132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[18:59]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi um form þessarar umræðu þá get ég að mörgu leyti tekið undir að ástæða væri til að taka það upp og ræða hvort henni mætti jafnvel að einhverju leyti breyta. Fljótt á litið fyndist mér koma til greina að tvískipta umræðu um þessi mál. Annars vegar færi þá fram umræða um utanríkismál almennt, þróunaraðstoð og slíka hluti, stefnumarkandi og pólitískar áherslur á því sviði, og hins vegar afmörkuð umræða um öryggismál og þar með talið það sem menn kalla hér varnarmál.

Hvað stöðuna í Afganistan varðar og það að Norðmenn séu aðeins að draga sig út úr suðurhluta landsins en ekki norðurhlutanum og ætli jafnvel að auka viðbúnað sinn þar þá hef ég nú ekki verið mikið í símanum að ræða við norska varnarmálaráðherrann en ég hef rætt við eina tvo ráðherra í nýju norsku ríkisstjórninni og ég hef lesið stjórnarsáttmála hennar. Ég man ekki betur en þar sé því slegið upp að Norðmenn hyggi á heimkvaðningu hermanna sinna frá Afganistan. Hvenær það nákvæmlega verður í tíma skal ég ekki segja um en svona hélt ég nú að þetta lægi.

Ég fagna því að hæstv. utanríkisráðherra er raunsær á mat á aðstæðum í Afganistan og viðurkennir hér að áhættumatið, eins og hæstv. ráðherra orðar það, hafi breyst, með öðrum orðum, á mannamáli sagt: Ástandið er nú ótryggara en áður var talið á þeim svæðum sem til stóð að senda eða búið er að senda íslenska borgara á til starfa, teymin margnefndu á stóru jeppunum. Þá er að sjálfsögðu rétt að kalla þá af þeim svæðum og þangað hefðu þeir auðvitað aldrei átt að fara. Mér finnst það sýna í hnotskurn fáránleika þess að Íslendingar séu að senda borgara til starfa á ótryggum svæðum, blanda þeim innan um heri erlendra ríkja og hafandi mjög takmarkaða aðstöðu eða þekkingu til þess að meta aðstæður og í hvaða hættu er verið að stofna lífi og limum þeirra ríkisborgara. Er þetta nú ekki eitthvað til þess að læra af, frú forseti?