135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

netþjónabú.

244. mál
[15:17]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir spurningarnar og ráðherra fyrir svörin. Ég tek það sem svo, sem ég heyri ráðherra segja hér, að athugun Fjárfestingarstofu muni jafnframt leiða til þess að Seyðisfjörður komi inn í það verkefni. Eins og hæstv. ráðherra nefndi eru þar til staðar töluvert margir kostir sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að hægt sé að setja af stað netþjónabú, m.a. kemur Farice-strengurinn á land á Seyðisfirði og þar er verið að byggja virkjun sem getur gripið inn í fari rafmagnið af landsnetinu.

Ég er sátt við að menn líti til þess að hagkvæmni þurfi að vera til staðar, það eiga menn að gera. En það er ekki síður góður kostur ef menn geta einnig (Forseti hringir.) horft til byggðasjónarmiða. Hvað Seyðisfjörð varðar mundi ég halda að (Forseti hringir.) ekki þyrfti að horfa til þeirra sjónarmiða sérstaklega því að hagkvæmnin er til staðar.