135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[16:39]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er svolítið skemmtileg umræða. Menn gera það sem þá langar til að gera. Ég held að þessi hugsun, sem byggir á sérhagsmunum og iðulega eigingirni, hafi leitt okkur í miklar ógöngur. En hin hugsunin að taka tillit til, horfa til samfélagsins og ábyrgðar, ekki síst þegar við sýslum með sameiginleg verðmæti sé nokkuð sem við þurfum að virkja að nýju. Við þurfum að endurreisa samfélag á Íslandi sem menn hafa verið að tæta í sundur í sérhagsmunahyggju sem talsmaður Sjálfstæðisflokksins boðar eina ferðina enn, jafnvel þótt við horfum fram á gjaldþrot þessarar stefnu. Nú reynir samfélagið að taka höndum saman og finna leiðir til sátta þannig að við getum öll í sameiningu lagst á árarnar. Stefnan sem hv. þm. Pétur H. Blöndal talar fyrir er gjaldþrota.

Það er rétt, að það eru greiddir miklir fjármunir inn í lífeyrissjóðina. Það er ekkert óeðlilegt að launafólkið og samfélagið allt vilji að þeir fjármunir vinni í þess þágu. Sú var tíðin að fjármunir sem lagðir voru til hliðar fóru til uppbyggingar á íslensku velferðarkerfi. Núna hefur hvorki ríki né sveitarfélag leitað eftir slíku fjármagni, nema í takmörkuðum mæli til Íbúðalánasjóðs sem menn vilja líka slátra. Í staðinn hafa þessir fjármunir farið inn í fjármálastofnanirnar. Ég segi einfaldlega að fólkið, launafólkið, þjóðin gerir þá kröfu að farið sé vel með þessa fjármuni. En á móti vilja menn að sjálfsögðu að þessum stofnunum, bankakerfi okkar, vegni vel. Við viljum einvörðungu að þar sé sýnd sanngirni og réttlæti ríki.