131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[20:41]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er fyrst til að taka að ef gengisvísitalan verður í reynd lægri en gert er ráð fyrir í frumvarpinu þá sparar ríkissjóður sér gengisbundinn kostnað og útgjöld í því sambandi.

En spurning þingmannsins er auðvitað stærri en það. Hann er að spyrja, eins og ég skildi hann, um rekstrargrundvöll útflutningsatvinnuveganna og samkeppnisgreinanna. Það er auðvitað stórmál. Það er nú eitt af því sem við erum að reyna að gera með því að skila ríkissjóði með myndarlegum afgangi og beita ríkisfjármálunum í aðhaldsskyni, að tryggja þennan grundvöll.

Við búum við þannig gengisfyrirkomulag að það geta verið sveiflur í því. Stundum kemur ákveðinn kúfur á það sem hjaðnar, eins og margir hafa nú sagt að sé tilfellið núna, að þessi staða á genginu sé tímabundin. Ég treysti mér nú ekki til að fullyrða meira um það á þessum vettvangi.