131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Umfang skattsvika á Íslandi.

442. mál
[12:19]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að ég hef ekki enn haft tíma til að kynna mér tillögur Verslunarráðsins um 15%-landið Ísland enda hafa þær ekki verið birtar opinberlega svo mér sé kunnugt um. En það má vera að hv. þingmaður hafi þar betri sambönd en ég. Ég geri ráð fyrir því að hugmyndin þar sé sú að samræma fleiri skatta en einn í 15%-hlutfallinu. Má vera að þar sé fjármagnstekjuskattur sem er þó að færa sig í humáttina að tillögum hv. þingmanns um 18% fjármagnstekjuskatt. Það er kannski ekki þá frá sjónarmiði þingmannsins allt alvont í þessu. En ég geri ráð fyrir því að þar sé talað um að tekjuskattur fyrirtækja lækki í 15% og jafnvel tekjuskattur ríkisins á einstaklinga. Þó þekki ég það ekki til hlítar. En ég verð nú að segja að ég hef séð vitlausari tillögur en þetta ef þetta er það sem í þeim stendur og hafa þær vitlausari tillögur ýmsar komið frá vinstri grænum.

Varðandi þjónustutilskipun Evrópusambandsins þá verð ég að viðurkenna að ég er ekki nægilega vel kunnugur því máli. Ég mun kynna mér það í framhaldi af því sem hv. þingmaður beindi hér til mín. Hann er þeirrar skoðunar að þar séu ýmis víti til að varast og við munum sannarlega reyna að gera það ef það mál er þannig vaxið. En ég, eins og ég segi, hef því miður ekki nákvæmar upplýsingar um það til að deila með þingmanninum.