135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[18:22]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef staðið í þessum stól alloft undanfarna daga og rætt við fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í hinum ýmsu málum. Orð eins og „að einkavæðing hljóti að vera í farvatninu“ og „að hin og þessi mál hljóti að leiða til einkavæðingar“ eða „að hér sé eitthvað dulið í málum“ hafa oft verið viðkvæðið í þeim umræðum. Ég er orðin nokkuð þreytt á þessu en virði hv. þingmönnum það til vorkunnar að eitthvað þurfa þeir að nota þegar góð mál fara í gegn til þess að vekja athygli á sér og málstað sínum.

Virðulegi forseti. Það er ekkert í þessu frumvarpi — og eftir alla þá umræðu sem við áttum hér um skólagjöldin við 1. umr. málsins, þar sem mjög ólík sjónarmið komu fram, hefði ég haldið að hv. þingmaður mundi fagna þeirri niðurstöðu sem meiri hluti nefndarinnar kemst að í nefndaráliti, þar sem skýrt er kveðið upp úr um það að þetta eigi hvorki að auka á gjaldtöku hvað þjónustugjaldaliðinn varðar né heldur eigi frumvarpið að vera upphafið að upptöku skólagjalda.

Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þingmaður geti einu sinni fagnað með okkur þegar við höfum þó náð þessari niðurstöðu eftir þá háværu umræðu sem varð í samfélaginu og milli þingmanna hér í þessum sal. Þetta er afgerandi niðurstaða í nefndaráliti sem skjalfest er í þinginu og fylgir með afgreiðslu málsins.

Virðulegi forseti. Ég er ekki að reyna að tala mig frá einu eða neinu. Ég barðist fyrir því að breytingar yrðu gerðar á háskólaráði. Ég gerði það og það veit hv. þingmaður enda var hún í nefndinni. Ég nefndi tvær ástæður fyrir því að ég vildi gera breytingar á 6. gr., ég tel að með þessari niðurstöðu hafi menn teygt sig mjög langt í átt að sjónarmiðunum sem ég fylgdi. Ég get því ekki annað en fagnað því að nemendur haldi sínum tveimur aðilum og að fulltrúum kennara hafi verið fjölgað. Ég sagði það hér í minni ræðu að vel verður fylgst með þessari framkvæmd.