135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

starf forstöðumanns veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar.

241. mál
[19:28]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og góð orð. Það hefur að sjálfsögðu nokkurt gildi að ráðherra lýsir hér yfir eindregnum vilja sínum til þess að breytingarnar verði ekki til þess að fækka störfum á Akureyri og almennum vilja til að færa störf út um land eða byggja þau þar upp ekki síður en annars staðar. Við skulum vona að það gangi eftir.

En hinu verður ekki í móti mælt að skipulagsbreytingin sem slík færir forræði og sjálfstæði frá Akureyri til Reykjavíkur og það sem áður var sjálfstætt embætti og síðan yfirmaður sviðs verður núna deildarstjóri. Það er angi af þróun sem líka þarf að hafa í huga og gjalda varhuga við að öll starfsemi af þessu tagi sé ekki alltaf útibú en stjórnunarstöður og yfirmannastöður hnappist saman í miðstöð stjórnsýslunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Í viðskiptalífinu er mikið rætt, ekki síst norðan heiða, um það sem kallað er útibúavæðing reksturs, þar sem áður voru sjálfstæðar höfuðstöðvar fyrirtækja eru nú mjög gjarnan útibú frá stórfyrirtækjum með höfuðstöðvar hér á suðvesturhorninu. Menn vita alveg hvað það þýðir. Það þýðir minna sjálfstæði, minni völd. Vel launuðum stöðum yfirmanna fækkar og ákvörðunartaka og annað slíkt færist í burtu, ýmis umsvif sem því tengjast líka. Miðstýringaráráttan er alltaf til staðar í allri starfsemi af þessu tagi, bæði í hinni opinberu stjórnsýslu og í rekstri fyrirtækja. Gegn henni verða menn að spyrna ef þeir ætla virkilega að ná einhverjum árangri í því sem í orði kveðnu er til að dreifa með eðlilegum hætti í uppbyggingu þjónustunnar um landið sem að sjálfsögðu á að vera markmiðið.

Ég vona sannarlega að ekki standi til að fara að flytja stofnanir til baka sem áður voru fluttar út á land eins og Skógræktina og treysti því. En spurningin er líka um það hversu öflug (Forseti hringir.) starfsemin er og hversu vel er að henni búið og að hún sé vítamíngjafi og kraftmiðstöð í þeim samfélögum þar sem hún er og ekki síst á það við um Akureyri (Forseti hringir.) sem á mjög mikið undir því að þessi þróun snúist ekki við.