135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:34]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Vegna orða hv. þingmanns um nauðsyn þess að koma upp góðum samgöngum til Grímseyjar tek ég heils hugar undir það. Við þingmenn Vinstri grænna höfum einmitt flutt sérstakt bréf til samgönguráðherra um að láta ekki vandræðaganginn í kringum endursmíði Grímseyjarferjunnar tefja aðgerðir í þeim efnum.

Við leggjum því til að þeim tæplega 500 millj. kr. úr ríkissjóði sé beint varið til að smíða ferjuna þannig að endursmíðin geti gengið snurðulaust og löglega fyrir sig. Ég verð að segja að það urðu mér vonbrigði að meiri hluti fjárlaganefndar skyldi ekki fylgja sannfæringu sinni varðandi málið, þarna var kjörið tækifæri til þess. Nefndin gat jú gagnrýnt framkvæmdarvaldið fyrir hvernig það hafði staðið að málum. Hún gat tekið málin ákveðið í sínar hendur og veitt fjárveitingu beint til verksins í stað þess að taka á ónýttum fjárheimildum framkvæmdaliðar Vegagerðarinnar, eins og stendur í skýringunum sem hv. þingmaður vitnaði til. Hún verður síðan að endurgreiða til þessa liðar fyrr eða síðar. Það þyrfti að gera strax.

Ég hvet meiri hluta fjárlaganefndar til að standa fastar í lappirnar gagnvart yfirgangi framkvæmdarvaldsins (Forseti hringir.) eins og fram kemur í tillögunum.