132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:26]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það eru nokkur atriði sem mig langar að fara yfir hér í sambandi við þetta frumvarp þó að það hafi nú þegar verið nokkuð rækilega rætt og þar á meðal af hálfu flokkssystkina minna. Ég hef ekki átt þess kost fyrr að tjá mig um þetta mál og ætla að leyfa mér að nefna nokkur atriði í sambandi við það, flest almenn eðlis og þau sem lúta að stöðu málsins, sögu útvarpsins og því hvernig ég teldi eðlilegast að vinna að málefnum þeirrar stofnunar og þar á meðal því að setja lög eða endurskoða þau lagaákvæði sem um Ríkisútvarpið gilda.

Aðdragandi þessa frumvarps er mjög dapurlegur. Það hlýtur að vera þannig, frú forseti, að það séu heldur vonbrigði en hitt, ef menn eru eðlilega þenkjandi almennt, svona í lýðræðislegum skilningi sagt, að þurfa að standa frammi fyrir harðvítugum deilum og ágreiningi um málefni þessarar mikilvægu menningarstofnunar sem Ríkisútvarpið er. Þó að enginn annar mælikvarði væri lagður á málið en slíkur hlytu það strax að teljast vonbrigði að menn skuli ekki bera gæfu til og ná að reyna að standa sæmilega saman um málefni Ríkisútvarpsins. En auðvitað er ekki á góðu von, því að hæstv. ríkisstjórn hefur hér fylgt því verklagi sem hún hefur iðulega gert, að gefa nánast ekkert fyrir sjónarmið annarra aðila en sín eigin og þá gildir yfirleitt einu hvort um er að ræða sjónarmið sem stjórnarandstaðan sérstaklega ber fram eða fjöldahreyfingar í landinu, almenningur o.s.frv.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með málefni þessarar stofnunar í einn og hálfan áratug. Ég hef orðað það áður hér í hörðum deilum um ýmislegt sem á daga útvarpsins hefur drifið í gegnum misgæfusama stjórn Sjálfstæðisflokksins á þeirri stofnun að Sjálfstæðisflokkurinn hafi nánast lagt Ríkisútvarpið í einelti. Þar hafa t.d. verið uppi þau sjónarmið að reyta helstu skrautfjaðrirnar af stofnuninni. Lengi vel var það alveg sérstakt hugðarefni ungra sjálfstæðismanna að koma Rás 2 fyrir kattarnef því það virtist fara alveg sérstaklega í taugarnar á mönnum þar á bæ að þetta ríkisfyrirtæki, þessi menningarstofnun sem Ríkisútvarpið er, næði jafngóðum árangri í nútímanum gagnvart léttri dagskrárgerð og miðlun efnis af því tagi sem Rás 2 sérstaklega hefur orðið þekkt fyrir. Það má ekki, það passar ekki inn í formúlurnar, það er greinilega mjög óæskilegt að mati hægri manna að allar kenningarnar um hina lamandi og dauðu hönd ríkisrekstrarins skuli afsannast og hrynja, t.d. í því að Ríkisútvarpið hefur náð glæsilegum árangri í því að byggja upp, samhliða sinni hefðbundnu og alvörugefnu dagskrá á Rás 1, glæsilegt afþreyingarútvarp, blandað menningarefni og tónlist, eins og Rás 2 er.

Framsóknarflokkurinn þóttist lengi vel ætla að standa í lappirnar í þessu máli og ályktaði um það hér á árum áður að ekki kæmi til greina að hrófla við Ríkisútvarpinu og breyta því í hlutafélag. Það fór með það eins og fleiri fögur fyrirheit framsóknarmanna að það reyndist heldur endasleppt. Síðan koma menn náttúrlega hér og bera fyrir sig að tímarnir séu svo breyttir. Það er alltaf voðalega auðvelt að útskýra það þannig þegar menn taka kúvendingar í grundvallarmálum að tímarnir séu breyttir og saka þá jafnvel andstæðingana um að þeir hafi ekki áttað sig á því. Það er mjög vinsæl aðferð. Eins og menn hafi bara einkahandhöfn á því að fylgjast með að hlutirnir séu að breytast í veröldinni.

En það er nú ekki held ég þannig að Framsóknarflokknum hafi tekist að sannfæra þjóðina um að hann sé eini nútímalegi flokkurinn á Íslandi og eini flokkurinn sem hefur áttað sig á að tímarnir séu breyttir. (Gripið fram í: Okkur hefur líka tekist …) Enda hefur ekkert breyst í þessum efnum, nákvæmlega ekki neitt. Nákvæmlega ekki neitt sem út af fyrir sig rökstyður það sérstaklega að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi nú, frá því sem átti við fyrir þremur, fimm, átta, tíu árum, að minnsta kosti tólf árum, fjórtán árum. Kannski má segja að ef farið er mikið lengra aftur séu orðnar aðrar aðstæður. En frá því að ný samkeppnislög tóku gildi á Íslandi upp úr 1990, 1992, ef ég man rétt, hefur sáralítið breyst í raun. Við búum í aðalatriðum við sama samkeppnisrammann, menningarhlutverk, almannaútvarpshlutverk Ríkisútvarpsins er nákvæmlega óbreytt.

Það hefur í rauninni eiginlega ekkert breyst síðan 1928 ef út í það er farið, svo maður rifji það nú aðeins upp fyrir Framsóknarflokknum. Það var þannig þegar verið var að stofna til Ríkisútvarpsins og er athyglisvert að kynna sér þá sögu og lærdómsríkt fyrir þá sem ekki hafa haft fyrir því, að þá verður mönnum það ljóst og reynslan reyndar sýndi það að sannarlega við aðrar aðstæður og að því leyti vissulega hvað rekstur snerti og tæknilega möguleika að einkareksturinn mundi ekki ná að uppfylla það hlutverk um menningarútvarp og almannaþjónustuútvarp sem menn vildu. Um það var samstaða. Ekki var deilt um það þegar verið var að stofna til Ríkisútvarpsins að ríkið yrði að koma til sögunnar og taka þá starfsemi að sér. Nei. Það voru kannski skiptar skoðanir um einstök útfærsluatriði en í aðalatriðum ríkti góð samstaða um að stofna Ríkisútvarp. Það hefur varðað meira og minna meiri háttar vegamót í sögu Ríkisútvarpsins að ekki hefur verið deilt um sjálft undirstöðuhlutverk ríkisins að þessu leyti.

Árið 1928 skilaði nefnd niðurstöðum sem þá hafði verið að störfum, reyndar skilaði hún af sér fyrir áramót 1927, og var það síðan á dagskrá Alþingis þegar það kom saman snemma árs 1928. Hverjar voru nú meginniðurstöður þeirrar nefndar um útvarpsreksturinn með hliðsjón af því að hafa skoðað uppbygginguna í nálægum löndum og velt fyrir sér aðstæðum í þessum efnum? Þær voru að það stefndi nú allt í að hafa fáar en orkumiklar stöðvar. Það yrðu sem sagt ekki margar litlar einkareknar stöðvar sem mundu ná árangri. Stöðvarnar yrðu reistar fyrir ríkisfé og símastjórnir mundu annast rekstur þeirra og viðhald fjarskiptanna vegna. Að sjálft víðvarpið, eins og það var kallað þá, útvarpsnafnið kom síðar með lögunum sjálfum, væri oftast í höndum sérstakra félaga með eftirliti eða íhlutan stjórnvalda. Og í fjórða lagi, leggi menn nú eyrun við, víðvarpið er talið menningartæki handa alþýðu manna og eru því settar skorður við því að einstaklingar ábatist af því fjárhagslega.

Hvað hefur nú breyst? Víðvarpið er talið menningartæki handa alþýðu manna og eru því settar skorður við því að einstaklingar ábatist af því fjárhagslega. Menn voru í raun staddir við nákvæmlega sömu landamærin og þeir eru enn í dag hvað þetta varðar. Að skilgreina eðli þessarar starfsemi og finna henni form og búa um hana í samræmi við það. Hvað er þetta? Þetta er í dag alveg nákvæmlega eins og það var 1928, ekki hefðbundinn atvinnurekstur rekinn í gróðaskyni. Hann er það ekki. Í því liggur grundvallarvitleysan með þetta hlutafélagaform, eins og reyndar ritstjóri Fréttablaðsins hefur bent ágætlega á. Og hefur nú mikið farið aftur sjálfstæðismönnum frá því þeir lutu leiðsögn þess manns ofarlega á síðustu öld.

Fyrir svo utan að ekki er hægt að horfa fram hjá því, og það ættu framsóknarmenn að viðurkenna allra manna fyrstir, að sporin hræða mjög í þessum efnum. Menn bera fyrir sig 1. gr., að standi ekki til að selja, sem reyndar má, eins og hv. þm. Atli Gíslason fór yfir, auðveldlega fara á bak við og komast fram hjá með því að halda hlutafénu í eigu ríkisins en reyta fyrirtækið niður og selja út úr því eignir, úthýsa starfsemi o.s.frv. Allt í samræmi við lagabókstafinn. Ekki króna seld af hlutafénu sjálfu. Þannig er hægt að fara að hlutunum og er svo sem þekkt.

En aðallega er það þó staðreynd, frú forseti, sem verður ekki hrakin og er skjalfest í þingsögunni, hægt er að fletta upp á henni í fjölmiðlum, að loforð núverandi stjórnarflokka þegar kemur að því að breyta ríkisfyrirtækjum í hlutafélög um að ekki eigi að einkavæða þau eða selja hafa reynst einskis virði. Þau hafa alltaf reynst einskis virði. Þegar Pósti og síma var breytt í hlutafélag var svarið og sárt við lagt að ekki stæði til að selja fyrirtækið. Þetta væri bara formbreyting, sagði þáverandi hæstv. samgönguráðherra, Halldór Blöndal. Til að leggja áherslu á orð sín vakti hann athygli á þeirri staðreynd að það yrði bara gefið út eitt hlutabréf í fyrirtækinu, þá hlytu allir að sjá að ekki yrði farið að rífa af því eitthvað horn og selja það. Ég man að ég spurði hann hvort hlutabréfið yrði úr stáli til að undirstrika þetta enn frekar.

En hvað gerðist? Áður en við var litið var búið að skipta fyrirtækinu upp og hafinn undirbúningur að því að einkavæða það. Þegar bankarnir voru gerðir að hlutafélögum stóð í greinargerð með stjórnarfrumvarpinu að ríkið mundi ekki selja af hlut sínum fyrstu fjögur árin eftir að lögin yrðu sett. Það var svikið. Það var ekki yfirlýsing í ræðu ráðherra. Þetta var ekki í framsöguræðu ráðherra. Það var ekki „statement“ af því tagi sem fyrrverandi samgönguráðherra flutti um Símann. Nei. Það stóð í greinargerð stjórnarfrumvarpsins, að þetta mundi ekki verða gert, en það var samt svikið. Við þekkjum þessa sögu. Sporin hræða. Það þýðir ekki fyrir hv. þingmenn Framsóknarflokksins annað en að horfast í augu við þá staðreynd að þeir sem tortryggja yfirlýsingar af þessu tagi hafa ástæðu til í ljósi reynslunnar. Þegar menn eru ekki vandaðri að virðingu sinni en þetta, þegar menn selja æru sína ekki dýrara verði en þetta að menn standi ekki einu sinni við skrifleg fyrirheit í greinargerðum með stjórnarfrumvörpum, þá er nú ekki von á góðu.

Við sjáum alveg hvað er í vændum þeim megin frá. Það verður auðvitað hafinn hernaður á Ríkisútvarpið hf. frá fyrsta degi. Ég held að hlutafélagabreytingin sé alveg sérstaklega vitlaus vegna þess að hún býr til vandamál. Hún býr til margs konar vandamál að óþörfu sem er hægt að vera laus við með því að hafa skilgreininguna hreina. Láta formið endurspegla að þetta er ekki atvinnurekstur í samkeppnis- eða einkagróðaskyni, heldur menningarstarfsemi, almannaþjónusta og er byggð upp og rekin sem slík og í þeim tilgangi. Sem ríkisfyrirtæki, sem B-hlutastofnun í eigu ríkisins, er Ríkisútvarpið þar af leiðandi miklu betur statt gagnvart árekstrum við einkareksturinn en ef það væri tekið og fært yfir í fyrirtækjaumhverfið í formi hlutafélags þó ríkið eigi það áfram. Þetta liggur alveg í augum uppi. Ég get nefnt mönnum eitt dæmi sem menn gerðu rétt í að fara aðeins yfir og læra af þegar menn stofnuðu flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. Þá var ég einn manna um að vara við að gera það eins og það var gert, ef ég man rétt um árið 2000.

Hvað gerðu menn? Þá voru menn illa haldnir af hlutafélagssýkinni sem fyrr og þáverandi utanríkisráðherra og núverandi hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, kom með frumvarp um Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. Hvað var í því frumvarpi? Þar var öllu grautað saman, rekstri á starfsemi ríkisins í flugstöðinni Keflavík, verslunarrekstri í samkeppni við aðra verslunarrekendur og utanumhaldi á fasteignum ríkisins. Það var sem sagt allt sett inn í eitt félag og kallað hf. Ég sagði: Þetta mun aldrei ganga. Þetta mun frá fyrsta degi skapa vandræði. Það verða klögumál. Það verða kærumál. Aðrir verslunareigendur munu aldrei una þessu og var engin ástæða til. Hvað gerðu þeir? Þeir kærðu málið eftir öllum mögulegum farvegum og fyrir dómstólum og höfðu sitt auðvitað fram. Ríkið var hrakið til að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi. Af hverju eru menn þá að þessu? Af hverju er menn að búa sér til vandamál af þessu tagi? Af hverju horfast menn ekki í augu við að þetta er óskynsamlegt og svona á ekki að gera þetta?

Þetta er alveg nákvæmlega eins með Ríkisútvarpið. Það á að grauta öllu saman í eitt hlutafélag. Menningarhlutverkinu, menningararfinum sem virðist eiga að færa með inn í hlutafélagið og þeim almannaskyldum sem út af fyrir sig er vonandi ekki umdeilt að Ríkisútvarpið hefur með hendi, eru ekki flokkaðar undir neinn samkeppnisrekstur. Og svo hinu, eins og miðlun afþreyingarefnis, sem auðvitað einkaaðilarnir munu klaga og kæra og kvarta undan að sé rekið með ósanngjörnum hætti í samkeppni við þá í skjóli af ríkistekjunum og hinni lögvernduðu stöðu hlutafélagsins í eigu ríkisins. Þetta liggur alveg í augum uppi. Verið er að bjóða upp í svona dans. Það er ákaflega dapurlegt.

Hver eru svo eiginlega rökin fyrir því að það þurfi að breyta þessu í hlutafélag? Eru það rökin að hlutafélagaformið sé svo vel þekkt? Er það það? Hvað stendur eftir þegar búið er að afhjúpa að þetta er ekki starfsemi sem eðli sinnar vegna á nokkurt erindi inn í þetta fyrirtækjafyrirkomulag sem hlutafélögin eru? Það er ósköp lítið.

Ég vil gera athugasemdir við að ég held að menn séu ekki að leggja hér til góða lausn hvað varðar tekjustofn Ríkisútvarpsins. Ég held að þessi nefskattur sé stórgallaður sem slíkur. Auðvitað vitum við að afnotagjöldin eins og þau eru í dag hafa verið mikið bitbein og á þau hefur verið ráðist. Það eru bæði rök með þeim og á móti. Menn hafa lengi viðurkennt að það gæti verið ástæða til að skoða það. Ýmsar ágætar hugmyndir hafa komið fram um að gera þetta þá öðruvísi, t.d. sú sem er í frumvarpi okkar þingmanna Vinstri grænna, að þetta væri þá sett inn í einhvern breiðan almennan skattstofn eins og álagningarstofn fasteignagjalda og tekið sem lítil prósenta af einhverjum slíkum stórum skattstofni sem ekki væri óeðlilegt eða ósanngjarnt að nota. Þetta er gert í mörgum öðrum tilvikum, að fundin er slík viðmiðun fyrir viðlagasjóðsgjöldum eða einhverju öðru slíku og tekjustofn Ríkisútvarpsins væri að sjálfsögðu ekki óeðlilegur í því sambandi. Auðvitað er að mörgu leyti eðlilegast að þessi ríkisstarfsemi væri einfaldlega greidd úr ríkissjóði, kæmi yfir fjárlög hverju sinni. Ég hygg að flestir vildu það nú helst. Nema af einni ástæðu og hún er sú að menn hafa aldrei treyst því að Ríkisútvarpið fengi þá tekjur sínar án vandræða og barnings ár frá ári. Menn óttast að setja Ríkisútvarpið inn í umhverfi þar sem þarf að slást fyrir fjárveitingum á hverju einasta ári við afgreiðslu fjárlaga og þann óstöðugleika og þá erfiðleika sem því gætu verið samfara, m.a. vegna þess að það hefur alls ekki ríkt nógu vinsamlegt andrúmsloft í garð Ríkisútvarpsins á mjög löngu tímabili.

Núverandi ríkisstjórn hefur t.d. búið mjög illa að Ríkisútvarpinu. Fimmtán ár Sjálfstæðisflokksins yfir Ríkisútvarpinu eru ár sveltis, hörmunga. Dreifikerfið grotnar niður. Ríkisútvarpið hefur aldrei fengið þær tekjur sem því var ætlað til að halda því við og byggja það upp. Framlög til Ríkisútvarpsins hafa rýrnað að raungildi og það hefur mátt standa í mjög erfiðum aðgerðum innan húss bara til halda sjó og það safnar skuldum. Getur varla tekið þátt að sínu leyti í rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar o.s.frv.

Stjórnarfyrirkomulagið sem yfir Ríkisútvarpið yrði dæmt með því að gera það að svona hlutafélagi er alveg fullkomlega óviðeigandi og út í hött í ljósi þeirrar starfsemi sem þar fer fram. Það er að mínu mati alveg fráleitt að fara með þessa mikilvægu almannaþjónustu og menningarstarfsemi inn í hlutafélag og setja þar einhvern einn útvarpsstjóra sem alvald, líka yfir dagskrárgerð. Það er alveg furðuleg hugmynd satt best að segja. Honum er ekki fisjað saman þeim manni sem á að fara með verkefni sín samkvæmt 11. gr. frumvarpsins. „Útvarpsstjóri er framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins hf. og skal uppfylla skilyrði 2. mgr. 9. gr. Hann er jafnframt æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar.“ Þetta heyrir allt undir hann.

Með því að ráða einn mann í krafti stjórnarmeirihlutans sem settur verður inn í fyrirtækið sem hlutafélag, gegnum Alþingi að vísu, fá menn öll völd í hendur einum manni. Er það sú lýðræðislega og breiða aðkoma sem mönnum finnst eðlileg að þessari mikilvægu menningar- og almannaþjónustustofnun? Ég segi nei. Margar þjóðir, og þar á meðal t.d. Evrópusambandið í tilmælum sínum, eru að vísa veginn í alveg gagnstæða átt, segja: Við skulum breikka baklandið á bak við þessar stofnanir og leyfa sem flestum að koma að, koma sínum sjónarmiðum á framfæri, tryggja að svona starfsemi sé rekin í sem allra bestum og mestum tengslum við samfélagið og ólík sjónarmið komi þar að, að listamenn, menningarstofnanir og skólar o.s.frv. geti verið þar þátttakendur.

Hlutverk Ríkisútvarpsins á Íslandi er líka geysilega mikilvægt sem hluta af fjölmiðlasamfélaginu eða fjölmiðlaumhverfinu í landinu. Það dapurlega er að hæstv. ríkisstjórn hefur eiginlega klúðrað öllu sem hægt er að klúðra í þessum málum. Það voru þó bundnar vonir við að hún væri að komast á spor aftur þegar hún var búin að gefast hér upp í fjölmiðlamálinu fræga sumarið 2004 og setti þau mál í þverpólitíska vinnu og betra seint en aldrei, átti kannski ekki góða kosti í stöðunni eftir þær hrakfarir sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafði farið hér í júní- og júlímánuði 2004. En af einhverjum undarlegum ástæðum þrjóskaðist ríkisstjórnin alltaf við, og gerir enn, að leyfa Ríkisútvarpinu að vera með í þeirri heildarskoðun á fjölmiðlaumhverfinu í landinu sem að öðru leyti var verkefni þeirrar nefndar — og er enn að gera og spillir fyrir því að hægt sé að ná utan um málin í heild sinni og standa að einhverjum skynsamlegum og heildstæðum aðgerðum í þessum efnum.

Rök fyrir nauðsyn þess að setja rammalöggjöf um fjölmiðla á Íslandi verða ekki aðskilin frá stöðu og hlutverki Ríkisútvarpsins, það er bara ósköp einfaldlega augljóst mál. Það skiptir gríðarlega miklu máli þegar við förum að velta því fyrir okkur: Hvað er ásættanleg samþjöppun eða nauðsynleg dreifing í fjölmiðlun til þess að hægt sé að binda vonir við að hún sé sæmilega sjálfstæð og komi sem flestum sjónarmiðum til skila, sinni sínu hlutverki nógu vel, veiti það aðhald sem hún á að gera o.s.frv.? Þá skiptir staða Ríkisútvarpsins, almannaútvarps sem hlutlægs, óháðs vonandi, miðils sköpum. Það segja margir að þeim mun betur sem búið sé að öflugu Ríkisútvarpi þeim mun síður sé ástæða til að hafa áhyggjur af því sem gerist á einkamarkaðnum í þessum efnum og öfugt. Þeim mun veikara sem Ríkisútvarpið sé þeim mun lakar sem búið sé að því til að sinna sínum skyldum þeim mun hættulegri sé óhófleg samþjöppun á einkamarkaðnum, og þetta er alveg rétt. Það er því eins og hver annar barnaskapur að reyna að halda því fram og reyna að færa fyrir því einhver rök að þetta eigi ekki að skoðast í samhengi. Hvernig stendur þá á því að ríkisstjórnin býður upp á þverpólitískt starf þegar kemur að því að skoða rammalöggjöf um fjölmiðla en hafnar öllu samstarfi og allri samstöðu um Ríkisútvarpið? Það er undarleg þráhyggja. Þar er sjálfsagt Sjálfstæðisflokkurinn sem slær taktinn eins og venjulega en framsóknarmenn láta sér lynda að lötra með.

Ég hef orðað það svo, frú forseti, að mér finnist að um Ríkisútvarpið eigi að ríkja friðarskylda, þetta sé stofnun eða starfsemi af því tagi að menn eigi að hefja hana upp yfir venjubundnar pólitískar deilur og það sé nánast ekki leyfilegt að vera að knýja fram róttækar breytingar, grundvallarbreytingar, á þessari starfsemi nema menn hafi gert allt sem hægt er a.m.k. að því undangengnu til að ná samstöðu um þær breytingar og helst eigi ekkert að gera nema í sátt um þessi mál, eins og menn hafa gjarnan reynt að hafa þetta með svona mikilvægar grundvallarleikreglur í samfélaginu og ýmis mikilvæg mál. Menn hafa t.d. almennt talið það ákaflega óæskilegt að standa að breytingum á stjórnarskránni eða breytingum á kosningalögum eða öðru slíku öðruvísi en í sæmilegri sátt og menn hafa oft lagt mikið á sig til þess eins og kunnugt er.

Af hverju reyna menn þetta ekki með Ríkisútvarpið? Er mönnum ekkert heilagt? Er ríkisstjórnin ekkert farin að velta því fyrir sér hvar hún er á vegi stödd þegar þetta gengur svona í hverju málinu á fætur öðru að það er sagður sundur friðurinn um sumar helgustu sameignir og mikilvægustu stofnanir þjóðarinnar? Það er dálítið merkilegt ef ríkisstjórnin er ekkert hugsi yfir því og hennar fylgjendur. Eru óbreyttir þingmenn stjórnarliðsins sáttir við að vera í því hlutskipti hér aftur og aftur að greiða fyrir því að svona málum frá ríkisstjórn sé troðið hér í gegn í harðri andstöðu? Það er ekki mjög gæfulegt finnst mér.

Á það hefur verið bent og ég þarf ekki að endurtaka það að réttindi starfsmanna eru hér ekki tryggð eins og skyldi, að það er mikil andstaða við þetta mál. Hún kemur vissulega úr ýmsum áttum, sumpart mismunandi, gagnstæðum, þegar kemur að andstöðu við frumvarpið en ég held að það hljóti nú að vega nokkuð þungt að í samkeppnisumhverfinu er greinilega engin hrifning af þessu frumvarpi, það er gagnrýnt mjög harkalega. Samtök atvinnulífsins og slíkir aðilar telja þetta frumvarp alls ekki ganga. Aðrir færa fyrir því býsna þung rök, eins og ritstjóri Fréttablaðsins, að það sé grundvallarmisskilningur að fara með þessa starfsemi, þessa ríkisstarfsemi sem er með lögverndaðar tekjur og sinnir svona hlutverki sem á ekkert skylt við venjulegan samkeppnisrekstur, inn í hlutafélagaformið. Ég er því algerlega sammála. Það er bara eins og hver önnur vitleysa, það bara stenst ekki þegar betur er að gáð. Öll rökin sem stundum eru flutt fyrir því að hlutafélagsformið sé svo þekkt og gott og það sé svo agandi og geti af sér svo góðan rekstur er eins og hvert annað bull. Auðvitað er það ekki formið sem þarna skiptir máli heldur hvernig á hlutunum er haldið. Þetta er ekki atvinnurekstur af því tagi að samkeppnin agi menn til og knýi fram hagkvæmustu vinnubrögðin eins og menn væru að framleiða kex eða eitthvað svoleiðis í samkeppni við einhverja aðra. Það er bara eins og hvert annað rugl og það sjá það allir menn. Sú menningar- og þjónustustarfsemi sem þarna fer fram er af allt öðrum toga.

Alla þessa hluti þarf því að athuga rækilega og það er út af fyrir sig fagnaðarefni, frú forseti, að það skuli hafa orðið um það samstaða að taka málið til nefndar milli 2. og 3. umr. og skoða þar rækilega þær athugasemdir og ábendingar sem hér hafa verið að koma upp. Þær eru fjölmargar og maður treystir því að það verði gert í alvöru. Maður treystir því að menn vandi sig í svona mikilvægu og stóru máli og skoði vel þær fjölmörgu athugasemdir, þá gagnrýni og þau sjónarmið sem sett hafa verið fram núna á undanförnum dögum, bæði innan þings og utan. Umræðan um þetta mál er að þyngjast úti í þjóðfélaginu, það er loksins að komast á dagskrá þar. Fólk er að átta sig á því hvað er að gerast og ríkisstjórnin gerir rétt í því að hafa það í huga. Ég held að ríkisstjórnin eigi ekki orðið það mikið inni hjá almenningi eftir keyrslu sína að undanförnu að henni sé nú hollast að fara að hugsa sinn gang.

Ég held að það sé alveg ljóst að langgæfulegustu vinnubrögðin hér, frú forseti, væru þau að taka þetta mál og setja það í milliþinganefnd í sumar með rammalöggjöfinni um fjölmiðla, að það yrði farið yfir þetta í heild sinni og saman, málefni Ríkisútvarpsins og lög um það og svo þá rammalöggjöf um fjölmiðla almennt sem er í raun og veru fullbúin í drögum hjá þeirri nefnd sem hefur lokið störfum og reyndar dapurt að það mál skuli ekki hafa a.m.k. komið hér fram og því verið dreift þannig að menn hefðu það til hliðsjónar, þó ekki væri nema það, í þingskjali.

Þetta voru, frú forseti, þær athugasemdir sem ég vildi við þetta tækifæri koma sérstaklega á framfæri.