðstafanir til þess að fasteignir ríkisins yrðu skráðar, þær yrðu þinglesnar og yfirleitt allar upplýsingar sem eiga að liggja fyrir hjá eignaraðilum væru til á skrá hjá eignadeild fjmrn. Ég verð að taka undir það sem hæstv. fjmrh. sagði: Þetta er gríðarlega mikið starf, en sú vinna hefur hafist og samkvæmt þeim upplýsingum sem hæstv. ráðherra gaf úr ræðustól hér áðan mun það taka um 11/2 ár til viðbótar að ganga frá þessum skrásetningum þannig að viðunandi sé.

Hitt er svo annað sem ég var ákaflega óánægður með í sambandi við verkaskipti á vegum fjmrn., hvert ráðuneyti taldi sig hafa umráð yfir þeim eignum sem það fór með þannig að eignadeild fjmrn., sem var í höndum ríkislögmanns, var ekki starfhæf á þann hátt sem ég gerði ráð fyrir sem ráðherra sá sem eignadeildin heyrði undir. Þetta er eitt af því sem þarf að breyta því breytinga er þörf, en alla vega að sé alveg á hreinu í verkaskiptingu þegar ríkisstjórnir eru myndaðar að eignadeild fjmrn. fer með allar eignir ríkisins. Hún er ábyrg fyrir að skrásetja þær, hún er ábyrg fyrir að kaupa þær og selja í samráði við viðkomandi fagráðherra. Það getur aldrei verið að eignadeildin eða fjmrn. geti selt eignir án samráðs við viðkomandi fagráðherra. En það þarf að staðsetja þetta betur í kerfinu og að það fari ekkert á milli mála að eignadeildin heyri undir einhvern ákveðinn einn ráðherra og er ég þá ekki að segja að það sé endilega rétt að hafa þetta undir fjmrh. Það getur alveg eins verið réttara að það heyri undir forsrh. því að forsrh. er sá aðili sem ráðstafar öllum eignum ríkisins til afnota. Það er hann sem skammtar ráðuneytunum pláss eða hefur ráðstöfunarrétt á eignunum.

Ég fagna því að starf eignadeildar er enn þá í gangi og ég held að það hafi verið settur nýr maður þar, Björn Hafsteinsson ef ég man rétt, í að skrásetja eignirnar fyrir eignadeildina. Alla vega var hann við það starf. Það er þá einhver annar kominn í hans starf, en þetta starf er vonandi í gangi eins og hæstv. ráðherra gat um.

Það var sérstaklega spurt um kaup á einni eign, Kotmúla. (Gripið fram í.) Það er margur Votmúlinn, það er rétt. Mig minnir það hafi verið makaskipti á eign hér í Reykjavík við Fíladelfíusöfnuðinn, Hvítasunnusöfnuðinn. Það stóð þannig á því að það var skóli rekinn í Breiðholtinu sem hét Skóli Ásu Jónsdóttur og átti að hafa byggst upp með fjármagni frá Reykjavíkurborg að hálfu og ríkisvaldinu að hálfu. Reykjavíkurborg hafði aldrei lagt neitt fram af peningum, en var þó skráður að hálfu eigandi vegna þess að það var samkomulag sem var gert áður en skólinn fór í byggingu. En ríkið hafði fjármagnað hann og átti svo kröfuna á Reykjavíkurborg. Þannig stóðu málin þegar barnaheimili Hvítasunnusafnaðarins fyrir austan vildi flytja sína starfsemi í bæinn. Söluverð það sem var ákveðið var ákveðið af ráðuneytismönnum, af þar til gerðum matsmönnum eins og venja er. Ég man nú ekki í augnablikinu án þess að biðja fjmrh. að rifja það upp fyrir mig hver ástæða var til þess að það var talið hagkvæmt fyrir ríkið að kaupa Kotmúla. En mig minnir þó, og ég skal ekki alveg sverja fyrir það sem ég get ekki munað, að ríkið hafi átt þarna einhverja eign við hliðina eða nálægt og það var talið réttara að ríkið eignaðist þann hluta sem Hvítasunnusöfnuðurinn átti nálægt eigninni til þess að ríkið ætti stærri hluta í staðnum. Það er eins og mig minni að þetta hafi verið rökin. Þeir sem eru matsmenn og skoða þessa hluti fyrir ráðuneytið töldu að þarna gæti verið um hagkvæm skipti að ræða. Alla vega réð það miklu um makaskiptin að það var annar kaupandi að húsinu sem hýsti skóla Ásu Jónsdóttur, sem ég taldi og borgaryfirvöld töldu líka reka þess konar starfsemi að ekki væri rétt að stuðla að því að hún gæti komist inn í skóla Ásu Jónsdóttur og talið betra fyrir hverfið að kristileg starfsemi færi þar fram á vegum Hvítasunnusafnaðarins en sú starfsemi sem um var að ræða, bæði fyrir borgarsamfélagið og þjóðfélagið í heild.

Ég vona að ég hafi svarað þessari spurningu. En ég fagna þessari skýrslu sem fram er komin. Hún er ekki fullkomin, enda getur hún ekki verið það fyrr en búið er að ganga endanlega frá öllum skrásetningum fasteigna, en þegar þar að kemur, þ.e. eftir 11/2–2 ár, á að vera hægt að fá samkvæmt upplýsingum hæstv. ráðherra fullkomna skýrslu um eignir ríkisins.