135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[16:29]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 7. þm. Suðurk. Atli Gíslason hefur farið yfir ýmsa þætti sem lúta að fjáraukalögum og sérstaklega vikið að málefnum fyrrum varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli en líkt eins og komið hefur fram við 1. umr. er gerð tillaga um ákveðnar millifærslur á fjárlagaliðum auk ákveðinna breytinga sem ég hvet hv. þingmenn til að kynna sér.

Ég vil einnig, með leyfi hæstv. forseta, víkja að nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar sem ég gerði grein fyrir í ræðu minni fyrr í dag. Þar segir að enn fremur muni hv. fjárlaganefnd skoða á milli umræðna málefni er varðar eignir á fyrrum varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll. Ég hef einnig kynnt hæstv. fjármálaráðherra að fjárlaganefndin hafi óskað eftir að taka upp þessi mál auk þess sem ég hef átt viðræður við ríkisendurskoðanda vegna þessa og einnig rætt það við hv. þm. Pétur Blöndal, formann efnahags- og skattanefndar, enda lýtur það að tekjuhlið málsins, að um það verði fjallað í efnahags- og skattanefndinni.

Ég vil ítreka það að umræddar eignir hafa vissulega verið til sölu og kynntar til sölu samkvæmt upplýsingum frá Þróunarfélaginu. Að öðru leyti mun þetta skýra sig í þeim svörum sem fjárlaganefndin og efnahags- og skattanefndin fá varðandi þessi mál.