131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga.

479. mál
[12:42]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvær efnisbreytingar á lögunum um þennan lífeyrissjóð.

Í fyrsta lagi er lagt til að stjórn lífeyrissjóðsins verði eftirleiðis gert að ákveða þau viðmiðunarlaun, sem iðgjöld sjóðfélaga eru greidd af, ef sjóðfélagar taka ekki laun samkvæmt samningum eða launaákvörðunum sem miðast við kjarasamninga opinberra starfsmanna, Kjaradóm, kjaranefnd eða kjarasamninga sem sveitarfélög gera á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Viðmiðunarlaunin skulu ákveðin með hliðsjón af launaákvörðunum sem gilda um ríkisstarfsmenn.

Í einhverjum tilvikum hafa launagreiðendur, sem fengið hafa heimild til að greiða iðgjald til sjóðsins fyrir starfsmenn sína, greitt þeim laun sem ekki eru í samræmi við laun í kjarasamningum opinberra starfsmanna. Með þessu hefur skapast ákveðið misræmi milli starfsmanna hjá þessum launagreiðendum og almennra sjóðfélaga. Jafnframt getur með þessu skapast mikið misræmi milli innborgaðra iðgjalda hjá tilteknum sjóðfélaga og þess lífeyrisréttar sem hann ávinnur sér þar sem lífeyrisgreiðslur eru eingöngu miðaðar við síðasta starf viðkomandi. Framangreindri breytingu er ætlað að taka á þessu misræmi.

Í öðru lagi er í frumvarpi þessu lagt til að ákvæðum um skilyrði til aðildar að Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga verði breytt. Þær breytingar eru að hluta til samhljóða breytingum í frumvarpi frá síðasta þingi en þær tillögur náðu náðu hins vegar ekki fram að ganga. Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis af því tilefni kom þó fram að heildstæða skoðun þyrfti að gera á aðildarskilyrðum sjóðsins áður en gerðar yrðu breytingar á þeim. Slík skoðun hefur nú farið fram af hálfu fjármálaráðuneytisins í samvinnu við hagsmunaaðila.

Samkvæmt gildandi lögum skulu allir hjúkrunarfræðingar sem áttu aðild að sjóðnum við árslok 1996 og vinna hjúkrunarstörf í þjónustu ríkis, bæjar- og sveitarfélaga eða annarra opinberra stofnana eða við heilbrigðisstofnanir sem eru viðurkenndar af heilbrigðisstjórninni, eiga rétt til aðildar að sjóðnum. Þá hafa enn fremur aðrir hjúkrunarfræðingar, sem áttu aðild að sjóðnum við árslok 1996, heimild til aðildar á meðan þeir starfa að hjúkrun, svo og þeir hjúkrunarfræðingar er starfa að félagsmálum á vegum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Framangreind ákvæði um aðild að sjóðnum hafa hins vegar ekki þótt nægilega skýr. Þannig hefur komið upp ágreiningur um hvort aðrir en þeir sem starfa á vegum ríkis og sveitarfélaga eigi rétt á aðild að sjóðnum.

Til að taka af öll tvímæli um skilyrði til aðildar að sjóðnum er með frumvarpinu lögð til breyting á 17. gr. laganna. Samkvæmt frumvarpinu skulu hjúkrunarfræðingar, sem starfa við hjúkrun og áttu aðild að sjóðnum við árslok 2004, eiga rétt til aðildar að Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga á meðan þeir gegna störfum hjá ríki eða sveitarfélögum, eða stofnun sem alfarið er í þeirra eigu, enda séu þeir ráðnir með föst mánaðarlaun.

Sama gildir um hjúkrunarfræðinga sem starfa við hjúkrun á heilbrigðisstofnun sem viðurkennd er af heilbrigðisyfirvöldum og rekin er sem sjálfseignarstofnun eða alfarið á vegum styrktar- eða líknarfélaga. Hér er ekki um efnisbreytingu að ræða.

Í 2. mgr. greinarinnar er lagt til að aðrir launagreiðendur en um er getið í 1. mgr. og sem fengið höfðu heimild til að greiða fyrir starfsmenn sína í árslok 2004, hafi heimild til að greiða áfram fyrir þá starfsmenn sína sem þeir greiddu fyrir í árslok 2004 og einnig nýja hjúkrunarfræðinga sem greiddu í sjóðinn í árslok 2004 að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um aldur og ávinnslutíma. Nýir hjúkrunarfræðingar þurfa því að vera fæddir á árinu 1950 eða fyrr og hafa greitt a.m.k. samtals 21 ár.

Þá er í 3. mgr. greinarinnar lagt til að stjórn sjóðsins geti samþykkt aðild að sjóðnum fyrir þá hjúkrunarfræðinga, sem aðild áttu að sjóðnum í árslok 2004 og fæddir eru á árinu 1950 eða fyrr og höfðu greitt a.m.k. samtals 21 ár í sjóðinn miðað við árslok 2004, enda starfi þeir hjá heilbrigðisstofnun sem viðurkennd er af heilbrigðisstjórninni.

Með vísan til framangreinds er með frumvarpi þessu lagt til að eftirleiðis verði sjóðurinn aðeins opinn hjúkrunarfræðingum sem starfa á vegum opinberra stofnana, þ.e. hjá stofnunum sem eru alfarið í eigu ríkis eða sveitarfélaga, með örfáum undantekningum. Áfram gilda þau skilyrði að viðkomandi sjóðfélagi starfi við hjúkrun, hafi greitt iðgjald til sjóðsins við árslok 2004 og sé ráðinn með föst mánaðarlaun.

Ég legg til, virðulegi forseti, að frumvarpi þessu verði að umræðunni lokinni vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.