135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[15:48]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara í efnisatriði þess frumvarps sem hér hefur verið til umræðu. Ítarlega hefur verið farið yfir þau, m.a. af þingmönnum úr mínum þingflokki. Ég vildi spyrja hæstv. félagsmálaráðherra um eitt atriði og það varðar skipan jafnréttisráðs samkvæmt 8. gr. frumvarpsins. Þar er gert ráð fyrir að breyta samsetningu þess. Um það er talað í greinargerð að það verði gert án þess að fjölga í ráðinu en mér sýnist að þar verði fækkað um einn. Það vekur athygli mína að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir fulltrúa frá Samtökum sveitarfélaga í jafnréttisráði en Samband sveitarfélaga tilnefnir nú fulltrúa í jafnréttisráð eins og það er samsett og ég spyr hverju þetta sæti.

Ég tel mikilvægt að sveitarfélögin í landinu komi að jafnréttisráði, sveitarfélögin eru mikilvægt stjórnvald, þar fer fram mjög mikilvæg starfsemi. Gert er ráð fyrir að sveitarfélögin skipi jafnréttisnefndir eins og þau gera og hafa gert til þessa og sveitarfélögin eru líka mikilvægur aðili á vinnumarkaði sem einn stærsti atvinnurekandinn. Gert er ráð fyrir að samtök launafólks tilnefni sameiginlega tvo fulltrúa, þ.e. samtök launafólks á almennum markaði annars vegar og á opinberum markaði hins vegar. Einnig er gert ráð fyrir að Samtök atvinnurekenda tilnefni tvo fulltrúa og ég reikna með að það séu atvinnurekendur á almennum markaði. Þar með eru sveitarfélögin, sem eru einn stærsti atvinnurekandi í landinu, fyrir utan þessa skipan mála. Ég spyr hæstv. félagsmálaráðherra hverju þetta sæti og hvort þetta sé með ráðum gert eða hvort þetta sé handvömm.