135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:20]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það eru ákaflega viðsjárverðir tímar í efnahagsmálum, verðbólgan á þessu ári verður um 6% sem er um 140% yfir verðbólgumarkmiðum Seðlabanka Íslands. Þetta er fimmta árið í röð þar sem svo tekst til um stjórn efnahagsmála að verðbólga er yfir þeim mörkum sem stjórnvöld hafa sett sér. Há verðbólga er að festast í sessi og það verður mikið átak að ná henni aftur niður á það stig sem ásættanlegt er og birtist í verðbólgumarkmiðum Seðlabanka Íslands.

Ofan í þessa stöðu koma boðaðar almennar skattalækkanir hæstv. forsætisráðherra sem olía á eld. Hann hefur sem betur fer séð að sér og virðist hafa dregið þær til baka, a.m.k. um sinn. Það er eitt aðalverkefni þessarar ríkisstjórnar að ná jafnvægi í efnahagsmálunum og stöðugleika í efnahagskerfinu. Fram undan er áframhaldandi verðbólgutímabil, miklar framkvæmdir á næstu tveimur árum, bæði hjá hinu opinbera og einkaaðilum, upp á nærri 500 milljarða kr. Því til viðbótar munu svo bætast við framkvæmdir í virkjunum og stóriðjuframkvæmdum sem áformaðar eru og munu örugglega einhverjar þeirra koma til framkvæmda á þessum tíma. Þess vegna verður það verkefni ríkisstjórnar að ná jafnvægi í efnahagsmálum enn mikilvægara en áður. Lykilatriði í því er að ríkisstjórnin haldi rétt á málum í komandi kjarasamningum.

Til að tryggja hófsama kjarasamninga verður ríkisstjórnin að spila út aðgerðum í skattamálum sem bæta kjör elli- og örorkulífeyrisþega og lágtekjufólks. Ríkisstjórnin hefur þegar tekið upp innihaldið í tillögum okkar þingmanna Frjálslynda flokksins í breytingum á almannatryggingalöggjöfinni sem liggur fyrir hv. þingnefnd.

Alþýðusamband Íslands hefur tekið upp tillögu Frjálslynda flokksins í skattamálum um sérstakan persónuafslátt sem liggur líka fyrir hv. þingnefnd þar um. Við erum algjörlega sannfærðir um að þessar tvær tillögur eru skynsamlegar til að feta leiðina að ábyrgum kjarasamningum sem verða til þess að verðbólga lækkar og stöðugleiki kemst aftur á í efnahagsmálunum.