135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[20:31]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langaði til þess að inna hv. þingmann eftir þeim málum sem lúta að sveitarfélögunum. Ég veit að hv. þingmaður er ekki sveitarstjórnarfulltrúi en engu að síður komu bæði fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, sem áður höfðu gegnt oddvitastörfum í sveitarstjórnum, inn á þing með miklar yfirlýsingar í sveitarstjórnarmálum um að nú skyldi færa til tekjustofna, nú skyldi þegar í stað koma fram lagafrumvarp sem yki og breikkaði tekjustofna sveitarfélaga. Hafðir voru uppi háværir svardagar í þeim efnum og einnig hvað varðaði málaflokka sem sveitarfélögin hafa stimpast við ríkið um að fá fjármagn til. Það er ríkið sem setur lögin, Alþingi setur lögin, og síðan er það sveitarfélaganna að borga. Þessi samskipti hafa verið svo slæm að menn hafa talað um að rjúfa þau eða kljúfa upp samtök sveitarfélaga.

Ég held að öllum hljóti að koma það mjög á óvart eftir þessi heit fulltrúa Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, sem eru í fjárlaganefnd og hafa þar tök á málum, að ekkert nýtt skuli hafa gerst í þessum efnum. Það er jú fyrst og fremst í fjárlögum sem þess á að sjá stað. Samband sveitarfélaga leggur meira að segja fram tillögur og segir: Þetta er bara nokkuð sem ríkið ber ábyrgð á og við erum búin að semja um að sé greitt samkvæmt lögum sem Alþingi hefur sett á sveitarfélögin. Ég nefni fráveitumálin, ég nefni varasjóð húsnæðismála. (Forseti hringir.) En það sést ekki stafur af þessu hjá meiri hlutanum, herra forseti.