135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 49/2007, um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn.

558. mál
[20:58]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 49/2007, um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn.

Með þessari tillögu er leitað heimilda Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 49/2007 um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn eins og áður sagði og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2005/89/EB um ráðstafanir til að tryggja öruggt framboð raforku og um fjárfestingar í grunnvirkjum. Gerð er grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeirri tilskipun sem hér um ræðir.

Tilskipun 2005/89/EB varðar ráðstafanir til að tryggja öryggi í orkuöflun og fjárfestingum í flutningi og dreifingu á raforku. Í tilskipuninni er lögð áhersla á nauðsyn þess að tryggja jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar raforku. Sú skylda er lögð á aðila að tryggja að settar séu, og staðfestar, viðbragðsáætlanir sem og að gripið verði til aðgerða til að mæta frávikum í raforkukerfinu. Skylda þessi hvílir jafnt á ríkjum, opinberum eftirlitsaðilum sem og dreifiveitum og kerfisstjórum flutningskerfa.

Tilskipunin fjallar að hluta til um viðskipti með raforku og tengingu yfir landamæri og á því ekki að öllu leyti við innlendar aðstæður enda er íslenska raforkukerfið einangrað frá öðrum kerfum. Þá mun tilskipunin ekki kalla á ítarlegar lagabreytingar þar sem einstaka ákvæði hennar er nú þegar að finna í innlendri löggjöf upp að vissu marki.

Tilskipunin kann að kalla á breytingar á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum, og reglugerð um framkvæmd raforkulaga, nr. 1040/2005. Hins vegar er að svo stöddu ekki ljóst hversu ítarlegar þær breytingar munu verða.

Í iðnaðarnefnd er nú til umfjöllunar frumvarp til breytinga á raforkulögum þar sem m.a. er lögð til skylda á dreifiveitur, vinnslufyrirtæki og flutningsfyrirtækið til að hafa til staðar viðbragðsáætlanir við vá. Þar af leiðandi er þegar verið að leggja til breytingar á raforkulögum í anda tilskipunarinnar.

Unnið er að innleiðingu tilskipunarinnar í iðnaðarráðuneytinu.

Ég legg til, frú forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og til hv. utanríkismálanefndar.