04.05.1988
Efri deild: 87. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7293 í B-deild Alþingistíðinda. (5323)

228. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. frsm. landbn. að það er vissulega ástæða til að ræða landbúnaðarmál og það hef ég reynt að gera þar sem ég hef fengið tækifæri til og útskýra stöðu þeirra.

Hv. frsm. vitnaði í orð mín við 1. umr. að ég hefði talið að hér væri um sanngirnismál að ræða.Ég held að það hljótum við að vera öll sammála um að ef einhver afhendir vöru er það sanngjarnt að hann fái hana greidda svo fljótt sem kostur er. Hins vegar benti ég í máli mínu við 1. umr. á að þarna þyrfti að tryggja að þetta yrði framkvæmt og þá hliðina þyrfti að skoða.

Það hefur komið í ljós, sem kannski var ekki undarlegt þegar búvörulögin gengu í gildi og þær breytingar sem þeim fylgdu, að það tæki einhvern tíma að ná þar jafnvægi. Sérstaklega hefur það orðið við sauðfjárræktina þar sem miklar birgðir voru í upphafi þegar lögin gengu í gildi. Við þann vanda er enn verið að glíma. En samkvæmt áætlun sem gerð hefur verið og í kjölfar þeirra aðgerða sem framkvæmdar hafa verið er ljóst að það mun takast að sigrast á honum nú alveg á næstu árum þannig að þar á að nást jafnvægi.

En þessi birgðavandi hefur m.a. átt þátt í erfiðleikum á fjármögnun á þessum afurðum þar sem ekki hefur verið búið að selja þær allar frá fyrra ári þegar ný sláturtíð gengur í garð. Þetta og fleira er nauðsynlegt að athuga hvernig unnt sé að tryggja. Einnig hefur komið í ljós að á einstökum svæðum á landinu hafa sláturleyfishafar átt í erfiðleikum með að tryggja sér viðunandi bankaviðskipti og það er vandamál sem er líka mjög alvarlegt fyrir viðkomandi héruð. Ég tek því undir það, sem kemur fram í tillögu hæstv. forsrh., að það þarf að skoða þessi mál betur og tryggja það og ég mun að sjálfsögðu beita mér fyrir því eftir því sem kostur er ef málinu verður vísað til ríkisstjórnarinnar.