135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

staða samninga um svæði við Svalbarða og Hatton-Rockall.

335. mál
[12:11]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Af því að fyrirspyrjandi nefndi Jan Mayen samninginn frá 1976 get ég tekið undir að hann hefði þurft að vera betri fyrir Íslands hönd. Það var söguleg ógæfa að Ísland var ekki í aðstöðu til að gæta hagsmuna sinna þegar Norðmenn helguðu sér Jan Mayen en þá fóru Danir með utanríkismál Íslands og gerðu m.a. ekkert með merkilegt bréf Jóns Þorlákssonar frá 1927, að mig minnir, sem minnti á rétt Íslendinga í því sambandi. Danir stungu því undir stól og gerðu ekkert með það. Ég hygg hins vegar að torvelt verði að fá samninginn tekinn upp.

Varðandi Svalbarðamálið segi ég bara það að ætli reynslan sýni ekki eins og hæstv. utanríkisráðherra fór hér yfir að Norðmenn hafa gott af dálitlum þrýstingi. Þeir hafa gott af því að muna að það er ekki sjálfgefið að þeir með sína ágengu stefnu í Norðurhöfum fái alltaf allt sitt fram.

Í þriðja lagi með Hatton-Rockall tek ég undir að þar hefur verið unnið vel að málum og utanríkismálanefnd hefur verið haldið upplýstri. Það er til fyrirmyndar og ég tel að þar eigi embættismenn og ráðuneytið hrós skilið fyrir að unnið er með mjög metnaðarfullum og markvissum hætti að því.