135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[20:33]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að taka þetta upp. Í síðustu viku, að ég held, tók hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon upp fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Ég tók þátt í þeirri umræðu og lýsti þeirri skoðun minni að ég teldi að sá farvegur sem samræður þessara tveggja stjórnsýslustiga hefur verið í sé ekki heppilegur. Ég tel að menn þurfi að komast upp úr þeim hjólförum sem þau samskipti hafa verið í allt of lengi.

Ég nefndi þá að mér fyndist koma til greina að þriðji aðili yrði fenginn til þess að vera einhvers konar sáttasemjari eða málamiðlari í umræðum milli þessara tveggja aðila, það er alveg ljóst að þetta getur ekki gengið svona áfram. Það er vitlaust gefið, það viðurkenna mjög margir. Hvaða leið sem verður farin í því, hvort borga þarf niður skuldir verst stöddu sveitarfélaganna, hvort lausnin er sú að veita sveitarfélögunum hlutdeild í fjármagnstekjuskatti eða leita einhverra annarra leiða varðandi skattamálin, held ég að það sé alveg ljóst að eitthvað verður að gerast á þessu kjörtímabili. Umræðan getur ekki gengið svona lengur. Þessi umræða er hvorugum aðilanum til góðs, sveitarstjórnarfólki líður alltaf eins og það sé að koma með betlistaf til ríkisvaldsins, sem er eins og stóri bróðir og segir nei við öllu. Við þurfum að komast upp úr því fari. Ég er tilbúin til að fara í þann leiðangur með hv. alþingismönnum og mörgum félögum mínum af sveitarstjórnarstiginu og ég bind miklar vonir við að ríkisstjórnin muni taka á þessum málum á þessu kjörtímabili.