131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Þjóðmálakönnun í Eyjafirði.

327. mál
[13:38]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi dró athyglina að því að það er fólkið í sjávarbyggðunum sem hefur fyrst og fremst vantrú á framtíð sinni. Það er ekkert nýtt, við vitum að svona er þetta víða um landið. Hvers vegna er þessi vantrú? Hún er vegna stefnu stjórnvalda í sjávarútvegsmálum. Vegna þess að búið er að einkavæða sjávarauðlindina í kringum landið. Vegna þess að það ríkir ekki atvinnufrelsi til að stunda sjó á Íslandi. Hver trúir á framtíð byggðarlags sem er orðið til vegna fiskimiðanna þegar ekki er hægt að hefja þar rekstur, þegar engin nýliðun er í greininni? Menn þurfa ekki að bíða mikið lengur með skilgreininguna á því hvers vegna sjávarbyggðirnar eiga undir högg að sækja.

Mér finnst kominn tími til þess að menn horfist í augu við þetta vandamál og taki á því.