11.11.1987
Neðri deild: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (550)

Þingstörf og fjarvera ráðherra og þingmanna

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir það að þetta sé þörf umræða þó að ég sé kannski ekki að öllu leyti á sama máli. Ég held að t.d. hefði verið betra að sum þeirra stjfrv., sem hafa verið lögð fram, hefðu ekki komið strax — eins og þau eru úr garði gerð. En hitt er annað mál að ég held að það verði eitthvað skrýtin vinnubrögð ef mjög mörg frv., sem eiga eftir að koma fram, verður að afgreiða fyrir áramót.

Ég er nú búinn að vera formaður tveggja og þriggja nefnda sl. 16 ár. Það sem eiginlega hafa verið venjuleg vinnubrögð er að þegar frv. kemst til nefndar þá er haldinn fundur eins fljótt og verða má og frv. send til umsagnar. Og það líður venjulega minnst hálfur mánuður frá því að þau eru send til umsagnar þangað til nefndin fer að vinna að þessum frv. að ráði.

Í sjálfu sér þarf að vera búið að leggja stjfrv. fram fyrir 1. nóv., ef vinnubrögð eiga að heita forsvaranleg, til að hægt sé að ætlast til að þau verði afgreidd fyrir áramót. Eftir því sem frv. er fyrirferðarmeira og vandasamara er þetta auðvitað erfiðara og ekki hægt að ætlast til að það sé gert á nokkrum dögum, enda hafa orðið slys. Það hefur þurft t.d. að taka upp lög eftir tvö til þrjú ár vegna þess að ekki hafa verið viðhöfð nógu vönduð vinnubrögð. Þetta vildi ég nú segja um það.

Ég fullyrði að það á ekki vel við sem hæstv. heilbr.- og trmrh. sagði þegar hann fór úr ræðustól að batnandi mönnum væri best að lifa. Ég held að það eigi við um þau vinnubrögð sem hér hafa verið viðhöfð þennan mánuð að lengi getur vont versnað. Ég held að það eigi við alveg fyllilega, ekki einungis um framlagningu þingmála, heldur frágang þeirra, blátt áfram, þannig að ef ætti að reyna að stefna að því að þetta ætti við, batnandi manni er best að lifa, verður áreiðanlega að taka til höndunum.

Mér dettur ekki í hug að spyrja um það nú hvaða frv. þurfi að afgreiða fyrir áramót. Eftir þeim vinnubrögðum sem hafa verið fram að þessu veit það ekki nokkur lifandi maður. Það er alveg sýnilegt. Mér finnst það í raun og veru alveg dæmalaust að nokkrum skuli detta það í hug. (Gripið fram í: Ætli það sé ekki bjórinn?) Ja, það er helst líklega bjórinn. A.m.k. virðist áhuginn vera mestur fyrir honum, bæði í blöðum og jafnvel meðal þm. En við skulum tala um bjórinn undir öðrum lið.

Það er alveg rétt að samkomulagið í ríkisstjórninni er með þeim eindæmum að það er þörf á meira en einum sáttasemjara. Þeir þyrftu að vera þrír. Mér er nær að halda að þessi vinnubrögð og seinagangur á málum séu vitnisburður um að það veiti ekkert af að fá eins og þrjá sáttasemjara. (MB: Það nægir að fá Ólaf Ragnar t.d.) Ja, ég veit það ekki. Það getur vel verið að ef fyrrv. ráðherra Matthías Bjarnason tæki að sér formennsku mundi það vera til bóta í slíkri nefnd. Ég veit líka að hann er sammála mér í því að það þarf að bæta vinnubrögðin.

Ég ætla ekki að hafa þetta öllu meira. En ég held að það taki nokkurn tíma að afgreiða sum þau frv. sem liggja fyrir nú og ef þau eru mjög mörg, sem við vitum náttúrlega um sum þeirra, sem þarf að afgreiða fyrir áramót, verða nokkrar vökunætur í desember hjá hv. þm. ef það á að takast skammlaust.