135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[17:58]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var fínn lögfræðifyrirlestur hjá hv. þm. Jóni Magnússyni og hefði sómt sér vel við lagadeild Háskóla Íslands. Ég tek það þó skýrt fram að ég er ekki fylgjandi því að hv. þingmaður verði sendur þangað úr þessum sölum. Ég held að hann sé vel geymdur hér og leggur jafnan margt mjög snjallt og gott til málanna.

Hv. þingmaður spyr hvort þetta mál hafi verið rætt í ríkisstjórn Íslands. Að sjálfsögðu. Það kom fram áður í þessum sölum. Að sjálfsögðu ræðir ríkisstjórn Íslands mál sem er jafnalvarlegt og þetta. Ég tek þetta alvarlega og það liggur alveg ljóst fyrir af minni hálfu að ég tel að verða þurfi við þessum úrskurði. Það þarf að svara honum með aðgerðum. Ég er algjörlega klár á því.

Ég minnist þess ekki að hafa heyrt þá sem þingmenn Frjálslyndra kalla í dag talsmenn ríkisstjórnarinnar bera einhverjar brigður á það. Ég er algjörlega klár á því og þurfti ekki þennan lærða fyrirlestur hv. þingmanns til að hafa það á hreinu að við erum aðilar að þessum samningi og okkur ber þess vegna að fara að þessum úrskurði. Og þó að ekki sé til það sem hv. þingmaður réttilega kallar alþjóðalöggu til að berja þá í hausinn sem reyna að skjóta sér undan því þá getum við það ekki móralskt. Við verðum að gera það.

Það sem vantaði í ræðu hv. þingmanns þegar þessari fínu lögfræði sleppti var með hvaða hætti hv. þingmaður vill bregðast við. Það eru ýmsar leiðir til þess. Ég vildi gjarnan fá svör við því hjá þeim ágætu þingmönnum sem flytja hér skeleggar tillögur um málið með hvaða hætti þeir vilja bregðast við þessu. Sú tillaga sem hér er til umræðu er jú flutt af þingmönnum tveggja eða þriggja stjórnmálaflokka en þessir flokkar hafa allir mismunandi afstöðu til stjórnkerfis fiskveiða og enginn þeirra nema hugsanlega stakur þingmaður í einum flokkanna hefur svo ég hafi heyrt í þessum sölum lagt fram einhverja afstöðu um það með hvaða hætti á að verða við því.