132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Þjóðskrá og almannaskráning.

566. mál
[14:22]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Hér eru til umræðu tvö frumvörp hæstv. forsætisráðherra sem lúta að því að flytja verkefni Þjóðskrár og almannaskráningar frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytisins. Eftir samþykkt þessa frumvarps verður Þjóðskráin því orðin að skrifstofu innan dómsmálaráðuneytisins en fjárreiður hennar verða hins vegar aðgreindar frá fjárreiðum ráðuneytisins. Sömuleiðis er gert ráð fyrir að hagnýta tengsl Þjóðskrár og verkefni á sviði dómsmálaráðuneytis með því að fela Þjóðskrá aukin verkefni eins og útgáfu vegabréfa og annarra skilríkja svo og umsjón með ýmsum verkefnum ráðuneytis á sviði löggjafar um mannanöfn.

Samhliða þessu frumvarpi er flutt annað frumvarp um breytingar á ýmsum lögum sem leiða af flutningi þjóðskrárinnar. Þar er verið að breyta m.a. lögum sem vísa beint í Hagstofuna en átt er við þjóðskrána eins og ég skil það.

Í upphafi langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Af hverju var upphaflegum áformum breytt, þar sem vísað er til í greinargerð frumvarpsins um að færa þjóðskrána og fyrirtækjaskrána frá Hagstofunni til ríkisskattstjóra? Það kemur fram að þetta hafi verið upphaflegu áformin og mig langar að athuga hvort hæstv. forsætisráðherra hafi það á takteinum af hverju var horfið frá því fyrirkomulagi sem var ákveðið á sínum tíma, en það er rétt að fram komi að fyrirtækjaskráningin var flutt til ríkisskattstjóra árið 2003.

Mig langar einnig að spyrja hæstv. forsætisráðherra spurninga sem lúta að aðgangi og nýtingu annarra stofnana að þjóðskránni en m.a. kemur fram að þessi flutningur á ekki að koma í veg fyrir að Hagstofan hagnýti þjóðskrána og aðrar opinberar skrár og það er að sjálfsögðu mikilvægt. En munu aðrar opinberar stofnanir fá aukinn aðgang að þjóðskránni? Má þá nefna t.d. lögregluna en einmitt í öðru frumvarpi sem hæstv. dómsmálaráðherra mun flytja hér seinna í dag varðandi lög um vegabréf er talað um aðgang lögreglu að skilríkjaskrá Þjóðskrárinnar. Ég mun að sjálfsögðu spyrja hæstv. dómsmálaráðherra út í það en mig langar einnig til að nota þetta tækifæri og spyrja framsögumann þessa frumvarps, hæstv. forsætisráðherra, hvort í þessum flutningi felist aukinn aðgangur annarra stofnana og ekki síst lögreglu að þeim upplýsingum sem eru í þjóðskrá og hvort hugsanlega standi til að auka eða breyta þeim aðgangi.

Mig langar einnig að vita hvort það sé hugmyndin innan ríkisstjórnar að flytja einmitt hluta þessarar starfsemi út á land en hæstv. forsætisráðherra vísaði þar á hæstv. dómsmálaráðherra þannig að við spyrjum hann að því þegar þar að kemur.

Mig langar að spyrja: Mun þetta frumvarp kalla á einhvers konar breytingu á starfsmannahaldi? Þarna erum við að tala um að flytja þjóðskrána úr einni stofnun í aðra. Hvaða breytingar hefur þetta í för með sér varðandi húsnæðið og verður einhverju fólki sagt upp í kjölfar þessa frumvarps?

Í greinargerðinni koma sömuleiðis fram hugmyndir um að fela Þjóðskránni aukin verkefni. Það er búið að nefna vegabréfaútgáfuna sem við ræðum seinna í dag, en hefur hæstv. forsætisráðherra hugmynd um hvaða verkefni á hugsanlega að færa til Þjóðskrár, hvers konar aukin verkefni munum við fela þessari deild innan dómsmálaráðuneytisins? Hefur einhver ákvörðun verið tekin svo að honum sé kunnugt um það?

Mig langar líka að spyrja: Verða breytingar á gjaldtöku fyrir aðgang að þjóðskránni? Það er aðeins komið inn á þetta í 12. gr. frumvarpsins sem nú er til umræðu. Stendur til að breyta því?

Að lokum langar mig að taka það fram að þegar við ræðum flutning og breytingar á Stjórnarráðinu og hugmyndir ríkisstjórnarinnar varðandi það þá er auðvitað um mikilvægt mál að ræða og mikilvæga þjónustu og mig minnir að settur hafi verið á fót tveggja manna hópur, með tveimur ráðherrum — annar þeirra er reyndar ekki lengur í ríkisstjórn — til að skoða breytingar á Stjórnarráðinu og þess vegna langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvenær er að vænta einhverra frétta af hugmyndum ríkisstjórnarinnar varðandi þessar breytingar? Og að lokum: Hver telur hæstv. forsætisráðherra að sé framtíð Hagstofunnar? Er hann tilbúinn til að segja eitthvað um framtíð hennar, sem eins og staðan er í dag er með sérstakan ráðherra og sérstakt ráðuneyti ef svo mætti segja, og hvort við megum eiga von á því að Hagstofan eins og hún er starfrækt í dag verði lögð niður?