26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6822 í B-deild Alþingistíðinda. (4748)

202. mál, Háskólinn á Akureyri

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 18. þm. Reykv. skrifar undir frv. með fyrirvara og lýsir því yfir úr ræðustól að um hrákasmíði sé að ræða. Ég verð að segja eins og er að ég kann því illa ef þingmenn telja eðlilegt undir slíkum kringumstæðum að skrifa undir frv. Ef þau eru að þeirra mati hrákasmíð hlýtur að vera eðlilegt að þingmaðurinn velji á milli þeirra kosta að greiða atkvæði gegn frv. eða koma með brtt. við frv. Hér á Alþingi þýðir ekki að kvarta undan stefnuleysi í lögum hjá þeim sem hafa það hlutverk að setja lögin því á þeim hlýtur að hvíla sú skylda að leggja til þá stefnu er þeir telja réttasta.

Auðvitað er öllum ljóst, sem þetta frv. lesa, sem hér verða greidd atkvæði um fljótlega, að menn ætla sér í áföngum að ná þeim markmiðum að þessi skóli starfi á hliðstæðum grundvelli og Háskóli Íslands. En ég hygg að hv. 4. þm. Norðurl. e. hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann minnti á að undirtónninn í þeirri umræðu, sem fór fram hjá 18. þm. Reykv., minnti óneitanlega á átökin um það er tekist var á um hvort rétt væri að settur yrði á fót menntaskóli á Akureyri. Á Norðlendingum hef ég mikið traust í skólamálum og hygg að þeir geti hrósað því happi fram yfir flesta landshluta aðra að allur almenningur stendur á bak við þeirra skóla og ver þá. Og það er vel. Þess vegna er ég sannfærður um að það er góð ákvörðun að samþykkja háskóla á Akureyri. Þetta frv. er engin hrákasmíð og ég er sannfærður um að sá skóli á eftir að vaxa að virðingu ekki síður en Menntaskólinn á Akureyri gerði á sínum tíma. Og sú ákvörðun sem verður tekin verður ekki umdeild þegar árin líða.